top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Ólík lífsviðhorf mætast


Leysingar, listahátíð, gjörningar, Siglufjörður, Alþýðuhúsið, landsbyggðin, list, menning, hvítasunnuhelgin, úr vör, vefrit
„Gjörningaform myndlistar á sér langa sögu og er mjög viðurkennt form á listsköpun. Þar koma saman ólíkar listgreinar og sameinast í einhvernskonar spuna eða fyrirfram gefnu flæði sem skilar sér í einstakri upplifun til áhorfandans.“ Ljósmynd úr safni Alþýðuhússins

Um næstkomandi Hvítasunnuhelgi, nánar tiltekið dagana 29. - 31. maí verður blásið til sannkallaðrar hátíðar í Alþýðuhúsinu á Siglufirði. Hátíðin ber nafnið Leysingar og þar verða á boðstólnum gjörningar, sýningar, ljóð, joga og tónleikar. Alþýðuhúsið hefur staðið fyrir Gjörningahátíð yfir páskana á hverju ári síðan árið 2013 og hefur mikill fjöldi listamanna víðsvegar að úr heiminum í bland við heimamenn tekið þátt. Breyttar aðstæður þetta árið vegna Covid19 heimsfaraldursins gerðu það að verkum að hátíðinni var frestað en það er gleðiefni að segja frá því að nú styttist í sem fyrr segir.


Alþýðuhúsið á Siglufriði er vinnustofa og heimili Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur. Auk þess er þar viðburðarrými og lítið gallerý sem kallast Kompan sem Aðalheiður hefur rekið í 20 ár, fyrst í Listagilinu á Akureyri áður en hún setti það svo upp á Siglufirði en þar eru reglulegar sýningar þar sem bæði Íslendingar og erlendir aðilar sýna.


Á þessari hátíð hafa í gegnum árin mæst ólíkir straumar og lífsviðhorf sem opna glugga í allar áttir og gefa þátttakendum tækifæri til að láta ljós sitt skína, kynnast öðru skapandi fólki og mynda tengs. Á síðasta ári bættist við upplifunina glæsileg tónlistadagskrá og þetta árið verður önnur viðbót, en nú mun bætast við ljóðalestur og joga. Með slíkri viðbót gefst tækifæri til að kanna enn frekar tengsl tónlistar við myndlist, kvikmyndagerð, listdans, joga, ljóð og bókmennta og hægt verður að sjá hvernig þessar listgreinar mæta hvor annarri á þvers og kruss og styðja hvor aðra. Í Alþýðuhúsinu er lögð mikil áhersla á að skapa grundvöll fyrir frjálsa sköpun og boða til leiks listamenn sem kunna að fara með það form.

Davíð Þór Jónsson, Leysingar, Alþýðuhúsið, Siglufjörður, landsbyggðin, norðurland, menning, list, tónlist, úr vör, vefrit
Davíð Þór Jónsson mun halda tónleika og taka þátt í tónlistarspuna í Alþýðuhúsinu. Ljósmynd Alþýðuhúsið

Gjörningaform myndlistar á sér langa sögu og er mjög viðurkennt form á listsköpun. Þar koma saman ólíkar listgreinar og sameinast í einhvernskonar spuna eða fyrirfram gefnu flæði sem skilar sér í einstakri upplifun til áhorfandans. Við hvetjum því áhugasama um að gera sér ferð til Siglufjarðar þessa tilteknu helgi og gera sér glaðan dag því ljóst er að sjón er sögu ríkari. Dagskrána má sjá hér að neðan og einnig er hægt að sjá frekari upplýsingar á Facebook síðu Alþýðuhússins.


Leysingar - 29. - 31. maí 2020 Kompan sýningaropnun 29. maí kl. 16.00 - Páll Haukur Björnsson Sýningin er opin daglega kl. 14.00 - 17.00 til 6. júní.


Gjörningadagskrá 29. maí kl.17.00 - 19.00 - Listhópurinn Kaktus


Segull 67 sýningaropnun 30. maí kl. 14.00 - Ásdís Sif Gunnarsdóttir Sýningin er opin til 1. júní kl. 14.00 - 17.00

Tónleikar 30. maí kl. 17.00 - Davíð Þór Jónsson

Ljóðalestur 30. maí kl. 18.05 - 18.20 - Sigurbjörg Þrastardóttir

Tónlistaspuni 30. maí kl. 18.25 - Davíð Þór Jónsson, Þórir Hermann Óskarsson, Framfari og aðrir listamenn sem staddir eru í húsinu.


Tónleikar og Joga 31. maí kl. 14.00 - Kira Kira og Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir Gestir eru beðnir að koma með jogadýnu.

Einnig verður Örlygur Kristfinnsson með sýninguna Lundabúðin í Söluturninum Aðalgötu 23. Siglufirði. Opið 29. - 31. Maí kl 15.00 - 17.00.


Kira Kira, tónleikar, joga, Leysingar, Alþýðuhúsið, Siglufjörður, list, menning, landsbyggðin, norðurland, úr vör, vefrit, joga, tónlist, tónleikar
Kira Kira verður með tónleika og joga sunnudaginn 31. maí á hátíðinni. Ljósmynd úr safni Alþýðuhússins.


Comments


bottom of page