top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Fótboltinn, foreldrar og forsetinn


Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, fótbolti, Langanes, landsbyggðin, litla liðið, fótboltamamma, draumar, úr vör, vefrit
„Að standa á Króksmóti í norðvestan illviðri þrjá daga, en koma svo heim með bikar. Öll bleyta, þreyta, töp og gremja gleymd.“ Ljósmynd Gréta Bergrún Jóhannesdóttir

Munið þið þegar þið voruð börn og svo ofur stolt af afrekum ykkar, brosandi til foreldra og ættingja í leit að hrósi? Þegar heimurinn var svo óendanlega stór en samt svo lítill. Mér hlotnaðist sá heiður að vera fótboltamamma. Á dauða mínum átti ég frekar von en að sogast inn í heim fótbolta. Meira að segja farin að horfa á þann enska, svona í og með, aðallega að ergja synina að halda með Liverpool þegar ManU er víst eina vitið.

Við erum lítið lið með stóra drauma. Af hverju ætti lítill gutti af Langanesinu ekki að geta orðið landsliðsmaður, spilað með ManU. Það er í raun ekkert því til fyrirstöðu en þetta þýðir skutl og keyrslu, og tíma og peninga. Þreytta foreldra. Þolinmæði.

Að standa á Króksmóti í norðvestan illviðri þrjá daga, en koma svo heim með bikar. Öll bleyta, þreyta, töp og gremja gleymd. Því þeir unnu Króksmótið, og svo líka Goðamótið ... skítt með bókstafinn á riðlinum.


Á kantinum á Goðamóti hittum við forsetann. Hann hvatti þá og hrósaði þeim. Svo mikið að þegar bikarinn var i höfn þótti ekkert sjálfsagðara en að leita hann uppi til að sýna bikarinn. Á kantinum stóðu líka tveir þjálfarar af hinu stóra höfuðborgarsvæði og klóruðu sér í hausnum, "Ég var að fylgjast með stigatölunni hjá ykkur, hvort þið mynduð hafa okkur... en svo kom bara eitthvað Langanes og tók þetta". Já það er nefnilega líka spilaður fótbolti þar.


Í Vestmannaeyjum kepptu þeir, svaka brattir, og fengu víti, í Vestmannaeyjum, gegn "liði" forsetans. Hann mundi að sjálfsögðu eftir þeim og sigrinum frækna á Goðamótinu. Enn segja þeir, „Manstu þegar forsetinn mundi eftir okkur að vinna Goðamótið“. Þvílík minning. En íþróttir eru ekki bara félagsskapur, félagslegur styrkleiki, hreyfing og forvörn. Þetta er líka virðing, að læra að tapa, að læra að sigra. Að sýna íþróttaanda og vera fyrirmynd fyrir börnin okkar. Sýna draumum þeirra virðingu. Hjálpa þeim að elta þá. Því þeir geta alveg ræst.

Gréta Bergrún Jóhannesdóttir, fótbolti, Langanes, landsbyggðin, litla liðið, fótboltamamma, draumar, úr vör, vefrit
„ Á dauða mínum átti ég frekar von en að sogast inn í heim fótbolta. Meira að segja farin að horfa á þann enska, svona í og með, aðallega að ergja synina að halda með Liverpool þegar ManU er víst eina vitið.“ Ljósmynd Gréta Bergrún Jóhannesdóttir

Mínir menn fengu að spila nokkra leiki á heimavelli í sumar. Þvílíkt stolt. Meira að segja afi gamli staulaðist niður úr dráttarvélinni í heyskap til að koma að horfa. Og litla liðið með stóru draumana getur allt. Líka sest upp í bíl og keyrt langar vegalengdir. Allt fyrir íþróttina. Það er nefnilega enginn stór þröskuldur við bæjarmörkin, hvorki raunverulegur eða andlegur. Vegurinn liggur í báðar áttir. Það virðist samt vera lengra í aðra áttina, svolítið skrítin stærðfræði. Enn eru foreldrar og íþróttafélög sem ekki treysta sér til að setjast upp í bíl og keyra út á land. Og stórir draumar standa laskaðir eftir, enginn leikur á okkar heimavelli. Af því að leiðin er svo löng, eða sko, altso í aðra áttina.


Comments


bottom of page