Tónlistarmaðurinn Högni Egilsson leggur nú leið sína á Vestfirði til að halda styrktartónleika. Högni mun halda tónleika í Bíldudalskirkju miðvikudaginn 31. júlí, í Tanknum á Flateyri fimmtudaginn 1. ágúst og loks í kirkjunni í Bolungarvík föstudaginn 2. ágúst. Högni hefur samið tónlist með hljómsveitum sínum Hjaltalín og GusGus auk sólóverkefnisins HE auk þess að semja fjöldamörg tónverk fyrir leikhús, sjónvarp og kvikmyndir. Ágóði tónleikana mun renna til góðs málefnis innan sveitafélagsins sem tónleikarnir eru haldnir í.
Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Charlottu Rós Sigmundsdóttir, verkefnastjóra tónleikana á dögunum og forvitnaðist um við hverju mætti búast og hvernig þetta hefði komið til. Charlotta var skiljanlega spennt er blaðamaður heyrði í henni og sérstaklega ánægð með þau góðu málefni sem styrkt verða.
„Á Bíldudal fengu bæjarbúar í raun að ráða um hvert ágóðinn myndi renna. Það var samt ekki formleg kosning, en ég talaði við fólk sem ég þekki þar og í kjölfarið þá fékk ég fólk til að finna málefni. Úr varð að við myndum styðja við leikskólann Tjarnarbrekku og þá stefnu þeirra um leikskóla án aðgreiningar.
Þannig að ágóðinn þar fer til að kaupa leikföng sem allir geta leikið sér með, en við erum jú öll misjöfn og það þarf að vera til leikföng fyrir alla.“ segir Charlotta.
Charlotta segir að búið sé að gera Tankinn á Flateyri fínan fyrir þau og segir hann vera orðinn mjög fallegan. Þar er komið nýtt gólf og búið að setja flott parket uppi að sögn hennar og bætir hún við að spáð sé virkilega góðu verði á fimmtudeginum þannig að allar líkur eru á að opið verði út í garð á þeim tóneikum.
„Á Flateyri erum við að styrkja við Katrínu Björk Guðjónsdóttir sem er algjör hetja. Hún fékk heilablæðingu og lamaðist í kjölfarið en er ein jákvæðasta og duglegasta stúlka sem ég hef hitt. Við erum ótrúlega ánægð að fá að styðja við hana“ segir Charlotta.
Tónleikaferðinni lýkur svo í Bolungarvík þar sem tónleikarnir hefjast fyrr, eða klukkan 18:00 í staðinn fyrir 20:00 líkt og á hinum tveimur stöðunum. „Mýrarboltinn hefst það kvöld klukkan 20:00 og þess vegna erum við fyrr á ferðinni þar. Í Bolungarvík styðjum við Hjúkrunarheimilið Berg, það verður keyptur tækjabúnaður sem vantar þar á bæ fyrir ágóðann af tónleikunum.
Högni er búinn að vera fyrir austan og kemur keyrandi beint vestur. Hann lýsir tónleikunum sem teknó rómance, hvað sem það þýðir! En við erum mjög spennt fyrir þessu, Högni verður bæði með nýtt og gamalt efni og hann er auðvitað frábær tónlistarmaður. Þetta verða nánir tónleikar þar sem fólk kemur saman til að njóta.“ segir Charlotta.
Að sögn Charlottu fæddist hugmyndin á fjölum Snaps Bistro í Reykjavík þar sem Charlotta hefur unnið. Hún segist hafa verið að ræða við Högna þar og sagt honum að hún væri á leiðinni vestur til að vinna á Vagninum á Flateyri. „Hann lýsti í því samtali ást sinni á Vestfjörðunum og kirkjunum þar. Við ræddum um fegurðina og orkuna sem finnst í náttúrunni á Vestfjörðum og ég sagði honum að hann væri velkominn vestur til að halda tónleika.
Svo ræddum við þetta nokkrum sinnum í viðbót og einn daginn kom hann að mér og sagði: “Þetta er komið, Högni fer Vestur, kýlum á þetta! Eftir það var ekki snúið og síðan þá hefur samstarfskona mín frá Snaps, hún Nastasia bæst við hópinn varðandi skipulagninguna og erum við virkilega spennt.
Það er líka frábært að sjá og finna þann stuðning sem við höfum fengið frá heimafólki. Hvort sem það þarf að hýsa okkur eða leggja hjálparhönd á skipulagningu, það er allstaðar hjálp að frá, sem er auðvitað frábært!“ segir Charlotta að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments