top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Leikhúsmál


Leikhúsmál, Kómedíuleikhúsið, Vestfirðir, Þingeyri, leikhús, list, menning, landsbyggðin, úr vör, vefrit, Elfar Logi Hannesson, Marsibil Jónsdóttir
Við upptökur á þætti af Leikhúsmálum. Ljósmynd Kómedíuleikhúsið

Kómedíuleikhúsið á Vestfjörðum er farið að brydda uppá spennandi nýjung, en forsvarsfólk þessa mæta leikhús er ansi duglegt og virkt í leikhússenunni. Vefritið ÚR VÖR fékk senda fréttatilkynningu frá því ágæta fólki og þar segir:

„Veiruskömmin hefur haft áhrif útum allt og er leikhúsið þar ekki undanskilið. Líklega hefur einmitt leiklistin, list augnabliksins, orðið fyrir einni mestu röskun á sinni starfsemi af öllum listgreinunum. Þegar svo mikið rask verður á starfsemi leikhússins þá þarf að finna nýjar leiðir og huxa með opin haus.“

Í fyrrnefndri fréttatilkynningu segir að Kómedíuleikhúsið hafi svo sannarlega þurft að reyna að fatta uppá einhverju nýju til að geta haldið áfram að vera til. Einn liður í þeirri nývegferð er tilkoma hlaðvarps Kómedíuleikhússins er nefnist, Leikhúsmál. En gaman er að geta þess að fyrsta leiklistartímarit á Íslandi hét einmitt Leikhúsmál. Ritið var gefið út um miðja síðustu öld af leikaranum Haraldi Björnssyni.


Fram kemur í fréttatilkynningunni að umsjónarmaður hlaðvarpsins sé Elfar Logi Hannesson, leikari Kómedíuleikhússins, og upptakari er Marsibil G. Kristjánsdóttir. Jafnframt segir þar að Leikhúsmál sé vikulegur hlaðvarpsþáttur, en hver þáttur er frumfluttur á fimmtudegi og er síðan aðgengilegur á öllum helstu streymisveitum.


Í Leikhúsmálum er fjallað um leiklistina á breiðum grunni og kemur Elfar Logi víða við í þáttum sínum. Nú þegar hafa nokkrir þættir verið settir í loftið og víst er efnið fjölbreytt, allt frá ævisögum leikara til umfjöllunar um leikskrár, leikrit á hljómplötum og umfjöllun um leikskáld sem leikhúslistafólk. Einnig koma gestir reglulega til viðtals í Leikhúsmál.


Leikhúsmál eru tekin upp í nýstandsettu hljóðveri Kómedíuleikhússins sem er í leiklistarmiðstöð leikhússins á leikhúseyrinni, Þingeyri.


Við hvetjum áhugasama eindregið til að kynna sér þetta betur, en hér í hlekknum að neðan má hlusta á Leikhúsmál:



Comments


bottom of page