top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Hvað er hversdagsleiki fyrir þér?

Updated: Mar 26, 2019


Forskeytið hversdags- vísar til daglegs lífs, utan hátíða. Til þess sem gerist venjubundið og ítrekað. Hversdagurinn er jafnvel gjarnan kallaður grár í merkingunni litdaufur og lítt spennandi. En er ástæða til þess að veita því sérstaka athygli, endurtekningunni og hinu kunnuglega í lífi okkar?

Í hversdagsleikanum finnst ýmislegt sammannlegt sem er kannski svo smávægilegt að varla tekur því að minnast á það eða telja til sérstakra afreka. En séu þessi atriði sett í annað form öðlast þau nýja vídd og vigt. Ekki lengur smávægileg heldur einmitt áhugaverð og einstök. Að gera hið kunnulega framandi er leiðarstef kenningar rússneska formalistans Viktors Shklovskíjs (1893-1984), en hann setti fram hugtakið framandgervingu þar sem hann leitast við að útskýra hvernig listin birtir hið kunnuglega í nýju ljósi og gerir framandi. Við þessa framkvæmd er áhorfandinn neyddur til að taka eftir á nýjan leik því sem áður hefur runnið í eitt með hversdagsleikanum.


Hversdagssafnið, úrvör, vefrit, Ísafjörður
Björg og Vaida. Ljósmynd Hversdagssafnið.

Í Hversdagssafninu á Ísafirði er, líkt og nafnið gefur til kynna, hversdagsleikanum gert hátt undir höfði. Hið kunnuglega er gert framandi í gegnum ferska nálgun og frumlega miðlun svo áhorfandinn fær tækifæri til að njóta þess og upplifa líkt og væri í fyrsta skipti.

Hversdagssafnið er staðsett í húsnæði sem heimamenn kalla Skóbúðina, en í því húsnæði var skóbúð rekin í meira en heila öld. Aðstandendur safnsins eru Björg Sveinbjörnsdóttir og Vaida Bražiūnaitė. Björg er fædd og uppalin á Suðureyri en eftir að hafa búið í Reykjavík frá 16 ára aldri fluttist hún aftur til Vestfjarða. Vaida er frá Litháen en flutti til Íslands með manni sínum sem er frá Ísafirði. Í viðleitni til að skapa sér starfsvettvang í tengslum við menntun sína varð hugmyndin að safninu til, en þær hafa lokið námi í hagnýtri menningarmiðlun og sjónrænni mannfræði.


Hversdagssafnið, úr vör, vefrit, Ísafjörður
Ljósmynd Hversdagssafnið

Frá opnun safnsins 2016 hafa þrjár tímabundnar sýningar og þrjú vídjó/hljóðlistaverk verið sett upp í rýminu. Sýningarnar eru: „Það er ýmislegt sem gerist“ (2016) þar sem gömul myndaalbúm og sögur skapa kunnuglega stemningu, „Í okkar sporum“ (2017) tengir saman gömul notuð skópör og hljóðupptökur með minningarbrotum eigendanna, og „Það er allt í lagi að vera ekki Íslendingur“ (2018) þar sem ljósi er varpað, í gegnum viðtöl við innflytjendur, á sambræðing menningarheima í opnu og bjóðandi samfélagi.

Rauði þráður sýninganna er hið sammannlega sem miðlað er með ólíkum hætti í gegnum raddir, minningar og sögubrot úr ranni Vestfirðinga. En segja má að þó efnið sé fengið frá afmörkuðu svæði er inntak þess raunar handan landamæra.

Vídjó/hljóðlistaverkin: „Beðið eftir storminum“ (2016), „Hljóðin í eldhúsinu“ (2017) og „Norðurljós“ (2018), tengjast þemanu vel þó verkin „Beðið eftir storminum“ og „Norðurljós“ vinni sérstaklega með tengsl mannsins við náttúruna, æðruleysi hans og væntingar. Í verkinu „Hljóðin í eldhúsinu“ er hversdagslegur hljóðheimur eldhússins, sem alla jafna er í bakgrunni, dreginn fram sérstaklega og gefið rými.


Söfn á borð við Hversdagssafnið eru mikilvæg viðbót í tilveruna því það er í sýningum sem þessum þar sem áhorfandinn getur mátað eigin upplifun við annarra og fundið samhljóm; að enginn er einn og að öll upplifum við svipaða hluti. Og í þessari uppgötvun liggur fegurðin.


Hversdagssafnið, úr vör, vefrit, Ísafjörður
Ljósmynd Hversdagssafnið

bottom of page