„Góðan dag! Er einhver að fara frá Hólmavík til ísafjörður eða þingeyri í dag og taka mig með? Takk fyrir!!“
„Hvað?“ Spurningin hrökk ósjálfrátt fram af vörum mér þegar ég sá auglýsinguna. Í óðagoti sendi ég rafrænan flaum spurninga til Jaewon. Hvað hafði komið fyrir? Var fluginu aflýst? Hvar ertu! Spurningarnar héngu ósvaraðar inná hvítum fleti spjallrásarinnar. Ég leit aftur á fyrirspurnina inná Samferða Ísafjörður. Nokkrum klukkutímum fyrr höfðum við Jaewon setið saman í bíl þar sem ég keyrði hana á flugvöllnn á Ísafirði og við ræddum um tímann hennar á Þingeyri, brottförna og framtíðina. Þá var hún á leið til Reykjavíkur og daginn eftir til Seul. Af hverju var hún nú að óska eftir fari til baka og það frá Hólmavík af öllum stöðum?
Jaewon hafði um nokkurt skeið verið að reyna að komast frá landinu. Fyrst reyndar hafði hún sjálfviljug framlengt dvöl sína en svo hafði fluginu hennar verið aflýst í minnst þrjú eða fjögur skipti vegna heimsfaraldursins. Og nú, þegar flugið hennar átti loksins að fara, var hún að koma til baka. Í huganum fór ég í flýti yfir hvort það væri eitthvað sem ég gæti gert til að aðstoða, en komst fljótt að því að ég vissi ekkert hvað ég ætti í raun að aðstoða við og þyrfti bara að bíða róleg eftir svari. Hún hlyti að hafa gilda ástæðu fyrir því sem hún var að gera.
Jaewon Yoo kom til Þingeyrar í febrúar, þá í annað skiptið sem hún heimsótti landið. Í fyrra skiptið hafði hún heillast af íslenskri tónlist og langað að skoða betur umhverfið sem tónlistin var sprottin úr. Í þetta skiptið var ætlunin að upplifa Vestfirðina sem síðast höfðu orðið útundan og eftir svolítið vefráf hafði hún rekist á upplýsingar um Blábankann á Þingeyri.
Henni þótti því tilvalið að fara þangað og vinna samhliða því að taka þátt í námskeiði Hversdagssafnsins á Ísafirði í skapandi skrifum. Ferðin átti að vera stutt, vika á Vestfjörðum, nokkrir dagar í Reykjavík og svo aftur heim til Seul. Svo stutt raunar átti ferðin að vera að Jaewon lét hjá líða að láta fjölskylduna vita um áætlaða för sína þar til kvöldið fyrir brottför. „Æ ég verð komin svo fljótt heim aftur“ hafði hún sagt þeim.
Þegar leið að heimför ákvað Jaewon að vera svolítið lengur þar sem dvölin á Þingeyri hafði reynst kærkomin hvíld frá daglegu amstri og kyrrðin veitt henni hugarró. „Í Kóreu er mikil samkeppni um veraldleg gæði og þrýstingur á ungt fólk að standa sig“ segir hún. Námsmenn eru undir miklu álagi allt frá unglinsárunum og dvelja við nám í skólanum dag hvern fram yfir kvöldmat. Hún segir að mikil áhersla sé lögð á að komast í vel metinn háskóla því slík menntun geti veitt brautargengi og möguleikann á góðri lífsafkomu seinna meir. Í háskólanámi sínu valdi Jaewon sér hagnýta braut á sviði lista við stjórnun menningarviðburða en hún er sjálf afar listhneigð, stundar ljósmyndun, skrifar ljóð og hefur brennandi áhuga á tónlist og kvikmyndum. Henni fannst þó námið ekki fyllilega standast væntingar og ákvað að gera nokkuð sem er all óvenjulegt í Kóreu, taka sér leyfi frá námi og fara að vinna.
Næstu ár vann hún við kvikmynda- og tónlistarhátíðir og fleira í þeim dúr, en í byrjun þessa árs ákvað hún að tími væri kominn til að láta undan samfélagslegum þrýstingi og klára námið. Jaewon þurfti því að komast aftur heim þar sem skólinn var að hefjast. Þá gerðist nokkuð sem enginn gat séð fyrir, heimsfaraldur setti allt flug í uppnám svo að rétt rúmlega vikulangt frí á Íslandi varð óvænt að nærri tveggja mánaða dvöl.
Þegar flugsamgöngur komust loks á kjöl og raunveruleg brottför Jaewon upprunnin setti að henni óútskýranlegan trega. Svo mikinn raunar að á hótelherberginu í Reykjavík að kvöldi brottfarar ákvað Jaewon að hún væri ekki reiðubúin að sleppa tökunum af því sem hún hafði fundið á Þingeyri, nefnilega frelsinu til að vera. Tíminn á Íslandi hafði verið alls óskipulagður og óvæntur, og þar með fullkomlega án væntinga. Hún hafði þannig fengið svigrúm til að nema staðar, horfa innávið og takast á við krefjandi spurningar um hennar innsta kjarna og framtíðina. Nú vildi hún meiri tíma fyrir sjálfa sig svo að í trássi við aðrar skuldbindingar sleppti hún fluginu til Seul og húkkaði sér far aftur til Þingeyrar.
„Meðan flugið mitt var ítrekað fellt niður var fólk oft að stoppa mig útá götu bara til að athuga með mig og forvitnast um hvernig mér gengi“ segir hún og bætir við „það gerði það af væntumþykju og raunverulegum áhuga. Þeim var ekki sama um mig.“ Jaewon á svolítinn tíma eftir hér á Íslandi sem hún hyggst nýta við að æfa sig í tungumálinu sem hún var byrjuð að læra og njóta frelsisins til að vera. Þegar hún segir mér þetta má sjá í augum hennar hlýlegt blik og um varirnar leikur hófstillt en kankvíst bros. Hún er kona sem fer sínar eigin leiðir.
Texti: Arnhildur Lilý Karlsdóttir
Comments