Gamanmyndahátíð Flateyrar verður haldin í fjórða sinn í september mánuði næstkomandi. Það eru félagarnir og kvikmyndagerðarmennirnir Ársæll Níelsson frá Tálknafirði og Eyþór Jóvinsson frá Flateyri sem komu hátíðinni á kopinn árið 2016. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í þeim síðarnefnda á dögunum og fékk að heyra um hvernig viðtökurnar hafa verið og hvernig hátíðin hefur þróast.
Eyþór segir að þeir félagar hafi verið viðstaddir aðra kvikmyndahátíð fyrir nokkrum árum og að leiðindin hafi verið að drepa þá vegna þess þunga efnis sem hafi verið til sýnis. Það hafi þó ein kvikmynd staðið uppúr og var það hollensk gamanmynd og lifnaði yfir salnum þegar hún var sýnd að sögn Eyþórs. Hann segist hafa pikkað í félaga sinn og spurt hann af hverju kvikmyndahátíðir væru ekki bara svona, með gleði og hlátri. „Svo fengum við okkur bjór um kvöldið og ræddum þetta og hátíðin var haldin einhverjum mánuðum síðar.
„Fyrsta hátíðina var svolítið fyndin, við kíldum á þetta og vissum ekki alveg hvernig þetta yrði. Við sýndum myndir sem við höfðum séð sem okkur fannst fyndnar svo var skellt í ball og mikið fjör. Þannig að fyrsta hátíðin flaug í gegn svolítið áreynslulaust. Það var svo gaman að við ákváðum að halda hátíðina aftur.“ segir Eyþór.
Samkvæmt Eyþóri hafa þeir sýnt hátt í eitt hundrað íslenskar gamanmyndir á þessum fyrstu þremur árum og segir hann að það hafi grynnkað í þeim sjóðum sem þeir geti sótt í. Stefnt er að því að hafa vinnusmiðju vikuna fyrir hátíðina í ár, þar sem íslenskar gamanmyndir, stuttmyndir þá, verða búnar til. „Svo erum við að fara að sýna erlendar myndir í fyrsta sinn í ár, þannig að hátíðin verður með meiri alþjóðlegri brag héðan í frá. Þetta hafa verið bæði nýjar og gamlar myndir sem sýndar hafa verið.
„En frumsýningum á gamanmyndum hafa alltaf með árunum fjölgað, í fyrra voru frumsýndar alls sextán myndir sem er auðvitað frábært. Við höfum sýnt u.þ.b. þrjátíu gamanmyndir á hverri hátíð og í fyrra mættu tæplega 1.000 manns á hátíðina. Þannig að áhorfendafjöldinn hefur þrefaldast frá byrjun, því fyrsta árið mættu um þrjúhundruð manns.“ segir Eyþór stoltur.
Hátíðin stendur yfir frá fimmtudegi til sunnudags og núna í ár verður hún lengri vegna vinnusmiðjanna í vikunni fyrir. Að sögn Eyþórs fá þeir félagar fjöldan allan af góðu fólki sem hjálpar þeim að láta þetta verða að veruleika. Hann segir að það sé margra manna verk að halda svona hátíð og að flestir Flateyringar komi að þessu á einn eða annan hátt. „Það er stundum sagt að það þurfi heilt þorp til að ala barn, það má segja það sama um hátíð sem þessa. Það sem er frábært við þetta er að við erum að bjóða upp á myndir sem eru ekki aðgengilegar hér á svæðinu. Þetta er að verða ein stærsta tekjuöflunarhelgi fyrir ferðaþjónustuaðila á svæðinu og svo er þetta bara svo gaman!
„Það er gleði og hlátur hér heila helgi og ímynd svæðisins verður önnur. Flateyri er svolítið tengd við harm og sorg sem var í kjölfar snjóflóðsins og þess vegna er gaman að koma með þessa jákvæðu ímynd af staðnum í gegnum þetta.“ segir Eyþór.
Að sögn Eyþórs finnst þeim félögum gaman að styrkja íslenskar gamanmyndir. Hann segir að íslenskar myndir virðist alltaf fjalla um þunglynda, drykkfellda, einstæða feður út á landi, og því sé gott að fá aðra sýn inn í flóruna. Þeir hafa hvert ár boðið heiðursgesti vestur til að vera viðstaddur hátíðina. Með því heiðra þeir aðila sem hafa lagt eitthvað af mörkum til íslenskrar gamanmyndagerðar.
„Þetta er fólkið sem hefur gert okkar ástsælustu íslensku kvikmyndir, Nýtt líf, Stella í Orlofi, Með allt á hreinu og allar þessar myndir en þau hafa aldrei fengið neina viðurkenningu eða verðlaun fyrir að vinna þessa vinnu. Það er alltaf verið að verðlauna dramatíkina og leiðindin og þau sitja eftir sem færa okkur mestu gleðina. Við viljum þakka fólkinu sem hefur fengið okkur til að hlæja í gegnum tíðina.“ segir Eyþór.
Eyþór segir að Flateyringar séu duglegir að sækja þessa hátíð og fólk sem hafi tengsl á svæðið komi einnig. Samkvæmt Eyþóri buðu þeir í fyrsta skipti upp á sérstaka barnasýningu á síðasta ári og vakti það mikla lukku að hans sögn. „Við fengum Villa vísindamann til að koma og tala við krakkana. Svo var sýnd Sveppa og Villa mynd og það var best sótti viðburðurinn það árið, þannig að við munum gæta þess að það sé líka eitthvað fyrir börnin hér. Eftirminnilegast var þegar Með allt á hreinu var sýnd hér eitt árið. Þá var sungið með og það var troðfullur salur. Ágúst Guðmundsson leikstjóri var hér og við heiðruðum hann og hann hélt erindi fyrir sýningu.
„Það var mikið talað um þennan viðburð og margir sem vilja að við endurtökum þetta. Þetta var magnaðasti kvikmyndatengdi viðburður sem ég hef upplifað!“ segir Eyþór að lokum og má heyra stjörnurnar í augunum blika þegar hann rifjar upp þessa stund.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comments