top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Friður og lífsfylling að eitthvað sé að gerast í bænum“

Updated: Mar 26, 2019


Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, úr vör, vefrit, siglufjörður
Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, eigandi Alþýðuhússins

Aðalheiður S. Eysteinsdóttir er mörgum kunn fyrir starf sitt í þágu lista og menningar á landsbyggðinni. Hún útskrifaðist sem málari frá myndlistarskólanum á Akureyri og fór svo að vinna markvisst með endurvinnslu efnis. Rauði þráðurinn í verkum hennar er mannlíf, samskipti fólks, menn og dýr. Hún hefur unnið með ýmis efni, málverk og myndbönd, en er hvað þekktust fyrir tréskúlptur sem er samsettur úr allskonar afgangs timbri. Þannig verk hafa verið hennar aðalsmerki síðastliðin 20 ár. Aðalheiður kom að Verksmiðjunni á Hjalteyri á sínum tíma, auk uppbyggingarinnar í Listagilinu á Akureyri. Í dag býr hún og starfar á Siglufirði. Blaðamaður ÚR VÖR sló á þráðinn til Aðalheiðar á dögunum til að forvitnast um starfsemina í Alþýðuhúsinu á Siglufirði.

Alþýðuhúsið er fyrst og fremst vinnustofan mín, ásamt því að vera heimili mitt og viðburðarstaður. Ég sá þetta hús og komst að leiðum til að kaupa það árið 2011. Það var mikið gæfuspor og gerð ég það upp með hjálp vina og vandamanna og við hófum svo starfsemi í húsinu þann 19. júlí árið 2012.“

„Þann dag hélt ég upp á 70 ára afmæli móður minnar og um leið var fyrsti dagurinn á Reitum Workshop, þannig að hér var troðfullt hús af fólki, mikil gleði og sköpun.“ segir Aðalheiður.

Að sögn Aðalheiðar er ávallt líf og fjör í húsinu. Alltaf sé eitthvað nýtt og áhugavert sem komi upp og sem hún vilji miðla. Hún stendur fyrir mánaðarlegum viðburðum sem hún kallar „Sunnudagskaffi með skapandi fólki“. Þar koma fram m.a. fyrirtækjaeigendur, umhverfisfræðingur, sögumenn, listamenn. Þetta er framhald af viðburðum sem voru kallaðir „Á slaginu 6“ sem Aðalheiður setti upp hingað og þangað um landið, alls 90 viðburði. „Þetta eru viðburðir þar sem ég kalla í allskonar skapandi fólk í samfélaginu, listamenn, ljóðskáld og tónlistarfólk, bæði erlenda og innlenda aðila sem halda ýmis erindi. Fólk kemur, fær kökur og kaffi og spjallar saman.“ segir Aðalheiður.

 Alþýðuhúsið, úr vör, vefrit, Siglufjörður
Líf í vinnustofunni. Ljósmynd Alþýðuhúsið

Alþýðuhúsið var eitt þriggja verkefna sem tilnefnt var til Eyrarrósarinnar árið 2017. Þar er lítið gallerý sem kallast Kompan sem Aðalheiður hefur rekið í 20 ár, fyrst í Listagilinu á Akureyri áður en hún setti það svo upp á Siglufirði. Þar eru mánaðarlegar þriggja vikna sýningar og vika á milli þar sem listafólki gefst færi á að undirbúa sýningarnar. Þar sýna bæði Íslendingar eða erlendir aðilar og eru sýningarnar alltaf vel sóttar að sögn Aðalheiðar. Hún segir að fólk sæki yfir það heila vel þá viðburði sem eru hjá henni, en bætir við að Siglfirðingar og nærsveitarmenn mættu þó að vera duglegri að sækja viðburðina.


Opið er daglega í galleríinu Kompunni og svo reglulegir viðburðir í vinnusalnum hennar Aðalheiðar. „Um Páskana er svo gjörningaviðburður á Föstudaginn langa og um leið er ný sýning í Kompunni. Núna er svo að bætast við tónlistarprógram á laugardeginum um páskana, þar sem fram kemur ungt klassískt tónlistarfólk. Páskarnir eru sem sagt stórir hér, bæði fólk með sína list og aðrir að njóta. Svo koma fremstu jazzleikarar landsins hingað reglulega og eru með tónleika.“

„Svo hef ég reynt að ýta undir þá sem eru að byrja, t.d. hefur raftónlistarfólk undanfarin ár spilað og gert sínar kúnstir hér og sumir þeirra eru að flytja sína fyrstu tónleika hérna hjá mér. Það er mjög gaman að því, að vera liður í einhverju sem er að byrja.“ segir Aðalheiður.
 Alþýðuhúsið, úr vör, vefrit, Siglufjörður
Sköpunarandinn svífur yfir vötnunum í Alþýðuhúsinu. Ljósmynd Alþýðuhúsið

Aðspurð segir Aðalheiður það mikla þýðingu fyrir Siglufjörð að hafa starfsemi líkt og á sér stað í Alþýðuhúsinu í bænum. „Það vilja allir hafa leikhús, tónleika, myndlistarsýningar, skóla, vilja hafa þessar mennta- og menningarstofnanir þótt þau sæki það ekki oft. Bara að vita af því, því þá geta þau sent gesta sína þangað.“

„Og þegar þeir segja frá hvað er að gerast í bænum, þá kemur upp ákveðið stolt, að það sé þetta til staðar og að þetta sé gerast í bænum þeirra. Það er lífsfylling sem fylgir því að blómlegt menningarlíf sé í bænum og ákveðinn friður og jafnvægi sem fylgir því að blómlegt menningarlíf sé í bænum. Það eru margir staðir þar sem ekkert er að gerast, fólki finnst þá eitthvað vanta.segir Aðalheiður.

Hún segist tengjast fólkinu í bænum með smiðjunum og leiti eftir stuðningi með margt. Að hennar sögn er mjög mikill velvilji meðal bæjarbúa en að það vanti skilning yfirvalda hvað þurfi til að svona menningarstarf nái að þrífast. „Bæjarfélög eru að átta sig á því að hús sem standa auð, þeim er vel varið í svona starfsemi. Áður fyrr var allt lok lok og læs og enginn fékk aðgang að neinu. Það hefur komist inn í hugarheim venjulegs fólks að það sé gott að fá listastarfsemi á svæðið.“ segir Aðalheiður.


Aðalheiður segist vera heppin með að sonur hennar og dóttir eru í myndlist og nær hún því góðri tengingu í gegnum þau við yngri listamenn. „Það er mikill lærdómur fyrir mig. Ég sjálf þarf að fylgja með í allri þessari þróun. Við vorum einmitt að ræða þetta fjölskyldan hvað starfið hefur breyst mikið á þessum átta árum síðan við opnuðum. Um 900 listamenn hafa komið í gegn á þessum árum. Það hafa verið u.þ.b. 280 viðburðir á þessum tíma, þannig að þetta er mikið starf.“ Að mati Aðalheiðar þá eru börn sem alast upp við að menningarstarf sé í bænum á gjörólíkum stað heldur en þau börn þar sem slíkt sé ekki til staðar. Hún tekur dæmi um Seyðisfjörð þar sem menningarstarf hafi blómstrað í öll þessi ár.

 Alþýðuhúsið, úr vör, vefrit, Siglufjörður
Listasýning undirbúin. Ljósmynd Alþýðuhúsið.

Fólk sem er þaðan (frá Seyðisfirði) og er 25 ára í dag, það stendur öðruvísi en annað fólk sem er að koma út í lífið. Það hefur víðsýni og meiri þekkingu en annað fólk sem nýtist þeim þó þau séu ekki í listum, heldur bara til að njóta lífsins, sem er auðvitað mjög mikilvægt.segir Aðalheiður að lokum.


bottom of page