top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Aðskilnaður frá náttúrunni mistök“


Gilsfjordurarts, Martin Cox, Brekka, gestavinnustofa, úr vör, vefrit
Martin Cox, listrænn stjórnandi gestavinnustofunnar í Gilsfirði. Ljósmynd Gilsfjordurarts

Gestavinnustofan Gilsfjordurarts er staðsett í gömlum sveitabæ að nafni Brekka í Gilsfirði. Árið í ár er það fyrsta sem boðið er upp á vinnustofur frá vori fram á haust. Hugmyndin að gestavinnustofunni kviknaði á vordögum árið 2016 þegar Martin Cox heimsótti Brekku í fyrsta sinn og féll fyrir staðsetningu og umhverfi staðarins


Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Martin á dögunum og fékk að heyra hvað framundan sé á Brekku og mat hans á kostum gestavinnustofa almennt. Martin segir að hann hafi heillast af náttúrufegurð og einangrun Vestfjarða við fyrstu heimsókn og strax séð möguleikana sem Brekka hafði upp á að bjóða. Það var svo í nóvember árið 2017 að skipulagning hófst af alvöru og sótt var um styrki fyrir starfsemina. Ári síðar var ráðist í endurbætur á húsinu og haldin var formleg opnun. Í kjölfarið komu fjölmargir listamenn, bæði innlendir sem og erlendir og nýttu sér aðstöðuna áður en vetur skall á.

Rými er fyrir þrjá til fjóra einstaklinga í gistingu, auk þess sem efsta hæðin er sameiginleg vinnustofa. Árið í ár er því fyrsta árið sem boðið er upp á aðstöðu frá vori fram á vetur, frá maí fram að lok október. Nú þegar er nánast orðið fullbókað og munu bæði koma innlendir listamenn sem og fólk allstaðar að úr heiminum.
Gilsfjörður, gestavinnustofa, Gilsfjordurarts, Brekka, úr vör, vefrit
Mikil náttúrufegurð er í Gilsfirði. Ljósmynd Gilsfjordurarts

Að baki verkefninu standa Bergsveinn Grétar Reynisson (Beggi), eigandi Brekku, Guðlaug Guðmunda Ingibjörg (Gulla) sem stýrir framkvæmdinni og svo fyrrnefndur Martin Cox, ljósmyndari og listrænn stjórnandi verkefnisins. Martin hefur starfað sem sjálfstæður listamaður í yfir 20 ár, hefur sótt gestavinnustofu hér á landi og verið boðið að setja upp sýningar hérlendis.

„Þetta byrjaði allt með því að ég tók eftir óþekktu listaverki í eldhúsinu á Brekku, sem tók svona fallega á móti okkur. Mér datt strax í hug að þessi staður væri upplagður til að hýsa gestavinnustofu. Ég hafði áður leitað að staðsetningu fyrir vinnustofu og sá að þessi staður væri fullkominn, hingað þyrftu listamenn að koma. Og þar með fór þetta af stað.“ segir Martin.
Gilsfjordurarts, Brekka, Gilsfjörður, gestavinnustofa, úr vör, vefrit
Martin, Gulla og Beggi - fólkið á bakvið Gilsfjordurarts. Ljósmynd Gislfjordurarts

Martin segir að ekki verði boðið upp á sýningar í Brekku en að hann sé að leita að hentugri sýningarrýmum á svæðinu. Hann segist ætla að hafa samband við forráðamenn Ólafsdals í Gilsfirði, Handverks í Króksfjarðarnesi, Sauðfjársetursins á Ströndum og Galdrasýninguna í Hólmavík. Martin stundaði nám í listaskólum í Bretlandi og Kaliforníu heldur utan um heimasíðu verkefnisins og stýrir samfélagsmiðlum þess. Auk þess er hann í sambandi við listafólkið sem sækir gestavinnustofuna og skipuleggur dvöl þeirra.

Samkvæmt Martin þá var líkt og þetta hafi allt verið skrifað í skýin.

„Þegar ég hitti Begga og Gullu og sá bæinn Brekku þá kom þetta allt heim og saman. Rétta fólkið í réttu umhverfi og okkur kom öllum svo vel saman og höfðum í raun sama markmið. Nú er að fara af stað fyrsta heila árið okkar og áhrif verkefnisins mun ekki gæta strax. En það munu myndast sambönd á stað sem hefur undir högg að sækja hvað varðar fólksfækkun og fleira.
Brekka, Gilsfjordurarts, Gilsfjörður, gestavinnustofa, úr vör, vefrit
Margar hendur vinna létt verk! Málað innanhúss í Brekku. Ljósmynd Gilsfjordurarts

Ég sé marga kosti fyrir heimafólk, listafólk og gesti varðandi það samtal og þau sambönd sem geta myndast á stað sem þessum. Að mínu mati er áhrifin svo margþætt af svona starfsemi og það ætti að hafa gestavinnustofur sem víðast um landið. Bæði heimafólk, listafólkið og gestir geta fengið svo mikið útúr svona samstarfi og það væri því ráð fyrir stjórnvöld að stuðla að svona starfsemi.“ segir Martin.

Martin bætir því við að hann vonist að samhliða verkefninu geti verslun opnað aftur í Króksfjarðarnesi með t.d. bensínstöð. Einnig gæti Handverk verið mögulega opið meira og lengur og hýst jafnvel sýningar. Með þessu geti skapast meiri innkoma á svæðinu, því með listafólkinu fylgja vissulega tekjumöguleikar. Hann segir afar ánægjulegt að vinna vera í samstarfi við listafólkið, sinna sinni list og starfa með Begga og Gullu varðandi að láta verkefnið verða að veruleika.

Gilsfjordurarts, Brekka, Gilsfjörður, gestavinnustofa, úr vör, vefrit
Notalegt er um að litast í Brekku. Ljósmynd Gilsfjordurarts

„Það eru nokkrir þættir síðan krefjandi og þarfnast skipulagningar. Um sé að ræða oft langar vegalengdir, t.d. til að fara í verslun á Hólmavík. Það getur verið snúið að koma listafólkinu alla leið til Brekku, hvað varðar samgöngur, sér í lagi þegar ekki er búið að gefa út samgönguáætlanir langt fram í tímann. Og svo er það tungumálið, íslenskan. Það er erfitt, en ég reyni!“ segir Martin.

Að sögn Martin er margt spennandi framundan. Unnið er að frekari fjármögnun, en nú þegar hafa þau fengið styrk frá Uppbyggingarsjóði. „Við viljum vinna meira í aðstöðunni. Það er frábær hlaða á staðnum sem hægt væri að gera að vinnustofu einnig. Einnig erum við með hugmyndir að því að reisa torfhús, hafa grænmetisgarð og jafnvel að hefja skógrækt. Það er svo frelsandi að sækja gestavinnustofu. Þú ferð í burtu frá daglegum venjum, hittir annað listafólk og nærð að einbeita þér algjörlega að þinni listsköpun sem er sjaldgæfur munaður. Það er reyna sífellt að koma þér á framfæri og halda sýningar getur tekið á og gestavinnustofur veita manni eldsneyti til að tengjast krafti listarinnar. Þess vegna viljum við stuðla að sem besta umhverfi fyrir fólk.“ segir Martin.


Gilsfjordurarts, Brekka, Gilsfjörður, residency, úr vör, vefrit
Bærinn Brekka er einangraður og getur það aukið flækjustigið varðandi skipulagningu. Ljósmynd Gilsfjordurarts

Martin segir að náttúran spili stórt hlutverk er kemur að Brekku og Gilsfirðinum og ástæðu þess að fólk ætti að sækja gestavinnustofuna heim.

„Fyrir listafólk sem býr í borg er afar mikilvægt að tengjast á ný við náttúruna og upplifa sig sem hluta af náttúru á nýjan leik. Að mínu mati var þessi aðskilnaður frá náttúrunni mistök sem mannfólkið gerði. Við erum komin af nátturunni og þurfum að upplifa hana. Það að geta komið hingað í Brekku, farið í gönguferðir, upplifað þögnina, fundið fyrir veðráttunni og til að hafa tíma til að hugleiða í náttúrunni er ómetanlegt.“ segir Martin að lokum.
Gilsfjordurarts, Brekka, Gilsfjörður, gestavinnustofa, úr vör, vefrit
Að verja tíma í Gilsfirði er upplögð leið til að tengjast náttúrunni. Ljósmynd Gilsfjordurarts


Comments


bottom of page