top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Ísland er sögueyja“

Updated: Apr 22, 2019


Iceland Writers Retreat, vinnustofa, Roman Gerasymenko, úr vör, vefrit
Eliza Reid, annar aðstandandi Iceland Writers Retreat. Ljósmynd Roman Gerasymenko.

Iceland Writers Retreat eru vinnustofur um skrif sem Eliza Reid og Erica Green standa að baki. Vel þekktir rithöfundar, bæði erlendir sem innlendir kenna fimm námskeið sem standa yfir í tvo tíma í senn. Markmiðið er að kynna fyrir gestum vinnustofanna bókmenntaarf Íslendinga og menningarsögu þeirra.


Blaðamaður ÚR VÖR spjallaði við Elizu Reid á dögunum um verkefnið sem fór fram í 6. skiptið dagana 3. til 7. apríl síðastliðinn.

Eliza sagði undirrituðum frá hversu fjölbreytt dagskráin er í vinnustofunum en ásamt námskeiðum er farið í gönguferðir, keppt í Barsvari, boðið upp á ýmsa tónlistarviðburði, sameiginlegar kvöldmáltíðir og farið í dagsferðir á staði á landsbyggðinni sem tengjast allir íslenskum bókmenntum.
Iceland Writers Retreat, vinnustofa, Roman Gerasymenko, úr vör, vefrit
Þáttakendur vinnustofunnar hlusta á fyrirlestur í einni dagsferðinni. Roman Gerasymenko.

Vinnustofurnar voru haldnar í fyrsta sinn í apríl árið 2014 og voru þá 52 þáttakendur. Eliza segir að verkefnið hafi stækkað síðan þá og í ár hafi verið ellefu kennarar, bæði erlendir sem innlendir, þáttakendur frá tuttugu löndum og að þeir hafi verið yfir 100 talsins. „Fólkið sem sækir vinnustofurnar er fólk sem vinnur með skrif, er t.d. að ganga með bók í maganum eða finnst gaman að skrifa. Þetta er ekkert endilega fólk sem er að gefa eitthvað út, heldur mætir til að fá innblástur í öðruvísi umhverfi, þetta er góð tilbreyting.

„Þetta er fínt tækifæri fyrir fólk til að hittast, efla tengslanetið sitt og mynda sambönd sem vara áfram. Við erum með þessu að byggja alþjóðleg tengslanet.“ segir Eliza.

Líkt og áður segir áttu vinkonurnar Eliza og Erika hugmyndina að vinnustofunum. Eliza segir að Erika hafi búið á Íslandi frá árinu 2011 til 2013, hún hafi farið á námskeið í Bandaríkjunum sem var samskonar og Iceland Writers Retreat og kom heim full af innblástri eftir það. „Við erum góðar vinkonur og vorum að ræða þetta eitt kvöldið fyrir nokkrum árum. Erika var að segja mér frá sinni upplifun og okkur fannst skrýtið að ekkert svona væri til staðar hér á landi.

Iceland Writers Retreat, Lina Meruane, Roman Gerasymenko, úr vör, vefrit
Rithöfundururinn Lina Meruane sinnti kennslu í einu af námskeiðunum. Ljósmynd Roman Gerasymenko.

„Ísland er rík bókmenntaþjóð og hér er mikil virðing fyrir rithöfundum. Mér finnst mjög gaman að skipuleggja viðburði og við ákváðum að skella okkur í þetta. Það var alveg frábært að finna hvað fólk tók hugmyndinni vel, mér finnst það svo einkennandi fyrir Ísland, fólk er svo opið fyrir nýjungum.“ segir Eliza.

Dagsferðirnar yfir námskeiðið eru vinsælar að sögn Elizu. Fólk vill vita meira um landið, fara út á land, sjá sveitina og kynnast menningararfinum. Hugmyndir eru uppi um að bjóða upp á lengri ferðir síðar meir, en eins og er eru ferðir að Skálholti og Gljúfrasteini meðal annars í boði. „Það er merkilegt að hér á landi eru mörg hús sem eru söfn í dag en voru áður heimili rithöfunda, annaðhvort þar sem þeir bjuggu eða þar sem þeir ólust upp. Það að svona söfn hafi verið sett á fót segir margt um þjóðina finnst mér og þá virðingu fyrir bókmenntun og rithöfundum.“ segir Eliza.


Talið víkur að því hver ástæðan sé fyrir því að svona margar bækur komi út árlega hér á landi. Eliza liggur ekki á skoðun sinni á því máli og dáist að þessum þætti landsins. „Ísland er sögueyja og Íslendingasögurnar er eitthvað sem við erum stolt af. Það hefur gefið rithöfundum sjálfstraust til að halda áfram.

Iceland Writers Retreat, Roman Gerasymenko, úr vör, vefrit
Þáttakendur leitast í að fara á landsbyggðina og kynnast landinu betur og menningararfinum. Ljósmynd Roman Gerasymenko.

„Á sínum tíma var ekki til efni til að byggja miklar byggingar, til að mála eða til að smíða hljóðfæri. En sem manneskjur þurfum við að finna einhverja leið til að vera skapandi og hjá okkur gerðist þetta með skrifum. Hér á landi er mikil áhersla á að vera læs og að geta sagt sögur. Menningarheimurinn byggir á sögunum.“ segir Eliza.

Eliza segir að ein af ástæðunum fyrir því hversu vel námskeiðin hafi heppnast er að aðstandendur hlusta á þáttakendur um hvernig sumt getur farið betur og eru opin fyrir ábendingum. Hún segir að vingjarnlegur og óformlegur tónn ráði ríkjum og að ekki skipti máli hvort fólk sé feimið eða ófeimið, allir eru velkomnir og það gengur vel að halda í þá stemningu að sögn hennar. „Við viljum ekki hafa þetta mikið stærra í sniðum, viljum halda þessari hópastærð. En við erum með hugmyndir að hafa þetta sértækara, þ.e. að bjóða upp á námskeið bara fyrir ljóðskáld eða glæpasagnahöfunda. En þetta kemur í ljós, ég er aðeins meira upptekin núna en áður!

Iceland Writers Retreat, Roman Gerasymenko, úr vör, vefrit
Þáttakendur mynda góð tengsl á meðan á námskeiðunum standa. Ljósmynd Roman Gerasymenko.

„Við erum líka farin að bjóða upp á að hafa styrki fyrir fólk sem hefur ekki efni á að koma og bjóðum einnig upp á hópfjármögnun á Karolina Fund fyrir þá sem vilja taka þátt. Í ár fengum við 700 umsóknir og þetta árið komu nokkrir með hjálp svona styrkja. Það er gott að geta gefið fólki tækifæri til að koma sem annars gætu það ekki.“ segir Eliza.

Samkvæmt Elizu er engin spurning að þessar vinnustofur skili sér inn í íslenskt bókmenntalíf. Hún segir að til dæmis hafi rithöfundunum Sjón og Andra Snæ Magnasyni verið boðið að taka þátt í hátíðum erlendis vegna tenginga sem mynduðust á námskeiðunum. Að sögn hennar hefur fólk sem hafa sótt námskeiðin skrifa um sína upplifun hér á landi, um land og þjóð og hún segir að það komi aftur og aftur hingað til lands eftir sína upplifun af námskeiðunum.

Iceland Writers Retreat, Roman Gerasymenko, úr vör, vefrit, Hraunfossar
Farið er að Hraunfossum í dagsferðunum sem í boði eru. Ljósmynd Roman Gerasymenko.

Eliza segir að starfið í kringum verkefnið sé mjög gefandi og að afar gott sé að fá á tilfinninguna að þetta hafi mikil áhrif á líf fólks. „Maður finnur fyrir ábyrgð varðandi fólk sem hefur gengið í gegnum margt, er ekki að ferðast mikið og er að upplifa eitthvað sérstakt hér. Það er góð tilfinning að okkar viðburður hjálpi fólki, þetta er barnið okkar sem við byggðum frá grunni og hefur verið algjör rússíbani að setja svona á fót, eins og allir vita sem hafa stofnað eitthvað.

„Við erum báðar afar þakklátar fyrir þann stuðning sem fólk hefur sýnt okkur. Fólk hefur tekið virkilega vel á móti hugmyndinni eins og áður sagði og margir hafa aðstoðað okkur með þetta. Ég vonast til að geta haldið áfram í mörg ár að bjóða upp á svona námskeið.“ segir Eliza að lokum.


Comentarios


bottom of page