Listasýning er haldin ár hvert í gömlu síldarverksmiðjunni í Djúpavík. Sýningin ber nafnið The Factory og verður haldin frá 1. júní til 31. ágúst næstkomandi sumar.
Rauði þráðurinn í sýningunni er að varpa ljósi á persónuleg tengsl listafólksins við Ísland og upplifun þess af landinu. Meðal verka verða málverk, höggmyndir, ljósmyndir, myndbands- og hljóðverk. Þetta verður því fjölbreytt og kraftmikil sýning sem ætti að höfða til fjölmargra.
Samkvæmt forsvarsmönnum The Factory þá er tilgangurinn með því að setja upp listasýningu á landsbyggðinni að hjálpa til við að dreifa listinni frá hefbundnum staðsetningum listasýninga, þ.e. borgum yfir í óhefbundnari staðsetningar. Djúpavík sem og gamla síldarverksmiðjan fá um leið ný menningarleg hlutverk sem vekur athygli og dregur fólk að. Og það gefur íbúum Djúpavíkur sem og sveitarfélaginu Árneshreppi góðan stuðning.
Vegna ofveiði þá lokaði verksmiðjan árið 1954. Það var svo árið 1985 að hjónin Eva Sigurbjörnsdóttir og Ásbjörn Þorgilsson keyptu verksmiðjuna og hótelið í Djúpavík. Síðan þá hafa þau lagt mikla vinnu í að gera verksmiðjuna upp og viðhalda henni svo hún skemmist ekki.
Gamla síldarverksmiðjan í Djúpavík var byggð árið 1934 og á sér langa sögu. Síðan árið 2015 hefur tengdasonur þeirra Evu og Ásbjörns, Magnús Karl Pétursson, rekið hótelið á Djúpavík og er opið þar allt árið svo lengi sem veður leyfir.
Blaðamaðanni ÚR VÖR langaði að vita meira um sýninguna í The Factory og sló því á þráðinn til listræns stjórnanda sýningarinnar, Emilie Dalum. „Þetta byrjaði að vera ljósmyndasýning en árið 2017 breyttist það yfir í að vera almenn listasýning. Það eru bæði innlendir og erlendir listamenn sem sýna þarna. Þemað er alltaf Ísland, en getur verið mjög opið og abstrakt. Þetta er samtal verksmiðjunnar og listar. Árið 2016 breyttist þetta yfir í The Factory, áður var nafnið Steypa photography exhibition. Þetta er frá júní mánuði og stendur yfir í þrjá mánuði og er sama sýningin allan tímann. Það eru margir listamenn sem sýna, á síðasta ári voru 25 listamenn sem sýndu verk sín.“ segir Emilie.
Aðspurð segir Emilie að á sumrin komi margir ferðamenn sem séu að fara lengra norður. Hún segir að allir sem komi til Djúpavíkur skoði sýninguna, því það sé ekki mikið annað að sjá í raun og veru. Erfitt er að segja hvað það koma margir á sýninguna, en það geta verið milli 20 og 100 manns yfir daginn að sögn Emilie. „Ég fer þangað í maí mánuði ár hvert og hitti listafólkið og set upp sýninguna. Það er svo alltaf opið inn á sýninguna og frítt inn, það er mikilvægt fyrir eigendur hússins að hafa ókeypis aðgang.
"Flestir af listamönnunum koma hingað og setja upp sýningarnar og gera ferðalög úr þessu um leið. Það víkkar líka út sjóndeildarhringinn þeirra að koma alla leið hingað að setja upp sýningu á mjög sérstökum stað, þetta er ólíkt gallerí með hvítum veggjum.“
Emilie segir að hún byrji að plana sýninguna í janúar ár hvert. Hún segir að bæði sé fólki boðið að sýna og svo er hægt að sækja um. Að sögn Emilie er svæðið mjög einangrað og langt í burtu og því sé mikilvægt að hennar mati að taka þátt í að halda staðnum á lífi. „Þetta er ný leið til að nýta þessa gömlu byggingu, þetta er svolítið þannig að fortíðin mætir framtíðinni. Þarna eru andstæður og þetta er söguleg bygging, það er hægt að segja margar sögur frá þessari verksmiðju.
"Ef þessi bygging hefur ekki tilgang þá gleymist hún bara, þannig að þetta er leið til að halda lífi í byggingunni og lífi í Djúpavík.“ segir Emilie.
Það er bæði erlent og innlent listafólk sem sýnir í The Factory að sögn Emilie, en meira sé um að erlent listafólki sæki um. Ástæðu þess segist Emilie ekki vita.
Hún segir þó að margt erlent listafólk sem sæki listamannaaðsetur hér á landi fái innblástur frá Íslandi en að innlendir listamenn séu kannski ekki eins mikið að spá í íslenska náttúru. „Kannski hafa þeir fengið nóg af henni!“ segir hún og hlær.
„Ég hef reynt að fá fleiri innlenda listamenn til að sýna og vonandi mun það ganga. Þetta er svipaður fjöldi ár hvert, 20 til 25 manns, en áður þegar það voru bara ljósmyndasýningar þá voru það um 10 manns sem sýndu. En málið er að verksmiðjan er svo stór og ég vil ekki að þetta verði tómlegt. Svo er líka erfitt að velja úr því það eru margir færir listamenn sem sækja um og mörg spennandi verk.“ segir Emilie.
Að sögn Emilie er starfið sem listrænn stjórnandi sýningarinnar mjög fjölbreytt og skemmtilegt. Á ákveðnum stað í ferlinu sé um mikla tölvuvinnu að ræða. Síðan taki við tími sem snúist um hagnýta hluti eins og til dæmis flutning verkanna til Djúpavíkur. Svo snýst þetta auðvitað líka um að hugsa um og ræða um list og menningu. Hún segir að lokakippurinn geti svo verið líkamlega erfiður.
"Það þarf að setja upp sýningarnar og þetta eru langir vinnudagar en það styttir þá aðeins að maður þarf að nota sköpunargáfuna við að ákveða hvar verkin eiga að vera. Það er gaman að sjá þetta verða að einhverju úr ekki neinu, verksmiðjan er í raun og veru leikvöllurinn minn.“ segir Emilie að lokum.
Comments