Kómedíuleikhúsið sýnir þessa dagana leikrit sem byggt er á ævintýrinu um Dimmalimm. Blaðamaður ÚR VÖR fékk símatíma með Elfari Loga Hannessyni á dögunum, en hann og kona hans, Marsibil G. Kristjánsdóttir, eru fólkið á bakvið leikhúsið. Spjallið barst um víðan völl enda er aldrei komið að tómum kofanum hjá Elfari Loga.
Elfar Logi sagði að þau hjón hafi sett sér ákveðið regluverk og markmið til að vinna útfrá þegar þau fluttu með leikhúsið vestur eftir að hafa verið nokkur ár í höfuðborginni.
Aðalmarkmiðið var að vinna uppúr eigin sagnaarfi, þ.e. þeim Vestfirska. Hann segir að um leið hafi þau sett sig í góða og slæma stöðu. Vestfirski sagnaarfurinn er mjög gjöfull að sögn Elfars, en um leið fara þau ekkert út fyrir Vestfirðina í þeirra efni, nema við sérstök tilefni.
Höfundur ævintýrsins Dimmalimm er Bílddælingur að nafni Guðmundur Thorsteinsson, kallaður Muggur. Elfar segir að Muggur hafi fylgt þeim frá því að leikhúsið hafi komist á gott flug. „Árið 2006 settum við upp leikrit sem heitir Dimmalim og er byggt á þessu ævintýri og sýndum það nærri hundrað sinnum um allt land í nokkur ár. En ævintýrin eru þannig að þú getur alltaf komið að þeim aftur og aftur og alltaf fundið nýja leið og eitthvað nýtt til að fást við, það er hægt að segja ævintýrin á svo marga vegu.
„Þannig að við ákváðum að koma að þessu verki aftur og nú er ný áhöfn, nýr leikstjóri og nánast allt nýtt nema ég og Marsibil. En verkin eru alveg svart og hvítt má segja, það mætti halda stundum að þetta væri sitt hvort ævintýrið, svo ólíkar eru sýningarnar. Það sýnir bara hvað leikhúsið er fjölbreytt og töfrandi.“ segir Elfar.
Að sögn Elfars er Kómedíuleikhúsið fyrst og fremst leikhús á hjólum og leikhús landsbyggðarinnar. Hann segir að leikhúsið sé núna í samstarfi við Höfrung, leikfélagið á Þingeyri og hafi sýnt um síðastliðna páska með þeim ákveðna tvennu, þ.e. Karíus og Baktus og Dimmalimm. Nú stendur til að fara í leikferð saman og verða leikritin sýnd í Skjaldborgarbíói á Patreksfirði næstkomandi laugardag og svo brunað yfir tvær heiðar og sýnt sama dag á Bíldudal. Daginn eftir verður hringnum svo lokað á Hólmavík með sýningu þar.
Kómedíuleikhúsið er atvinnuleikhús Vestfjarða. Elfar segir að þau hjón séu stolt af því og ef eitthvað er þá viljum þau gera ennþá meira. „Þó má segja að með hverju verki uppfyllist einhver draumur, en við eigum bara svo marga. Þegar ég hætti að vera áhugaleikari og fór að læra leiklist þá voru leikhús í hverjum einasta bæ á Vestfjörðum.
„Það hefur dregið úr þessu og í dag má segja að það séu bara tvö leikfélög á Vestfjörðum, á Hólmavík og á Þingeyri. Það hefur sýnt sig að menn þurfa samkeppni og því fleiri sýningar, því meiri verður aðsóknin, það er staðreynd. Þannig að það væri gaman ef það myndi blómstra að nýju, en það gerist ekki bara með því að fylla út Excel skjal eða ef sveitarfélagið sendir út ályktun. Þetta þarf að koma frá fólkinu sjálfu, allt svona áhugastarf er í grasrótinni, þar er rosalega skemmtilegt að vera.
„Eina svona utanaðkomandi sem þarf að vera til staðar er bakland, áhorfendur og svo aðilar sem hafa peninga og eru til í að fjárfesta í því að það sé eitthvað um að vera í þorpinu þeirra.“ segir Elfar.
Samkvæmt Elfari gengur þetta í sveiflum. Hann segist hafa verið að spyrja föður sinn um þetta, en faðir hans hefur verið áhugaleikari síðan 1962. „Og hann hefur engar áhyggjur, hann segir að það hafi verið sveiflur í þessu í gegnum árin. Ég hlakka afskaplega mikið til þess þegar það verða komin leikfélög að nýju í hvert einasta þorp á Vestfjörðum. En líkt og áður segir þá gerist það ekkert með því að segja einhverjum að fara að endurvekja leikfélagið og reka á eftir fólki, það er eins og að biðja reykingamann um að hætta að reykja, það virkar bara ekki.“ segir Elfar.
Elfar segir að einn af þeirra stóru hugmyndum núna sé að koma upp leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins. Hann segir að þau séu að vinna í því núna baki brotnu að koma slíkri miðstöð upp, sem hefði bækistöð á Þingeyri. „Þar myndum við æfa og svo ferðast og sýna víðar. Svo geta verið fyrirlestrar, námskeið og allskonar leiklistarævintýri þar.
„Við erum að bíða eftir að fá svar varðandi styrkumsókn og höfum fundið húsnæði. En við þurfum aðstoð frá einhverju góðu baklandi og höfum krossað bæði fingur og tær og allt sem við eigum um að þessi sjóður sem við sóttum í verði almennilegur og átti sig á mikilvægi þess að efla listir og leiklistarlíf á Vestfjörðum.“ segir Elfar Logi að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comentarios