top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Líf og fjör á söfnum


Söfn, jól, Ísland, landsbyggðin, aðventan, úr vör, vefrit, Sauðfjársetrið
„Söfn varðveita muni, gripi, listaverk, sögur, fróðleik, myndir og minningar sem tengjast vetrinum og jólahátíðinni.“ Ljósmynd Sauðfjársetrið

Texti: Dagrún Jónsdóttir


Jólin eru magnaður tími. Þó þau séu haldin í svartasta skammdeginu er fólk yfirleitt í hátíðarskapi. Samkvæmt þjóðtrúnni er styttra á milli heima í kringum jólin, allskonar yfirnáttúrulegar verur eins og huldufólk, tröll og auðvitað jólasveinar eru á ferðinni.

Jólaljósin lýsa upp myrkrið, fólk skreytir húsin sín, eldar dýrindis veislumat og gefur fjölskyldu og vinum gjafir. Það er ys og þys og nóg að gera og græja. Jólunum tengjast ótal siðir og hefðir sem hafa tekið breytingum í gegnum tíðina. Þessar breytingar má meðal annars sjá á söfnum.

Það er gaman að heimsækja söfn á aðventunni og rifja upp gamla tíma. Hvað þótti áður ómissandi hluti af jólunum og hvað hefur bæst við? Hvernig gæti hátíðin haldið áfram að breytast á komandi árum? Hvernig hefur listafólk sótt innblástur í jólahátíðina? Þá spyrja söfn líka mikilvægra spurninga eins og hvernig hugsum við um náttúruna og umhverfið í jólagjafaflóðinu?


Í desember, í aðdraganda jólanna, er líka oft mikið um að vera og fjör á söfnum landsins. Þau eru gífurlega fjölbreytt, ólík og áhugaverð. Í safnaflórunni má finna náttúrugripa-, lista- og minjasöfn sem öll hafa mikilvægu hlutverki að gegna í samfélaginu. Hlutverk safna er auðvitað að safna munum og minningum, skrá og varðveita fyrir framtíðina, stunda rannsóknir og miðla. Svo eru þau í mörgum tilfellum mikilvægar menningarstofnanir í sínum nærsamfélögum.

Víða eru settar upp sérstakar jólasýningar, haldnir jólaviðburðir, tónleikar, fræðafjör, smiðjur og skemmtanir fyrir fólk á öllum aldri. Söfnin varðveita muni, gripi, listaverk, sögur, fróðleik, myndir og minningar sem tengjast vetrinum og jólahátíðinni og í desember er kjörið tækifæri til að draga slíkt fram og leyfa sem flestum að njóta.

Þá má líka skella sér á safn til að þess að forða sér frá jólahasarnum, brjóta upp stressið og slaka á. Eiga notalega stund með fjölskyldu, vinum eða sjálfum sér, fá sér heitt kakó á kaffihúsi safnsins eða kaupa jólagjafir í safnbúðinni.

Söfn á Íslandi, söfn, Ísland, aðventa, desember, jól, úr vör, vefrit, Þjóðminjasafn Íslands
„Oft er mikið um að vera á söfnum landsins á aðventunni. Hér má sjá jólasveina heimsækja Þjóðminjasafn Íslands.“ Ljósmynd Þjóðminjasafn Íslands.

Í ár hafa söfn á Íslandi tekið sig saman um að búa til sameiginlegt jóladagatal á vefnum. Einn gluggi verður opnaður í jóladagatalinu á hverjum degi og þar leynast allskonar fallegir gripir, munir, listaverk og náttúrufyrirbrigði sem tengjast jólunum og vetrinum. Þannig eru söfnin einnig gerð aðgengileg, því hægt er að njóta þess að skoða dagatalið heima, sjá skemmtilega og áhugaverða gripi sem tengjast jólunum. Jóladagatal safnanna er aðgengilegt á Facebook síðunni Félag íslenskra safna og safnmanna og á Instagram síðunni Safnagrammid.


Ég mæli með jóladagatalinu og hvet fók til að telja niður til jólanna á umhverfisvænan, spennandi og fróðlegan hátt. Svo hvet ég ykkur líka til að búa til nýja jólahefð: Heimsækja safn í nærumhverfinu, skoða jólasýningu eða taka þátt í jólaviðburði á safni. Söfn eru upplýsandi, fræðandi og gefandi. Þar má finna jólaandann svífa yfir vötnum, hátíðleika og gleði.


bottom of page