Texti: Gréta Bergrún Jóhannesdóttir
Kvennmannsbrjóst og geirvörtur eru eitthvað svo skrítið umræðuefni. Ekki kynfæri en samt falin, tilgangurinn er að gefa næringu en samt alltaf tengd við kynlíf. Í gegn um tíðina hafa listaverk ýmist verið falin eða í hávegum höfð, nekt verið eðlileg eða feiminismál. Listaverk hafa verið “klædd” og afklædd aftur, skúlpturinn kossinn eftir Rodin var fyrst falin og síðar mikið hampað, hans frægasta verk.
Í sumum löndum eru konur kærðar ef þær gefa brjóst á almannafæri en lánsamlega erum við nú aðeins minna hrædd við þessi hættulegu fyrirbæri í almannarými. Við kannski skellum okkur nakin í heitar laugar uppá hálendinu, hverjum er ekki sama. Bara eins og guð skapaði okkur. Því tilgangurinn með sundferðinni er jú ekki kynferðislegur. Svona í flestum tilfellum allavega.
Þar sem ég fer í sund velti ég þessu stundum fyrir mér, nekt. Hvað þetta er eitthvað tabú sums staðar. Í sundlaugarklefanum á Íslandi ertu bara nakinn, enginn að spá neitt í því. Eða jú kannski einhverjir, en þeir þá kannski eru bara ekkert að fara í sund sem er synd. Því sund er jú þjóðaríþrótt íslendinga, ekkert betra.
Og nóg er að sjá af brjóstum.
Slöpp brjóst, bústin brjóst,
misstór brjóst, lafandi brjóst.
Sum eru hangandi eins og örþunnir pokar,
önnur lítil, sum alveg flöt
einhver stinn.
Stór brjóst með slitinni húð
Lítil brjóst með örlitlum geirvörtum.
Og maður minn geirvörturnar.
Sumar stjórar, aðrar litlar, einhverjar innfallnar
Einhverjar dökkar og brúnar,
aðrar bleikar, sumar hálf litlausar.
Ég velti þessu fyrir mér og fitja uppá nefið þegar enn eitt parið blasir við, hálf nuddast upp við mig, kafloðin brjóst sem hanga slöpp yfir stórum maga…stend uppúr heitapottinum og held inní sundlaugarklefann. Þar blasa svo við öll konubrjóstin. Þessi hættulegu. Stjór brjóst, lítil brjóst, flöt, slitin, bústin, falleg, misstór…ætlar þetta engan endi að taka?
Comments