Kómedíuleikhúsið á Vestfjörðum er farið að brydda uppá spennandi nýjung, en forsvarsfólk þessa mæta leikhús er ansi duglegt og virkt í leikhússenunni. Vefritið ÚR VÖR fékk senda fréttatilkynningu frá því ágæta fólki og þar segir:
„Veiruskömmin hefur haft áhrif útum allt og er leikhúsið þar ekki undanskilið. Líklega hefur einmitt leiklistin, list augnabliksins, orðið fyrir einni mestu röskun á sinni starfsemi af öllum listgreinunum. Þegar svo mikið rask verður á starfsemi leikhússins þá þarf að finna nýjar leiðir og huxa með opin haus.“
Í fyrrnefndri fréttatilkynningu segir að Kómedíuleikhúsið hafi svo sannarlega þurft að reyna að fatta uppá einhverju nýju til að geta haldið áfram að vera til. Einn liður í þeirri nývegferð er tilkoma hlaðvarps Kómedíuleikhússins er nefnist, Leikhúsmál. En gaman er að geta þess að fyrsta leiklistartímarit á Íslandi hét einmitt Leikhúsmál. Ritið var gefið út um miðja síðustu öld af leikaranum Haraldi Björnssyni.
Fram kemur í fréttatilkynningunni að umsjónarmaður hlaðvarpsins sé Elfar Logi Hannesson, leikari Kómedíuleikhússins, og upptakari er Marsibil G. Kristjánsdóttir. Jafnframt segir þar að Leikhúsmál sé vikulegur hlaðvarpsþáttur, en hver þáttur er frumfluttur á fimmtudegi og er síðan aðgengilegur á öllum helstu streymisveitum.
Í Leikhúsmálum er fjallað um leiklistina á breiðum grunni og kemur Elfar Logi víða við í þáttum sínum. Nú þegar hafa nokkrir þættir verið settir í loftið og víst er efnið fjölbreytt, allt frá ævisögum leikara til umfjöllunar um leikskrár, leikrit á hljómplötum og umfjöllun um leikskáld sem leikhúslistafólk. Einnig koma gestir reglulega til viðtals í Leikhúsmál.
Leikhúsmál eru tekin upp í nýstandsettu hljóðveri Kómedíuleikhússins sem er í leiklistarmiðstöð leikhússins á leikhúseyrinni, Þingeyri.
Við hvetjum áhugasama eindregið til að kynna sér þetta betur, en hér í hlekknum að neðan má hlusta á Leikhúsmál:
https://sillihelga.podbean.com/?fbclid=IwAR1o9pNlEc21j39nQxQDAjS-MjNZghk7S7g9-IqvffZrcylaYic4ceH_6yQ
コメント