top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Í Vesturbænum


Í Vesturbænum, Guðrún Anna Finnbogadóttir, landsbyggðin, þorpin, gamli tíminn, Vesturbærinn, pistill, úr vör, vefrit
„ Fyrir þá sem sakna þessara ljúfu stunda við fjöruborðið þá er enn hægt að koma í þorpin út um landið og sjá trillukarlana sigla að landi, rölta í fjörunni og njóta þess að anda að sér fersku sjávarloftinu.“ Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson

Vefritið ÚR VÖR er menningarrit um litla staði og stórar hugmyndir sem er ætlað að vera mótvægi við umfjallanir um menningu, listir, nýsköpun og frumkvöðlastarf á höfuðborgarsvæðinu. Í umræðunni er mikið lagt upp úr því hver munurinn er á lífinu í borginni og úti á landi og pistlahöfundur hefur lagt út í alls lags pælingar til að sannfæra fólk um ágæti þess að búa á landsbyggðinni.


Þegar ég heyrði lagið ágæta “Í Vesturbænum” vakti athygli mína allar þær breytingar sem hafa orðið í borginni og á viðhorfum okkar allra. Lagið er á plötunni hans Ladda “Allt í lagi með það” frá árinu 1983 en það lýsir vel bæjarbragnum í Vesturbænum og auðvitað ýktum viðhorfum.


Hér að neðan er textinn við lagið sem felur í sér mikil menningarverðmæti og frásögn um “gamla” tíma sem standa okkur þó mjög nærri, lagið má svo finna hér: Í vesturbænum - YouTube


Í Vesturbænum

Í Vesturbænum,

Liggja götur á víxl meðfram sænum,

Þar sem grásleppukarlarnir dorma,

Og laxveiðimenn tína orma.

Í Vesturbænum.

Í Vesturbænum

Er allt morandi af dúfum og hænum

Hundum og köttum og einstaka músum

Sem að leynast í eldgömlum húsum

Í Vesturbænum.

Blessuð blíðan, Ægissíðan

Opin fjaran með blautan þarann

Trillukarlar, fiskihjallar

Allt í grænum í Vesturbænum

Mikið lifandi skelfingar óskapar bísn

Er nú gaman að vappa hérna eftir Ægissíðunni.

Og fylgjast með trillukörlunum

Koma að landi.

Með bátinn yfirfullan af

Sprikklandi fiski og fuglarnir syngja og mávarnir garga.

Maður hefur á tilfinningunni að þeir séu að hlæja að manni bölvaðir.

Æ, Æ, Æ, drullaði ekki bévítans kvikindið í augað á mér?

Þetta er ljóti fiðurfénaðurinn.

Það væri réttast að senda þetta allt langt út í hafsauga og hana nú

Og skal ég standa fyrir því.

Jú, það er alveg indælt að labba hérna eftir fjörunni.

Góða veðrið og sólin skín í heiði.

Og ferskt sjávarloftið, Álftanesið

Og fleiri staðir blasa við manni

Og blessuð dýrin hérna á vappi í fjörukambinum.

Hvað getur maður hugsað sér það betra

Æ, Æ, Æ, Æ, Æ, steig ég ekki ofaní hundaskít.

Geta þessi óféti ekki skilað þessu af sér einhversstaðar annarsstaðar?

Af hverju eru þessi kvikindi látin ganga laus?

Ég bara spyr?

Hvar endar þetta allt saman?

Það endar með því að það verður ekki þverfótað fyrir hænsnum

Og öðrum fiðurfénaði sem eru skítandi og drullandi um allar fjörur.

Og það er verið að eyðileggja fyrir manni allt hérna.

Já, nei ég segi það nú ekki

Það má nú ekki segja svona

Þetta er nú besti staðurinn

Það verður að segja það

Og blessaðir fuglarnir þurfa nú að skila þessu af sér

eins og aðrir og hvar eiga þeir að gera það?

Ekki í augað á mér allavegna.

Ef við förum aðeins yfir textann þá hefur nú varla sést grásleppukarl í Vesturbænum síðustu áratugi og gömlum bárujárnshúsum hefur snarfækkað. Dúfur og hænur hafa nær alveg horfið úr Vesturbænum þó nú sé smá sjálfbærnivakning og þeim fjölgar sem velja að hafa hænur í bakgarðinum við misgóðar undirtektir nágrannanna.


Hækkun sjávar hefur valdið því að varnargarðar hafa hækkað við strendurnar og opin fjaran ekki mjög aðgengileg og því hafa verið settir stigar til að komast í fjöruna sem nú er auk annars vettvangur sjósundsunnenda. Trillur með spriklandi fisk sjást ekki lengur í Vesturbænum enda ekki æskilegt að hafa gargandi mávinn skítandi ofan í fiskinn.


Ferskt sjávarloftið blandast útblæstrinum frá borginni en Álftanesið blasir fallega við og hættan á að stíga í hundaskít orðin hverfandi þar sem við höfum gert reglur og sett upp pokastaura og tunnur til að losa okkur við slíkan varning.


Fyrir þá sem sakna þessara ljúfu stunda við fjöruborðið þá er enn hægt að koma í þorpin út um landið og sjá trillukarlana sigla að landi, rölta í fjörunni og njóta þess að anda að sér fersku sjávarloftinu. Ég er komin að endastöð í þessum pælingum þar sem ég þarf ekki að sannfæra neinn um að sá lífsstíll sem ég hef valið sé betri en annar, það er einfaldlega minn lífsstíll sem ég er sátt við. Þeir sem vilja njóta með eru velkomnir í Þorpið sem er dreyft hringinn í kringum landið okkar.



bottom of page