top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Langstökkvari stekkur yfir í listina

Vestfirskir listamenn


Þorvaldur Skúlason, Vestfirskir listamenn, Vestfirðir, list, menning, listmálun, úr vör, vefrit, Elfar Logi Hannesson
Listamaðurinn Þorvaldur Skúlason. Ljósmynd aðsend frá Elfari Loga Hannessyni

Þorvaldur Skúlason

F. 30. apríl 1906 á Borðeyri. D. 30. ágúst 1984.

Öndvegisverk: Frá Reykjavíkurhöfn, 1931, Kona að lesa bók, 1939, Málverk, 1968.


„15 ára þegar ég byrjaði fyrir alvöru að teikna. Ástæðan til þess var sú, að ég lá heilt sumar í fótbroti. Ég var að æfa mig í langstökki með nokkrum félögum mínum. Hafði heitið því með sjálfum mér, að ég skyldi setja met. Þetta var slæmt fótbrot, báðar pípurnar brotnuðu um öklann.“ Lífið er oft eigi ósvipað ævintýrinu það getur allt gerst og breytt tilverunni. Svo var það sannlega með vestfirska listamanninn Þorvald Skúlason sem er einn mesti brautryðjandi myndlistar á Íslandi í langan tíma. Listina átti hann ekki langt að sækja því faðir hans, Skúli Jónsson, faktor á Borðeyri, þótti drátthagur. Heimili þeirra hjóna Skúla og Elínar Theodórsdóttur var sannlega listelskað því þar voru listaverk á veggjum, tónlist spiluð af grammafóni að ógleymdum bókverkum.


Guttinn Þorvaldur hafði sérstakt dálæti af listaverkabók einni um hinn spænska Goya. Það fá börnin sem þau alast upp við og listin var því jafnsjálfsögð þar og þverskorna ýsan. Fjölskyldan flutti síðan á Blönduós þar sem faðirinn tók við verslunarstjórastöðu Riis verslunnar. Þegar Þorvaldur var aðeins 9 ára féll faðir hans frá og stóð Elín ein eftir með börnin fimm.

Þorvaldur, frumburðurinn, var kominn á sjóinn svo snemma sem 14 ára til að létta undir á heimilinu. Orðinn messagutti á m.s. Gullfossi og hafði jafnvel hug á að gjörast sjómaður. En svo kom stökkið sem öllu breytti, langstökkið sem varð til þess að listin varð hans ævistarf.

„Ég mála til að skilja hlutina sem best.“

Reyndar var það nú svo að hann teiknaði mest báta myndir í fótbrotinu og síðar voru það einmitt skipamyndir sem gripu fyrst athygli gónenda og listnjótenda. Þó vissulega hafi hann eigi verið fastur í ákveðnu formi heldur sífellt leitandi í list sinni. Enn eitt stökkið tók hann þegar hann sótti einkatíma í myndverkinu hjá Þórarni B. Þorlákssyni seinna hjá Ríkharði Jónssyni og loks árið 1922 er hann kominn í læri hjá Ásgrími Jónssyni listmálara í Reykjavík. Á þessum tíma voru listaskólar bara í úttlandinu og því buðu margir listamenn uppá einkakennslu og svo fóru þeir sem þrjóskuna og hæfileikana höfðu til úttlanda í listnám. Kennslan hjá Ásgrími fólst fyrst og fremst í því að setja hinum ungu listamönnum fyrir ákveðið verkefni sem hann svo rýndi í og þá helst til góðs. Lífsvinátta varð millum Ásgríms og Þorvaldar sem fóru margar málverkareisur m.a. á Húasafell. Máluðu þá allajafna hlið við hlið enda fannst hinum eldra öryggi í því að hafa einn sér nærri enda þjáðist hann alla tíð af slæmum astma.


Árið 1927 tók Þorvaldur þátt í samsýningu Listvinafélagsins í Reykjavík. Gaggari Moggans mætti og var einstaklega hrifinn af okkar manni „Sólskinsblettur sýningarinnar er Þorvaldur Skúlason. Hann er málari. Á því er enginn vafi.“16. febrúar ári síðar heldur hann síðan fyrstu einkasýningu sína, í Bárubúð við Vonarstræti í Reykjavík. Enn voru gaggarar með opin augun „Þorvaldur sér ótrúlega vel liti og er glöggur á efnisval.“ Sama ár fer hann loks utan til að listmennta sig. Fer ásamt vini sínum Snorra Arinbjarnar en saman höfðu þeir fundið sig í teikningunni forðum daga á Blönduósi og nú lá leið þeirra í listaskóla í Osló.

Þorvaldur Skúlason, Vestfirskir listamenn, Vestfirðir, list, menning, listmálun, úr vör, vefrit, Elfar Logi Hannesson
Sjálfsmynd eftir Þorvald Skúlason

Þorvaldur hélt áfram að upplifa úttlandið að námi loknu bjó bæði í Danmörku og Frakklandi, var iðinn við listverkið og tók þátt í fjölda sýninga. Gaggarar þarlendir voru eigi síður hrifnir en kollegar þeirra á eyjunni heima og hafði einn að orði um Þorvaldinn „formsins maður og hins kyrra djúpa litar.“ Árið 1938 gengur hann svo að eiga Astrid Fugman en systir hennar var Tove er var gift Jóni Engilbertssyni listmálara.

Hjónin ungu bjuggu í Frakklandi og hefðu jafnvel verið þar áfram ef stríðið hefði ekki skollið á. Sem betur fer höfðu þau vit á að flýja þaðan áður en hinir óðu Þjóðverjar hernámu landið. Svo hraður var flóttinn að þau urðu að skilja allt eftir, búslóð sem og listaverk húsbóndans.

„Abstraktlistin tekur við þar sem orðunum sleppir.“

Dóttur eignuðust þau Astrid og Þorvaldur en árið 1948 slitu þau samvistum. Þorvaldur starfaði um tíma sem kennari við Handíða- og myndlistarskóla Íslands en annars átti málverkið hug hans allan. Árið 1947 stofnaði hann í kompanýi við kollega „Septemberhópinn“ sem stóð fyrir samsýningu sem olli straumhvörfum í íslenskri myndlist og átti hópurinn eftir að endurtaka leikinn nokkur næstu ár. Þorvaldur var ekkert að staðna í list sinni heldur var sífellt leitandi, prófandi og fetandi áfram strigann. Hann fór frá landslagsverkum, skipa, formverka og allt yfir í abstrakt listina og er án nokkurs efa frumkvöðull þar. Æðsti listpáfi abstrakt stefnunnar á Íslandi. Best er að listamaðurinn sjálfur eigi síðustu strokuna í þetta greinarkorn „Listaverk verður að vera sjálfstæður hlutur, lífræn heild, sem þolir að vera rifið úr því umhverfi sem það er af.“


Aðalheimild: Björn Th. Björnsson. Þorvaldur Skúlason. Brautryjandi íslenzkrar samtímalistar. Bókaútgáfan Þjóðsaga, 1983.


Comentarios


bottom of page