top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Mest gefandi að kynnast nýju fólki“


Vegglistafólkið Björn Loki Björnsson og Elsa Jónsdóttir hafa vakið mikla athygli með verkum sínum víða um land og erlendis undir nafninu Krot og Krass. Blaðamaður ÚR VÖR hitti þau nýlega er þau unnu verk á gafl menningarmiðstöðvarinnar Húsið-Creative Space á Patreksfirði og spurði þau í kjölfarið spjörunum úr yfir kaffibolla.

Krot og Krass, vegglistafólk, list, Björn Loki Björnsson, Elsa Jónsdóttir, Patreksfjörður, Julie Gasiglia, landsbyggð, úr vör, vefrit
Loki og Elsa við húsbílinn góða á Patreksfirði síðastliðið sumar. Ljósmynd Julie Gasiglia
Björn Loki, eða Loki eins og hann er gjarnan kallaður, og Elsa lærðu saman í Listaháskólanum á sínum tíma og hafa unnið lengi saman eftir námið varðandi leturhönnunarverkefni. Þau segjast hafa byrjað á að gefa út letur og svo hafi vinna þeirra þróast út í að kynna letrin á listrænan hátt.

„Við byrjuðum að mála minni verk og halda sýningar og svo færðist þetta út í að mála verk úti. Það má segja að þetta hafi allt byrjað á ákveðnu verki á Keflavíkurflugvelli fyrir þremur árum síðan og við fórum svo á flakk í kjölfarið um allt landið árið 2017. Í fyrstu fórum við sjálf á staði og unnum með aðstæðum á hverjum stað fyrir sig. Á þessum tíma var hluti af vinnunni að ferðast á milli staða og finna útúr því hvað við vildum gera, sem var mjög spennandi. En síðar höfum við fengið fyrirvara varðandi ákveðin verkefni og því planað þau fyrirfram.“ segir Elsa.


Það skemmtilega við vegglist er að hún vekur oft mikil viðbrögð almennings. „Okkur finnst alltaf áhugavert að heyra skoðanir fólks, hvort sem þær eru góðar eða slæmar, það er gaman að hreyfa við tilvist fólks. Þú ert kannski vanur að labba sömu götuna og svo verður allt í einu einhver breyting, það hristir upp í hlutunum og plantar nýjum fræjum.

„Bæði í verkunum og framkvæmd þeirra er ákveðin togstreita og maður þrífst klárlega á því. Það er áhugavert þegar einstaklingar taka sig til og ákveða að hafa áhrif á borgarumhverfið á einn eða annan hátt.“ segir Loki glaðbeittur.

Elsa segir að fyrstu verkin þeirra hafi verið mjög auðskilin. Hún segir að þau hafi safnað málsháttum og gömlum fallegum orðum og oft unnið oft verk útfrá þeim stöðum sem þau voru á hverju sinni. Hún bætir við að þetta hafi svo breyst með tíð og tíma og meiri dulúð farið að vera á bakvið verkin, aðeins meiri abstrakt. „Okkur fannst áhugavert að verkin væru ekki eins auðskilin. Maður segir t.d. kannski þremur einstaklingum í bænum söguna á bakvið verkið og svo gengur sú saga manna á milli. Það myndast áhugaverð stemning í kringum söguna og hvernig hún spyrst út.“ segir Elsa og eldmóðurinn leynir sér ekki.

Krot og Krass, vegglistafólk, list, Húsið Creative Space, Patreksfjörður, verbúðin, Julie Gasiglia, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Verkið „Úr vör“ sem Krot og Krass vann á gaflinn á menningarmiðstöðina Húsið-Creative Space á Patreksfirði síðastiðið sumar. Ljósmynd Julie Gasiglia

Elsa og Loki hafa unnið mikið með Höfðaletur sem er eitt hið sérkennilegasta fyrirbrigði í skrautlist Íslendinga á síðari öldum. Það er talið hafa verið unnið eftir gotnesku letri og var mikið skorið í yfirborð, í ýmsa kistla og rúmgafla. Elsa segir að letrið hafi ekki verið mikið notað í nútímalegu samhengi. „Eftir að byrjuðum þetta verkefni finnst okkur hafa vaknað mikill áhugi fyrir letrinu sem er mjög gaman að sjá. Þetta letur hafði þróast í einhver 300 ár án ákveðinna reglna, en staðnaði svo að einhverju leiti í kringum 1920. Okkar áhersla liggur í því að koma letrinu í nútímalegan búning og þróa það áfram innan vegglistaheimsins.“ segir Elsa.

Að sögn Loka er einn mest gefandi þátturinn í vinnu þeirra Elsu að kynnast nýju fólki. Hann segir að þau lifi í raun algjörum lúxus lífstíl, þar sem þau hafa tækifæri til að ferðast víða um, séu aldrei á sama vinnustað og búi í húsbílnum sínum. Þau ferðast reglulega víða um landið og segja að hjarta þeirra sé á landsbyggðinni.

Að auki hafa þau unnið verk víða erlendis og vörðu stórum hluta síðasta árs víðsvegar í Evrópu og skreyttu þar fjölmarga veggi við góðar undirtektir.


Krot og Krass, Elsa Jónsdóttir, vegglist, vegglistafólk, list, úr vör, Julie Gasiglia, Patreksfjörður, landsbyggðin, vefrit
Elsa við vinnu á verkinu „Úr vör“ á Patreksfirði síðastliðið sumar. Ljósmynd Julie Gasiglia

„Það er stór hluti af þessu að hafa húsbílinn, íbúðin er bara með okkur og þetta er svona færanlega skrifstofa. Við höfum t.d. búið í bílnum frá því í febrúar og það hafa verið margar veislur haldnar þar, við erum með nokkur hljóðfæri sem hægt er að grípa í þegar við förum t.d. á hátíðir víða um landið. Þannig að það skapast oft mikil stemning hér í bílnum og það eru í raun sjálfstæðir viðburðir þar, þetta er oft svona Krot og Krass off-venue vettvangur! Núna vorum við líka að láta kamínu í bílinn fyrir veturinn, það eru bara allir velkomnir í kakó og te hjá okkur. Við hvetjum fólk að hafa samband við okkur, okkur langar líka að mála meira og erum opin fyrir verkefnum, við viljum endilega halda áfram ferðalaginu. “ segir Loki að lokum.

Krot og Krass, vegglist, list, vegglistafólk, Kiev, Úkraína, úr vör, vefrit
Elsa og Loki hafa ferðast um og unnið verk víða í Evrópu, hér má líta glæsileg verk sem Krot og Krass unnu í Kiev í Úkraínu árið 2018. Ljósmynd Krot og Krass


bottom of page