Það styttist í páskana og það þýðir aðeins eitt, það styttist í veisluna miklu, tónlistarhátíðina Aldrei fór ég suður. Hátíðin fer fram á Ísafirði dagana 19. og 20. apríl næstkomandi og er 15 ára í ár, var haldin fyrst árið 2004 og er því haldin í 16. sinn - takið nú upp reiknivélar ef þetta vefst fyrir ykkur! Dagskráin er glæsileg sem endrum fyrr og á meðal flytjenda þetta árið eru Todmobile, Jónas Sig, Mammút, Jói P og Króli og Bagdad Brothers svo aðeins fáir séu nefndir.
Blaðamaður ÚR VÖR sló á þráðinn til rokkstjóra hátíðarinnar, Kristjáns Freys Halldórssonar, athugaði hvernig spennustigið væri svona mánuði fyrir hátíð og fékk smjörþefinn af sögu þessa skemmtilega viðburðar. „Hátíðin hefur þróast mikið og var í grunninn hugmynd sem varð til í partýi þar sem fólk voru misgáfað eitthvað.
„Fólki fannst fyndin hugmynd að reyna að lokka tónlistarfólk frá höfuðborgarsvæðinu eða einhversstaðar frá, blanda þeim saman við heimafólk og búa til tónleika í kaldri skemmu yfir kaldasta veturinn. Það varð svo úr árið 2004 á laugardegi um páska að þessi hátíð var haldin eitt kvöld með rosalega mörgum atriðum. Brandarinn var, líkt og hann hófst í partýinu, að ef yrði gert plakat þá yrði t.d. Sigurrós neðst á plakatinu en Dóri Hermanns sjómaður frá Ísafirði yrði efst og þetta varð svo að veruleika!“ segir Kristján Freyr.
Kristján segir að þetta sé ekki lengur bara þessi litli vinahópur sem hóf gamanið, heldur liggur við að allt samfélagið taki þátt, það séu fáir sem koma ekki að hátíðinni með einhverjum hætti á Ísafirði og í nágrannasveitarfélögum. Hann segir að aðstandendur séu stoltir af því hvað þau hafa fengið mikið fólk af svæðinu með þeim í verkefnið og einnig að þetta hafi haldið sínum yndislega brag.
„Það er mikilvægt að Vestfirðingar sjái að partý hugmynd eins og þessi, þær eiga aldrei að vera sópaðar af borðinu. Það er allt hægt, það er blómstrandi menning allstaðar um landið, þótt spegillinn sé oft á 101 Rvk, en það er nóg um að vera á landsbyggðinni.“
Hann segir að svo megi ekki gleyma að hátíðin sé mikill samfélagslegur ávinningur. 1500 bílar keyra til Ísafjarðar á þessum tíma, og það eru að meðaltali þrír farþegar í bíl að sögn Kristjáns.Þetta er þriðja árið sem hann er rokkstjóri hátíðarinnar og segir hann þetta vera mjög virðulegan titil og furðar sig á afhverju hann sé ekki búinn að redda þessu inn í símaskrána. Að sögn Kristjáns er starf rokkstjórans að miklu leyti að stýra stóra excel skjalinu sem inniheldur alla þræði hátíðarinnar og að hafa yfirumsjón yfir verkefninu. Það þýðir einnig að tryggja að allir geri sitt og öllum líði vel með það. „Það er þungamiðjan í þessu, þetta er 25 manna kjarni sem er að vinna frá fyrsta fundi í september mánuði til að gera þetta alltaf betra en árið áður. Svo þarf bara að sjá um að við stöndum við okkar skuldbindingar og að allir fari frá þessu með sóma, bakhjarlar líka.“ segir Kristján.
Hátíðin var valin tónlistarviðburður ársins á hinum nýafstöðnu Íslensku Tónlistarverðlaununum. Kristján segir að honum finnist það afar falleg viðurkenning því verðlaunin eru haldin af íslensku tónlistarfólki og vill það stundum gleymast. „Mér finnst það ákaflega fallegt fyrirbæri. Það er ekki ein akademía sem heldur þessa hátíð og að fá þessa viðurkenning gerir okkur ákaflega stolt, við deilum þessu með tónlistarfólkinu því það væri ekkert var í þetta ef við fengjum ekki fólk vestur. Og það er í raun stóri sigurinn, að fá allt þetta fólk vestur og geta verið með svona sterka dagskrá.“ segir Kristján.
Hann segir að út frá byggðastefnusjónarmiðum þá sé það frábært að sjá þegar ungir rapparar sem hafa alist upp í 101 RVK og hafa varla farið lengra útfyrir bæjarmörkin en til Mosfellsbæjar séu allt í einu komnir til Ísafjarðar um páskana. Að sögn hans er þetta fólk sem kemur svo aftur vestur síðar því þetta hafi snjóbolta áhrif, fólk man eftir þessu ævintýri að koma á Aldrei fór ég suður.
Blaðamanni ÚR VÖR leikur forvitni á að vita hvernig hægt sé að halda svona stóra hátíð með öllu þessu umfangi og hafa ókeypis aðgang. Kristján segir að mikil vinna felist á bakvið það, verkefnið sé stórt og velti 10 til 12 milljónum á hverju ári.
„Ég sá á dögunum að það var verið að ýta í okkur um að við værum að fá mikla styrki frá Ísafjarðarbæ. En við tókum ekki þátt í þeirri umræðu því það var farið með rangt mál að öllu leyti. Við höfum þessi fyrirtæki sem bakhjarla og svo sækjum við um styrki og erum með öfluga fjáröflun til að brúa bilið.“
Hann segir að seldur sé varningur, bolir og veitingar yfir hátíðina. Það verður til þess að hægt sé að standa við allar skuldbindingar. Kristján segir að þau hafi alltaf náð að vera réttu megin við núllið sem betur fer og lögð sér áhersla á að halda þessu svona áfram að hafa aðgang ókeypis, annað sé ekki til umræðu hjá þeim svo lengi sem það sé hægt. Kristján er beðinn að lokum um að rifja upp eitthvað eftirminnilegt atvik frá hátiðinni í gegnum árin. Hann segir að það sé ótækt að taka út bestu atriðin, en aftur á móti hafi síðasta atriði hátíðarinnar í fyrra, árið 2018 verið magnað.
„Gleðin var svo mikil að það kom bara yfir mig einhver geðshræringar hlátur að horfa yfir alla skemmuna troðfulla að dansa og hafa svona gaman. Á móti sól var að spila, Magni og félagar og það var bara eitt bros á öllum. Ég hugsaði strax að við þyrftum alltaf að enda hátíðina svona og það voru allir sammála um að enda síðasta atriðið á laugardagskvöldinu á einhverju stóru partýi eins og gerðist þarna.“ segir Kristján að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Commentaires