top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Öfund kveikur að hugmyndinni


Landnámssetur Íslands, Borgarnes, Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, úr vör, vefrit
F.v. Sigríður Margrét Guðmundsdóttir, Áslaug Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Kjartan Ragnarsson og Justyna Jasinska, kokkur. Ljósmynd Landnámssetur Íslands

Það vita það ekki margir en Landnámssetur Íslands er stærsti vinnustaðurinn í Borgarnesi. Yfir tuttugu manns eru fastráðnir þar og yfir sumartímann eru á bilinu þrjátíu til fjörutíu manns á launaskrá. Um 50.000 manns sækja sýningarnar þar árlega og í heildina heimsækja setrið yfir 100.000 manns á hverju ári. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Sigríði Margréti Guðmundsdóttur á dögunum og forvitnaðist um starfsemina þar.


Sigríður og maður hennar Kjartan Ragnarsson hófu starfsemi Landnámssetursins árið 2003 og er það staðsett í einu af elsta húsi Borgarness, gömlu pakkhúsi. Við það hús tengist svo veitingastaður með tengibyggingu. Flaggskip þeirra eru sýningarnar um landnám Íslands og sýning byggð á Egilssögu sem fara fram í kjallara húsnæðisins og á fyrstu hæð einnig.

„Á þessum sýningum fær fólk hljóðleiðsögn og þetta er svolítið eins og að ganga inní myndabók. Við lögðum mikinn metnað í hljóðefnið á þessum sýningum og eru umhverfishljóð, tónlist, fuglasöngur og þar frameftir götunum einnig með og eru leiðsagnirnar á fimmtán mismunandi tungumálum.

„Þetta er byggt upp eins og völundarhús, það fara tveir inn í einu og svo fara næstu eftir u.þ.b. eina mínútu getum tekið á móti 60 manns á klukkustund.“ segir Sigríður.

Landnámssetur Íslands, Borgarnes, Borgarbyggð, úr vör, vefrit
Yfir 100.000 manns heimsækja Landnámssetur Íslands á hverju ári. Ljósmynd Landnámssetur Íslands

Á næstu hæð fyrir ofan þessar sýningar er svo söguloft þar sem haldnar eru leiksýningar. Þar var á sínum tíma frumsýnt leikritið Mr. Skallagrímssyni sem Benedikt Erlingsson samdi og lék í. Sú sýning var afar vinsæl og var sýnd í yfir þrjúhundruð skipti í mörg ár. Þar var einnig frumsýnt leikritð Brák eftir Brynhildi Guðjónsdóttir og fengu báðar sýningar Grímuverðlaun fyrir besta handrit og besta leik. Á sömu hæð er einnig fundaraðstaða sem að Sigríður segir að sé óvenjulegt rými og því gaman fyrir fólk að breyta til og funda þar.


Að sögn Sigríðar kviknaði hugmyndin að þessari starfsemi útfrá öfund.

„Við skoðuðum Síldarsafnið á Siglufirði og sáum hvað það er búið að gera flott þar og einnig víðar um landið. Við öfunduðum fólk að vera að gera eitthvað svona skemmtilegt sem skiptir svona miklu máli fyrir samfélagið, þannig að við hugsuðum hvort það væri ekki eitthvað sem eftir væri að gera.

„Við höfðum starfað með ferðamönnum áður í fjallaleiðsögn á öræfum og fólk var oft að spyrja okkur hvort það væri ekki einhver sýning sem hægt væri að sjá í stað þess að þurfa að lesa handritin að Íslendingasögunum. Þannig að við tókum þá ákvörðum að setja þetta á fót.“ segir Sigríður.

Landnámssetur Íslands, Borgarnes, Borgarbyggð, úr vör, vefrit
Skólahópar sækja reglulega Landnámssetrið til að fræðast um Egilssögu og landnámið. Ljósmynd Landnámssetur Íslands

Samkvæmt Sigríði fóru þau af stað með starfsemi á mjög góðum tíma. Það var fyrir þá miklu ferðamannabylgju sem svo varð og féll hugmynd þeirra hjóna í ansi frjóan jarðveg. Hún segir að sveitastjórnin í Borgarbyggð hafi tekið þeim opnum örmum. Þau Sigríður og Kjartan hafa engin tengsl við Borgarnes og segir hún að fólk hafi verið að spyrja þau í fyrstu af hverju þau hafi sett þetta á fót þar.

„Það er gaman að tengja þetta við persónusögu og Ingólfur Arnarsson hefur ekkert svo sterka persónusögu. En Egilssaga er það og í þeirri sögu er langsamlega best líst landnámi. Svo er hún ein dramatískasta Íslendingasagan, hún er bæði ástarsaga og svo mikið um bardaga, þannig að það er úr miklu að moða!“ segir Sigríður og ástríðan fyrir sýningunum er augljós.

Sigríður segir að einna mest krefjandi að sjá um reksturinn og huga að mannahaldi. Hún segir að þegar þau hjón hafi fyrst farið með þessa hugmynd til sveitastjórnarinnar og reiknuðu þau með að bærinn myndi taka að sér að reka setrið. Samkvæmt Sigríði setti sveitastjórnin skilyrði um að þau myndu eiga hluta í fyrirtækinu og sjá um reksturinn. Segir hún að það hafi reynst rétt ákvörðun því fyrstu árin hafi verið mikil vinna myrkranna á milli og því verið best að þau sæju um þetta með góðum stuðningi frá sveitarfélaginu.

Landnámssetur Íslands, Borgarns, Borgarbyggð, úr vör, vefrit
Ungur gestur lætur sig dreyma um hetjur fyrri tíma. Ljósmynd Landnámssetur Íslands.

Að sögn Sigríðar eru þau Kjartan orðin fullorðin nú og hafi því tekið þá ákvörðun snemma á þessu ári að ráða framkvæmdastjóra, hana Áslaugu Þorvaldsdóttir, sem starfað hefur hjá þeim síðastliðin tíu ár.

„Við sjáum framtíðina fyrir okkur þannig að við drögum okkur í hlé og leyfum öðrum að sprikla. Þessi ákvörðun er nýtilkomin en það er gaman að sjá fólk eflast við að fá meiri ábyrgð og það er gaman að sjá hvað það er gott fólk að vinna fyrir okkur. Þetta er komið í fastar skorður og við verðum viðloðandi þarna í ellinni, það er engin spurning.“ segir Sigríður.

Sigríður segir að mest gefandi sé að tala við fólk sem sé ánægt. „Maðurinn minn starfaði áður sem leikstjóri í Þjóðleikhúsinu, en segir að hann hafi aldrei fengið svona mikið hrós í sinni vinnu síðan hann byrjaði að vinna í leikhúsi. Þannig að fólk virðist vera ánægt með þetta hjá okkur og svo er mjög gefandi að vera með gott fólk í vinnu og sjá það eflast. Við höfum verið með ungt fólk sem vinnur með námi og það kemur aftur og aftur.“ segir Sigríður.


Veitingastaður þeirra hjóna sem er líkt og áður sagði tengdur við gamla húsnæðið gengur líka vel samkvæmt Sigríði. Aðsóknin hefur aukist smátt og smátt og hefur heimafólk verið að taka við sér síðastliðin ár og er orðinn stór hluti aðsóknarinnar.

Landnámssetur Íslands, Borgarnes, Borgarbyggð, úr vör, vefrit
Veitingahúsið í Landnámssetrinu er vinsælt bæði hjá heimafólki sem og ferðamönnum. Ljósmynd Landnámssetur Íslands

Okkur var sagt að það þýddi ekkert að vera með veitingahús í Borgarnesi því heimamenn færu ekki út að borða. En við ákváðum það strax að vera með hollustumat, við erum með salat og súpur. Það hefur tekið langan tíma að byggja þetta upp en núna er helmingur gestur í hádeginu hjá okkur fólk úr Borgarnesi og svo útlendingar hinn helmingurinn, þannig að þessi þróun er skemmtileg.

„Það má ekki gleyma því þegar maður vinnur við ferðamennsku að það eru jú líka Íslendingar sem sækja sér afþreyingu og því reynum við að stíla inn á þann markað, bæði í matnum og varðandi sýningarnar á söguloftinu.“ segir Sigríður að lokum.



Comentarios


bottom of page