Bandarísku mæðginin Philip og Barbara Zach frá Lincoln, Nebraska luku nýlega þriggja vikna dvöl í listamannaaðsetrinu í Húsinu-Creative Space á Patreksfirði. Þar vann Philip að tónlist sinni, en hann er tónskáld og samdi hann lög fyrir heila hljómplötu á meðan á dvöl hans stóð. Barbara vann við vefnað og kláraði fjölmörg verk sem komust með erfðileikum fyrir í ferðatösku hennar á leiðinni heim.
Blaðamaður ÚR VÖR settist niður með þeim daginn fyrir brottför og spurði þau út í dvöl þeirra hér á Íslandi og um listsköpunina. Philip kom til Íslands síðastliðið sumar með bróðir sínum og ferðuðust þeir í kringum landið og heilluðust mjög af landi og þjóð. Barbara segir að langþráður draumur hafi ræst.
„Mig hefur langað að koma til Íslands í yfir 30 ár. Handiðnaðarmenningin hér heillar mig og mig langaði að koma og skapa eitthvað. Ég byrjaði að vefa þegar ég var á táningsaldri, fyrir 40 árum síðan. Svo varði ég litlum sem engum tíma í þetta þegar ég eignaðist og ól upp börnin mín sem eru sex talsins. En á síðastliðnum þremur árum hef ég einbeitt mér aftur að þessu, hef meiri tíma núna og hef afar gaman af því.“ segir Barbara.
Að sögn Philips vissu þau mæðgin ekkert við hverju átti að búast varðandi dvölina á Patreksfirði. Hann segir að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem þau geri eitthvað slíkt. Eitt það jákvæðasta við þessa reynslu er að þeim hafi liðið eins og heima hjá sér. Hann bætir við að að hann hafi verið afar þakklátur að á Patreksfirði hafi hann haft aðgang að tveimur mjög góðum flyglum sem hann hafi getað notað og með því náð að vera algjörlega hann sjálfur í ferlinu við að semja plötuna.
„Ég hef spilað á píanó í yfir 20 ár og einbeitt mér að klassískri tónlist síðustu sjö ár. Svo byrjaði ég að semja tónlist á síðustu tveimur til þremur árum. Þannig að það er frekar nýtt fyrir mér, að reyna að finna hvað ég kann við og það er hluti af þessari reynslu.
„Og það að semja tónlist dró mig að Íslandi því uppáhaldstónlistin mín kemur héðan. Ólafur Arnalds hafði t.d. mikil áhrif á mig og sýndi mér hvernig tónlist ég vildi sjálfur semja.“ segir Philip.
Barbara segir að sú daglega venja að fara í Húsið til að skapa hafi verið afar góð. Hún segir að svo margt í umhverfinu hafi haft áhrif á hana og að það hafi verið nærandi og afslappandi að geta síðan yfirfært það sem hún sá í sína sköpun.
„Mamma var á sínum tíma alltaf að prjóna og sauma þegar ég var barn. Ég vissi ekki hvað ég vildi gera þegar ég yrði eldri, en svo þegar ég fór í menntaskóla og gekk þar um gangana fann ég kennslustofu sem var full af ull og efnum og þá fann ég köllun mína og hef langað að starfa þessu tengt síðan þá. Að hafa svo allan daginn hér undanfarnar vikur fyrir sig til að vinna að þessu eru forréttindi“ segir Barbara.
Philip segir að umhverfið á Vestfjörðum sé mikill innblástur og tiltekur einnig að rólegheitin hafi ekki síðri áhrif á útkomuna varðandi þá tónlist sem hann hafi samið hér á landi. Hann segist ætla að klára að taka upp hljómplötuna þegar heim er komið en að mikið verk sé fyrir höndum. „Það er margt í höfðinu á mér hvað varðar það sem ég vil bæta við. Í augnablikinu er þetta bara píanó en ég vil hafa fleiri hljóðfæri og langar að klára að taka það upp og klára gerð plötunnar.“ segir Philip.
Barbara hélt vinnustofu fyrir börn á meðan á dvöl hennar stóð á Patreksfirði. Bauð hún börnum að koma að læra að vefa á Patreksdeginum í Húsinu á meðan foreldrarnir fengu sér kaffi og vöfflur og segir hún að það að fá tækifæri til þess hafi bætt heilmiklu við dvölina. Barbara var mjög afkastasöm líkt og áður sagði og segir hún að ferlið við að skapa vefnaðarverk sé áhugavert.
„Stóru verkin taka oft yfir mánuð og stundum tekur undirbúningurinn meiri tíma en að vinna verkið sjálft. Stundum veit ég ekki hvað ég vil gera þótt ég sé byrjuð, þannig að ég þarf að stoppa og hugsa meira um það og held að það sé þannig með marga list. Ég er með stórt verk í vinnslu núna sem var pantaði hjá mér. Það er 5 x 7 metrar og mun ég klára það eftir að ég kem heim. Ég nýt þess að vinna slíka vinnu, það er mikilvægast, að njóta þess að gera það sem maður er að gera.“ segir Barbara.
Philip segir mikinn mun vera á heimahögunum og Íslandi. Að hans sögn á tónlist hans meira heima hér á landi og honum finnst fólk líka vera meðtækilegra fyrir henni hér á Íslandi en í Nebraska þar sem kántrý tónlist er vinsælust. Hann hélt tvo tónleika á meðan á dvöl hans stóð, fyrst á Patreksdaginn í Húsinu og svo síðastliðinn sunnudag í félagsheimilinu í bænum.
„Það er svo mikill hraði heima, allir að flýta sér, þannig að tónlistin mín fer ekkert sérstaklega vel saman við lifnaðarháttinn. Það var t.d. allt öðruvísi að spila á tónleikum hér heldur en heima. Mér fannst fólk njóta þess meira hér, allavega naut ég þess svakalega að spila fyrir fólkið hér í bæ.“ segir Philip.
Það er óhætt að segja að Barbara og Philip hafi heillast af landinu og eru þau staðráðin í að koma aftur síðar. Segjast þau vilja ferðast meira og koma með fleiri fjölskyldumeðlimi með sér í það skiptið. Þau segja það augljóst að fólk hér á landi sé afar skapandi en fannst erfitt að henda reiður á hvers vegna. „Fólk er ekki mikið að ferðast innanlands, allavega yfir veturinn. Það er kalt og fólk er mikið inni, hefur tíma heima við og skapar því eitthvað þar, hvort sem það er að skrifa eða prjóna eða hvað sem er. Og svo auðvitað umhverfið og landslagið, það hefur pottþétt áhrif á fólk og það einangrar fólk líka sem kemur að fyrsta punktinum mínum.“ segir Barbara. Philip bætir við að hann viti ekki af hverju, en að fólk sé greinilega öðruvísi hér en í heimaborg hans.
„Heima er fólk hrifið af hlutum sem það getur séð og verðlagt. Það er hrifið af peningum, hrifið af því sem gefur af sér pening eða leysir vanda. Hér nýtir fólks meira þess andlega, þess sem erfitt er að verðleggja, eins og tónlist. Hér býr fólk að mínu skapi.“ segir Philip að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comentarios