Á morgun, nánar tiltekið fimmtudaginn 22. apríl, opnar í glugganum í Gallerí Úthverfu/Outvert Art Space á Ísafirði fjórða sýningin í röð sjö örsýninga undir yfirskriftinni CARBON-KOLEFNI vísindi listanna – listin í vísindunum. Þessi fjórða sýning er samstarfsverkefni Jóns Sigurpálssonar myndlistarmanns á Ísafirði og Cristian Gallo vistfræðings og ber heitið „Handan við hafdjúpin bláu - Beyond the blue oceans deep and wide”.
Jón Sigurpálsson býr og starfar á Ísafirði. Jón menntaði sig til myndlistar í Reykjavík og Hollandi og hefur sýnt verk sín á sýningum hér heima og erlendis á fjórða áratug.
Cristian Gallo er vistfræðingur hjá Náttúrustofu Vestfjarða. Hann starfar við vöktun og rannsóknir á dýralífi fjara og sjávarbotns, skordýrum og fuglum. Vetrarfugla-, bjargfugla- og mófugla-vaktanir eru meðal þeirra verkefna sem hann sinnir tengdum fuglum en síðasta sumar byrjaði hann jafnframt að fylgjast með stofnstærð kría og hvítmáfa á Vestfjörðum.
Rannsóknastjóri Háskólaseturs Vestfjarða, Dr. Catherine P. Chambers og gestavinnustofur ArtsIceland ásamt Galleríi Úthverfu hafa unnið saman um nokkurt skeið að undirbúningi verkefnisins CARBON - KOLEFNI og verða örsýningarnar samtals sjö talsins.
Hægt er að sjá yfirlit yfir sýningar og listamennina hér að neðan, en sýningarnar hófust þann 10. mars síðastliðinn og munu standa fram að 1. júní næstkomandi.
CARBON – KOLEFNI - vísindi listanna / listin í vísindunum
1 - Innrás flundru í ferskvatni 10.mars – 16.mars
Pétur Guðmundsson með Theresu Henke
2 - Líffræði ferskvatns: ,,Liver of the river – Vængstífð von’’ 18.mars – 23.mars
Gunnar Jónsson með Daniel Govoni
3 - Tré og skógar 25.mars – 19.apríl
Nína Ivanova með Kristjáni Jónssyni
4 - Handan við hafdjúpin bláu - Beyond the blue oceans deep and wide
22.apríl – 11.maí
Jón Sigurpálsson með Cristian Gallo
5 - Þorskurinn : Viljinn til að lifa af 13.maí – 18.maí
Ólöf Dómhildur Jóhannsdóttir með Guðbjörgu Ástu Ólafsdóttur
6 - Að passa fjöllin sín 20.maí – 25.maí
Björg Sveinbjörnsdóttir með Sigríði Sif Gylfadóttur
7 - Grásleppa 27.maí – 1.júní
Rannveig Jónsdóttir með James Kennedy
Segir í fréttatilkynningu frá Gallerí Úthverfu að markmið verkefnisins er að leiða saman fólk á vísinda- og listasviðinu til samvinnu um ýmis rannsóknarverkefni og miðla afrakstri samvinnunnar til almennings með sýningum og margvíslegum öðrum miðlunarleiðum.
Tilgangurinn er m.a. að gefa vestfirsku listafólki fleiri tækifæri til að þróa og sýna verk sín og gera vinnu þeirra sem starfa í vísindasamfélagi Vestfjarða sýnilegri og styrkja með því vestfirskt rannsóknasamfélag. Gluggasýningarnar í Úthverfu er einungis fyrsti hluti verkefnisins sem mun taka á sig fleiri birtingarmyndir á næstu misserum.
Við hvetjum áhugasama um að kynna sér þessa áhugaverðu sýningu sem og aðrar örsýningar í þessari sýningarröð. Sýningin opnar klukkan 17:00 og verður boðið upp á léttar veitingar og spjall og mun sýningin svo standa yfir til 11. maí næstkomandi.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments