top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Hámenning á landsbyggðinni

Updated: Apr 9, 2020


Þorrablót, Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, menning, landsbyggð, norðurland, úr vör, vefrit
„Sit á milli pabba og Skúla bónda, vona að það lendi ekki of mikið neftóbak á diskinum mínum þetta árið þegar þeir rétta pontuna á milli.“ Ljósmynd Gréta Bergrún Jóhannesdóttir

Það er þessi tími ársins, kjötsvimi jólanna í rénum og landsmenn farnir að strjúka kviðinn í tilhlökkun eftir þorramatnum. Fylgifiskur eða aðalatriði þessarar gömlu menningarhefðar sem þorrinn er. Við erum hætt að skera hrút og dreypa blóðinu til að gleðja guðina. En við fögnum þorra á þorrablóti. Fyrir mig er þetta menningarviðburður ársins. Við sem kjósum að búa í dreifðum byggðum landsins vitum nefnilega hvað menning er, en höfum kannski annan skilning á hugtakinu heldur en þeir sem búa á annars konar menningarstöðum.


Hvað um það. Menning eða landsbyggðarmenning. Leikhús elska ég og fer oftar í bíó heldur en vinkonur mínar sem búa með slíkt í næsta nágrenni. Það er nefnilega svo að það veitir okkur ákveðið öryggi að vita af öllu mögulegu í kringum okkur en ekki þar með sagt að við séum virkir notendur. Gott sveitaball tek ég fram yfir alla aðra menningu.

Hvað má kalla menningu ef ekki félagsstarf hverskonar, kvenfélagskellurnar mínar síkviku sem eru ekki bara að gefa sína vinnu til samfélagsins heldur einnig að halda uppi félagslegri menningarhefð. Svo er bæjarhátíðin, sjómannadagurinn, hestamannamót, hrútadagur í næsta þorpi, jólahlaðborð.

Hvað eru smalanir, göngur og réttir annað en gleði og hámenning? Ég veit ekki um virkari framleiðslu á rammíslenskum kveðskap heldur en hjá gangnammönnum í Hvammsheiði, sem syngja inní nóttina. Kannski ekki allt birtingarhæft enda ekki ætlað sem slíkt en ef þetta er ekki ómissandi menningarhátíð fyrir þá sem sækja fé til fjalla, þá veit ég ekki hvað. Í virkilega góðum mánuði náum við æskuvinkonurnar að finna kvöldstund til að setjast saman yfir póker, ó gleðin, því það virðist aldrei vera tími. En það er líka gott og gaman að fá til okkar tónlistarfólk og listamenn hverskonar. Þetta er allt gott í bland.

Þorrablót, Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, landsbyggð, menning, norðurland, úr vör, vefrit
Ljósmynd Gréta Bergrún Jóhannesdóttir

Þorrablót, ó gleðin. Spennan magnast þegar líður á janúar, hverjir verða leiknir uppá sviði. Dagurinn rennur upp, hittast saman vinkonur og nágrannakonur í naglalakk og sherrý. Dregið yfir varirnar, fínu kjólarnir dregnir fram, maturinn græjaður í trogið.

Sit á milli pabba og Skúla bónda, vona að það lendi ekki of mikið neftóbak á diskinum mínum þetta árið þegar þeir rétta pontuna á milli. Smá krydd ofaná kartöflustöppuna. Fæ þá smá koníak í kaupbæti ef ég nappa pelann sem gengur næstur.

Svo er sungið, etið og hlegið. Dansað inní nóttina, mögulega farið í eftirpartý, fer alveg að vaxa uppúr því samt.


Við lestur á ágætum pistli sem Guðmundur Gunnarsson, „gamall“ skólafélagi og bæjarstóri skrifaði á dögunum um fjölmenningu Vestfjarða fór ég að leiða hugann að eigin samfélagi. Í þorrablótsnefndina eru hvert ár kosnir einhverjir af okkar ágætu erlendu íbúum sem flestir eru af pólsku bergir brotnir og það gefur skemmtilegt krydd. Og hvað gerðist, þau fóru að mæta í ríkari mæli. Það er nefnilega svo að það léttir oft yfir hlutunum að geta gert pínu grín, að menningarmismun eða skemmtilegum tungumála misskilningi. Það er stundum sagt að þú skiptir máli í samfélaginu ef það er gert grín að þér á blótinu. Það er kannski eitthvað til í því, þó auðvitað þurfi að fara vel með hlutina og gæta almennrar aðgátar.

þorrablót, Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, menning, landsbyggð, norðurland, úr vör, vefrit
Einar Kárason var tekinn fyrir á þorrablóti á Þórshöfn eitt árið eftir umdeild pistlaskrif hans. Ljósmynd Gréta Bergrún Jóhannesdóttir.

Í tilefni þorra fylgir með ein viðeigandi vísa sem faðir minn og smalar syngja oft í ágætum kvæðabálki sem saminn var í öðrum gangnakofa en á vel við Þorrablót líka.

Það er eins og innra með mér eitthvað kveði ekki man ég allt sem skeði en eitt er víst að það var gleði.

Ég óska landsmönnum góðrar skemmtunar á þorrablótum hvar sem þau eru haldin. Þessi rammíslenska skemmtilega menningarhefð er hátíð sem lifir vonandi sem lengst.Comments


bottom of page