top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Grunnvíkingur


Elfar Logi Hannesson, Vestfirskir listamenn, Þórður Þórðarson, Grunnvíkingur, Bolungarvík, Vestfirðir, list, skáldverk, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Þórður Þórðarson Grunnvíkingur. „Víst var skáldatími Þórðar drjúgur og það er ekki hægt að segja að hann hafi verið latur í listinni.“ Ljósmynd aðsend

Vestfirskir listamenn

Þórður Þórðarson Grunnvíkingur

F. 12. ágúst 1878 Bolungarvík Grunnavíkurhreppi. D. 29. september 1913 á hafi úti.

Öndvegisverk: Konungskomu-Ríma, 1908, Formanna ríma á Bolungarvíkur Mölum, 1909, Halastjörnubragur, 1910.

Þórður var fæddur árið 1878 norður á Ströndum í Grunnavíkurhreppi og svo tengdur staðnum að hann kallaði sig Grunnvíking, Þórð Grunnvíking. Auglýsti það meira að segja í Vestra Ísafirði. „Ég undirritaður bið hér með alla, er einhver bréfaviðskipti við mig hafa að skrifa mig hér eftir Þórð Grunnvíking. Ísafirði, 14. des. 1907. Þ. Þórðarson Grunnvíkingur.“

Alþýðuskáld sem alltof lítið hefur verið fjallað um, enda kannski fallið í skuggann á frænda sínum og öðru alþýðuskáldi. Nefnilega Magnúsi Hj. Magnússyni betur þekktur sem Skáldið á Þröm en þeir voru bræðrasynir. Þórður var ekki síður yðinn við skáldfjöður sína einsog frændinn frægi. Orti óhemju mikið af rímum sem kvæðum oft í fjöldamörgum erindum einsog tíðkaðist á þeim tíma. Óhætt að segja að hann hafi verið rímnaskáld fyrst og fremst. Mikið eru þetta rímur tengdar hafinu sem hefur jú verið Vestfirðingum tengt allt frá upphafi byggðar. Í þeirri deildinni ber mest á svonefndum formannarímum og er þá einkum kveðið um formenn sjósóknara.


Þegar hann bjó í hinni Bolungarvík, ekki þessari í Grunnavík, orti hann rímnabálkinn, Formanna ríma, um formenn á Bolungarvíkur Mölum haustið 1909 sem telur ein 58 erindi, hringhend. Miklu meira orti hann af rímum á sínum Bolungarvíkurárum má þar nefna Minni Bolungarvíkur, 1912. Erinda fjöldi sumra rímna Þórðar eru ekki bara í tugum heldur á annað hundraðið.

Má þar nefna rímnabálk er hann orti í tilefni af konungskomunni til Íslands árið 1907. Er Friðrik VIII konungur Danmerkur og Íslands á þeim tíma, ákvað að kikka aðeins á þegna sína á eyjunni er kennd er við ís. Nefndi Þórður hina konunglegu rímu einfaldlega, Kounungskomu-Rímu, og er hún ein 185 erindi, ferskeytt.

Tíminn er misdrjúgur fólki. Sumir nýta hann sérlega vel og eru alltaf í vinnunni ef svo mætti segja, á það ekki síst listamenn. Þeir eru voða mikið í vinnunni án þess þó að fá borgað fyrir það. Víst var það svo með Þórð Grunnvíking. Þrátt fyrir að vera fátækur alla ævi var hann alltaf í vinnunni. Eftir dagsstritið tók við hin vinnan, listin. Víst var skáldatími Þórðar drjúgur og það er ekki hægt að segja að hann hafi verið latur í listinni. Ofan nefndur rímnakveðskapur væri nú alveg þokkalegt dagsverk, sérlega þar sem verkin eru unnin eftir hin greiddu dagsverk. Einsog skáldafrændi hans þá ritaði hann samviskulega dagbækur auk þess að vera fræðimaður, skráði sögur og vann meira að segja að Hornstrandasögu en lauk því miður eigi því verki. Svo samdi hann líka leikrit. Ekki nóg með það heldur lék hann einnig í þeim og hélt kvæðaskemmtanir í Víkinni og víðar.


Þórður og fjölskylda hans bjuggu víða vestra. Árið1909 flytja þau til Bolungarvíkur. Þar fetar hann nýja slóð og ritar um það í dagbókina, 13. febrúar 1910. „Ég hélt samkomu í Góðtemplarahúsinu hér. Kostaði húsið 3 kr. Dyravörður var Jóhann Bjarnason formaður. Inngangseyrinn kostaði 25 aura fyrir fullorðna en 10 aura fyrir börn. Ég kvað formannavísur mínar um Bolvíkinga og gamanvísur mínar er ég orti um skólanefndina hér. Það þótti góð skemmtun. Ég fékk inn 21 kr. Gaf Halldóri Kristjánssyni 3 kr. Hann var með mér. Svo hélt ég ræðu um íslenskar rímur og rímna skáld.“ Næstu árin hélt hann skemmtanir víða vestra og meira að segja í höfuðborginni hvar hann tróð upp í Bárunni.


Árið 1910 var tími listabreytinga hjá skáldinu Þórði ekki bara það að hann fór sjálfur að kveða fyrir áhorfendur og fá greitt fyrir, heldur fór hann að fást við leikritasmíð. Frá þessu segir hann í dagbókinni, 14. mars:

„Samdi ég leikrit í fyrsta sinn er hét, Bóndinn og útilegumaðurinn. Sex í leiknum.“ Þarna á hann vitanlega við að hlutverk leiksins hafi verið sex talsins. Góðir hlutir gerast oft snöggt og vel því aðeins fimm dögum síðar, 19. mars, setur Ungmennafélagið þetta fyrsta leikverk Þórðar á svið.

Í mars 1912 ritar hann í dagbókina. „Ég sat við að semja leikritið, lauk við það í sjö þáttum og nefndi, Hringinn dýra (eða Hringurinn.) Efnið er tekið úr sögu úr kvöldvökum.“ 23. mars er nýja leikritið hans svo frumflutt: „Leikinn sjónleikur í Góðtemplarahúsinu hér um kvöldið: Húsbændur og hjú, Sálin hans Jóns míns, Hringurinn dýri, eftir mig. Okkur var boðið mér og konu minni. Ég var þá talsvert ölvaður.“


Nú vitnum við ekki í dagbók skáldsins heldur í blaðið Vestra dags 1. otkóber 1913. „Róðrabátur fórst í fiskiróðri héðan í gærdag. Báturinn fannst á reki vestanvert við Skálavík í gær og var einn mannanna örendur í bátnum. Á bátnum voru þrír menn.“ Um þann þriðja er sagt: „Þórður Þórðarson Grunnvíkingur, kvæntur og á mörg börn í ómegð. Hann var vel hagmæltur og ritfær nokkuð og lesinn mikið í fornum fræðum, en átti löngum við þröngan kost að búa, og naut sín því ekki sem skyldi.“


Aðalheimild:

Guðlaugur Gíslason. Þórður Þ Grunnvíkingur rímnaskáld ævisaga. Vestfirska forlagið, 2011.


bottom of page