Víða um land eru gestavinnustofur og eru þær oftast nær eftirsóttarverðar fyrir listafólk. Á Siglufirði er tekið á móti innlendum sem erlendum listamönnum í Herhúsinu. Fólk kemur víðsvegar úr heiminum, bæði utan úr heimi sem og annarsstaðar af landinu og getur dvalið þar í lengri eða skemmri tíma. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Guðnýju Róbertsdóttir sem heldur utan um starfsemina og forvitnaðist um sögu Herhússins og hvað fram fer þar.
Svokallað Herhúsfélag var stofnað árið 1999 að sögn Guðnýjar af áhugafólki um myndlist. Félagið var stofnað utan um húsnæði sem Hjálpræðisherinn hafði byggt árið 1914 og notað fyrir samkomur sínar allt til ársins 1980. Eftir þann tíma hafði dregið úr starfseminni og húsið var í komið í niðurníðslu að sögn Guðnýjar. Markmið félagsins var að endurgera húsnæðið, laga það og færa það til fyrra horfs og fékk félagið styrk frá ríkinu til þess auk þess sem haldin voru uppboð á listaverkum til að styrkja verkefnið.
„Þessi vinna við húsnæðið hófst árið 1999 og fyrsti listamaðurinn kom í húsið árið 2005. Hann var sá eini það árið og svo fór þetta á fullt árið eftir. Þannig að þetta hefur verið svolítið lengi. Fyrst var ég bara með og var áhugamanneskja í þessu verkefni. En síðar fór ég í stjórn félagsins, ásamt Hálfdáni Sveinsyni og Kristjáni Jóhannssyni.“ segir Guðný.
Lítil stúdíóíbúð er uppi á annarri hæð hússins og Guðný segir að yfirleitt gisti einn eða tveir þar hverju sinni. Á neðri hæðinni er stór salur þar sem áður var samkomusalurinn og er þar vinnuaðstaða. „Það hafa örugglega yfir 200 manns verið hér í gegnum tíðina, svona miðað við að það séu 12 til 24 einstaklingar hér á ári. Það er sjaldan sem það dettur út mánuður hjá okkur, þetta er allt árið hérna.
„Það opnaðist alveg nýr heimur fyrir mér þegar ég tók þátt í þessu. Siglufjörður var einangraður áður og maður var ekkert að þvælast í burtu. Í gegnum þetta starf kynntist maður því nýju fólki í hverjum mánuði. Áður en Héðinsfjarðargöngin komu, þá vissu allir hver var í Herhúsinu, ef það var ný manneskja úti á götu, þá hlaut það að vera listamaðurinn í Herhúsinu.“ segir Guðný.
Samkvæmt Guðnýju eru breyttir tímar í dag, ferðamenn sjást daglega á göngu um bæinn og sá sem er í Herhúsinu ekki eins áberandi og áður. Þeir listamenn sem hafa dvalið hér hafa iðulega talað um að þeir vildu eignast hér húsnæði og hefur einn látið þann draum sinn rætast og stefnir á að vera hér hálft árið að minnsta kosti. Fyrir nokkrum árum var auðvelt að fá ódýrt húsnæði, en nú er minna um það. En Siglufjörður er enn aðlaðandi staður og þrátt fyrir fjölgun ferðamanna er enn hægt að finna hér frið og fara út án þess að hitta nokkurn mann.
„Fólk er að leita eftir að skoða landslagið og náttúruna, það gefur svo mikið og hún er svo nálægt. Þú labbar hér fram á fjörð og innan seilingar er iðandi fuglalíf á leirunum og svo gengurðu nokkur skref og ert komin upp í fjall.“ segir Guðný.
Að sögn Guðnýjar er húsið aðlaðandi og fólki finnst gott að dvelja í því. Hún segir að undanfarin ár hafi útlendingar sótt þetta mikið en í ár séu Íslendingar í meira mæli að koma. Guðný bætir við að sumir sem koma og dvelja í Herhúsinu vilji kynnast fólki og gera verkefni með samfélaginu og hitta fólk en aðrir séu komnir til að vinna hugmyndavinnu og vinna að list sinni. Hún segir að áhrif starfseminnar séu jákvæð fyrir samfélagið á svæðinu og að gott framboð af afþreyingu sé til staðar í bænum. Með þessari starfsemi fylgi líka sýningar sem fólk getur sótt.
„Fólk segir gestum sínum frá þessu og sendir það hingað eða í Alþýðuhúsið, þótt það fari ekki endilega sjálft á þessa staði.
„En þetta skiptir máli, upp á að það sé einhvers virði að vera hér. Mér finnst líka gott að kynna Siglufjörð fyrir fólki á þennan hátt og sem dæmi þá er listakona sem var hér núna að sýna Íslandsmyndir sínar á þremur stöðum úti í Þýskalandi. Hún tengir sýningarnar sínar við þennan stað og mér finnst eitthvað notalegt við það.“ segir Guðný að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
ความคิดเห็น