top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Hreindýradraugur #3


Hreindýradraugur, hreindýr, Austurland, Minjasafn Austurlands, Francois Lelong, list, menning, listasýning, landsbyggðin, úr vör, vefrit
„François hefur alltaf haft áhuga á tengingum milli manna, dýra og umhverfis og vinnur með þau tengsl í gegnum blöndun ákveðinna spendýra, tilvist þeirra og sambönd þeirra við mannfólkið.“ Ljósmynd Minjasafn Austurlands

Sýningin Hreindýradraugur #3 var opnuð í Minjasafni Austurlands á Egilsstöðum á dögunum. Þar sýnir franski sjónlistamaðurinn François Lelong skúlpúra og myndverk sem eru innblásin af hreindýrunum og náttúru Austurlands. Sýningin fléttast saman við aðra grunnsýningu safnsins, sem nefnist Hreindýrin á Austurlandi, og myndar þannig skemmtilegt samspil milli sögu, menningararfs og samtímalistar.

Í fréttatilkynningu frá Minjasafni Austurlands segir að í aðdraganda sýningarinnar hafi François dvalið á Fljótsdalshéraði og unnið að list sinni en hann hefur áður unnið og sýnt bæði á Húsavík og á Skriðuklaustri í Fljótsdal.

Í verkum sínum vinnur François með tengingarnar milli manna, dýra og umhverfis og á sýningu hans í Minjasafni Austurlands birtist það í tilvist hreindýranna og samspili þeirra við mannfólkið. Efniviðinn sækir hann í náttúruna og vinnur m.a. með hreindýrshorn, tré og jurtir.

Í fyrrnefndri fréttatilkynningu kemur fram að François Lelong er sjónlistamaður sem hefur um árabil unnið með landslag og innan þess. Hann velur staði fyrir inngrip og finnur þar efni sem hann notar í skúlptúra og innsetningar sem eru innblásin af menningarlegum, félagslegum og sögulegum einkennum hvers staðar fyrir sig.


Í gegnum vinnu hans víðsvegar um heiminn hefur orðið til eins konar orðaforði afbökunar þar sem línur, sveigjur og för hafa stigvaxandi mótað einstakt tungumál sem sameinar náttúrufræði, fornleifafræði, sagnfræði og hugmyndina um yfirráðasvæði.

François hefur alltaf haft áhuga á tengingum milli manna, dýra og umhverfis og vinnur með þau tengsl í gegnum blöndun ákveðinna spendýra, tilvist þeirra og sambönd þeirra við mannfólkið. Hér á landi birtist þessi áhugi í tilvist hreindýranna og samspili þeirra við mannfólkið.


Styrktaraðilar sýningarinnar eru Safnasjóður, Uppbyggingarsjóður Austurlands og Múlaþing. Við hvetjum áhugasama um að kynna sér þessa sýningu og bendum einnig á vef listamannsins, sem er á eftirfarandi vefslóð: http://www.francoislelong.fr/

Hægt er að sjá meira um sýninguna Hreindýrin á Austurlandi hér: https://minjasafn.is/syningar/grunnsyningar/14-grunnsyningar/91-hreindyrin-a-austurlandi


Comments


bottom of page