top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Ekki lattilepjandi 101 týpa

Updated: Jan 16, 2020


Holt menningarsetur, Hvammstangi, norðurland, landsbyggðin, menning, list, Birta Þórhallsdóttir, úr vör, vefrit
Holt menningarsetur og kötturinn Skriða. Ljósmynd Holt menningarsetur

Blaðamaður ÚR VÖR fékk veður um það nýlega að Hvammstangi væri suðupottur menningar og listar. Ákveðið var að fylgja þeim fregnum eftir og slá á þráðinn til Birtu Þórhallsdóttur, forsvarskonu Holts menningarseturs og bókaútgáfunnar Skriðu sem hóf starfsemi fyrir stuttu síðan.


Samkvæmt Birtu býður hún upp á litla menningarviðburði, sem séu ekki mjög reglulega, heldur bara þegar færi gefst og tími frá öðrum verkefnum. Um er að ræða fjölbreyttir viðburði sem gefi fólki færi á að komast í návígi við rithöfunda og listamenn. Viðburðurnir eru settir upp í litlu stofunni í litla gamla húsinu hennar á Hvammstanga.


Birta segir að fyrsti viðburðurinn hafi verið í ágúst í fyrra á 20 ára afmælishátíð Húnaþings Vestra

„Það voru víða litlir viðburðir hér um allan bæ. Ég var með upplestur og átti hann að vera inni í stofunni en það komu svo margir að ég notaði svalirnar og varpaði þessu út í garðinn.“ segir Birta.
Menningarsetur í Holti, Hvammstangi, Vestur Húnaþing, úr vör, vefrit
Birta les upp af svölunum í Holti á afmælishátíð Vestur Húnaþings síðastliðið sumar. Ljósmynd Holt Menningarsetur

Bókaútgáfan Skriða fór nýlega af stað, líkt og áður sagði og var útgáfuhófið haldið í Holti með opnu húsi. Birta segir að fólk sé núna búið að venjast því að við séum með opið hús og er ófeimnara við að koma. „Það var gott að ríða á vaðið þegar hátíðin var hér í fyrra, því þá var mikið um að vera um allan bæ, margir stofutónleikar og gott var að nýta það tækifæri.“ segir Birta.


Faðir hennar Birtu er frá Hvammstanga og segist hún hafa farið í öll frí á Hvammstanga frá barnæsku og er nýflutt þangað, bara búin að búa þar í eitt ár.

„Það er gott að vera hér, svo mikil kyrrð, ég var búin að búa alltaf í Reykjavík og var komin með nóg að umferðinni, ysinu og þysinu. Ég var alltaf í öllum fríum á Hvammstanga og um allar helgar og hugsaði bara; „Af hverju er ég ekki frekar þarna í staðinn fyrir að vera brasa?“ Mig hafði langað þetta lengi og átti fyrir útborgun í hús þarna, en í borginni hefði ég ekki átt fyrir geymslurými, það var auðvitað stór plús sem spilaði mikið inn í.“ segir Birta.
Bókaútgáfan Skriða, Skriða, bókaútgáfa, Hvammstangi, norðurland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Nýlega komu út tvær bækur á vegum bókaútgáfunnar Skriðu. Ljósmynd Bókaútgáfan Skriða

Að sögn Birtu er nóg að gera, of mikið að gera ef eitthvað er. Hún segir að Hvammstangi sé með betri smáþorpum á Íslandi hvað varðar menningarstarfsemi, og þannig verkefnum sé vel tekið miðað við á mörgum öðrum stöðum.


Birta bætir við að það sé mikið af tónlistarfólki á Hvammstanga og margir séu í leiklist, en ekki mikið af fólki að sinna bókmenntatengdu efnu.

„En fann það sterkt þegar ég kom með Skriðu og þessa viðburði sem tengjast bókmennt, þá tók fólk því vel þótt það vissi kannski ekki áður að það hefði gaman af því.“ segir Birta.

Hún telur að þróunin muni vera þannig að fólk leiti frá borg í sveit og segir hún að hennar nánustu vinir frá Reykjavík sæki í að komast út í náttúruna og að um sé að ræða fólk sem sé alvarlega að skoða og kíkja í kringum sig varðandi að taka þetta skref.

Bókaútgáfan Skriða, Menningarsetrið í Holti, Skriða, Hvammstangi, úr vör, vefrit
Frá opnu húsi í Holti þegar bókaútgáfunni Skriðu var fagnað. Ljósmynd Bókaútgáfan Skriða

Að sögn Birtu verður næsti viðburður með vorinu í Holti, en ekki sé búið að fastsetja ákveðinn viðburð. Nýlega komu út tvær fyrstu bækurnar frá Skriðu og Birta er núna að vinna í því að koma þeim á framfæri og eftir það fara svo næstu tvær bækur í gang. Hún segist vonast til að það komi alltaf tvær samtímis út, önnur af þeim þýðing og hin ljóðabók og fari sú vinna í gang fljótlega með viðkomandi höfundum. Hún segir að hverjum sem er sé frjálst að hafa samband við útgáfuna og að hún einbeiti sér að örsögum, smásögum, ljóðum

og svo þýðingum.


Birta segir að lokum að hún sé afar þakklát fyrir hvað samfélagið hafi tekið sér vel sem nýbúa, þótt hún eigi rætur að rekja þangað.

„Það voru margir sem héldu að ég væri lattilepjandi 101 týpa, og héldu að ég væri skrýtin, en það er ekki rétt, ég drekk ekki latte! Og samt kemur fólk alveg, þorir að koma að hlusta á upplestra, ég var ekki viss um að það myndi falla í kramið, en þessu hefur verið tekið opnum örmum og það kom skemmtilega á óvart.“


Comments


bottom of page