Þegar sonur minn var fimm ára ákváðum við foreldrarnir að leyfa honum að fara að æfa fótbolta ásamt einum jafnaldra. Þá um sumarið hafði fulltrúi KSÍ komið og kynnt íþróttir fyrir leik- og grunnskólabörnunum á Þingeyri og sýndu þeir félagar fótboltanum mikinn áhuga. Það var okkur því ljúft að bjóða honum að hefja æfingar með Vestra, liði Ísafjarðarbæjar, en þó ekki alveg án fórnarkostnaðar.
Þingeyri er ysta „hverfi“ Ísafjarðarbæjar og stendur í 48 km fjarlægð frá Ísafirði. Ísafjarðarbær telur einnig til Flateyrar, Suðureyrar og húsanna í sveitunum þar á milli, en sameining hreppanna var fyrir að verða 25 árum síðan.
Íþróttafélagið Höfrungur, sem er félagið á Þingeyri, er eitt elsta starfandi íþróttafélag landsins. Þar er unnið frábært og öflugt starf en þó mikill íþróttaáhugi sé hjá íbúunum verður ekki hjá því komist að börnin sæki íþróttaæfingar til Vestra sökum mannfæðar í „hverfinu“.
Vestri býður uppá æfingar fyrir 5 ára eða 8. flokk. Æfingar eru haldnar þrisvar sinnum í viku og fara tvær þeirra fram á Ísafirði og ein í nágrannasveitarfélaginu, Bolungarvík. Fórnarkostnaðurinn sem ég ræddi hér áðan var fólgin í auknum ferðalögunum á milli því þegar við hófum að keyra drenginn á æfingar vorum við hlutfallslega að bæta verulega í ferðir okkar til Ísafjarðar sem fram til þessa höfðu verið á um tveggja vikna fresti.
Þegar á hólminn var komið reyndust æfingarnar mjög fínar, en ekki svo vel sóttar. Kannski er það ekki svo skrítið að mætingin sé með aðeins frjálslegri hætti fyrir svona lítil kríli, en fyrir utan nokkur styttri tímabil mættu á æfingar að jafnaði 4-5 börn. Flestir drengir. Flestir frá Þingeyri og Flateyri ásamt foreldrum þeirra sem keyrðu marga kílómetra til að koma börnunum sínum á æfingu.
Allir eru því sammála að mikilvægt sé að halda úti íþróttastarfi fyrir börn og er það virðingarvert hjá Vestra að bjóða æfingar fyrir 5 ára börn. En ég vona, kæri lesandi, að þú veltir líka fyrir þér eins og ég af hverju ein þessara æfinga hafi ekki verið haldin í einu „hverfa“ Ísafjarðarbæjar til að efla íþróttastarf í smærri byggðarkjörnum sveitafélagsins.
Þessum pistli ekki ætlað að vera ádeila á íþróttafélagið, sannarlega ekki, en ég velti fyrir mér aðgengi að íþróttaiðkun barna á landsbyggðinni. Í okkar tilfelli ákváðum við að fækka æfingunum niður í tvær og þannig minnka aksturinn. Þá lá beinast við að sleppa æfingunni í Bolungarvík sem er í 61 km fjarlægð frá Þingeyri og væri, ef ég að að vera hreinskilin, nokkuð vel í lagt ef halda ætti þeirri æfingu inni í fjölskyldurútínunni.
En eftir stendur þetta:
Það er auðvelt að ákveða að fækka æfingum hjá fimm ára börnum þegar veður gera vond og erfitt er að leggja á sig akstur yfir fjöll og heiðar. En fyrir jafnvel bara aðeins eldri börn sem búa í smærri byggðarkjörnum, börnum sem hafa metnað og áhuga fyrir því að standa sig vel og ná langt í íþróttum, þá þarf æði mikla elju, langlundargeð og þrautseigju ásamt því að eiga gott stuðningsnet sem er til í að keyra og sækja svo barnið megi stunda æfingarnar samkvæmt áhuga og metnaði. Ég tek ofan fyrir þessum börnum og fjölskyldum þeirra því þau eiga sannarlega á brattan að sækja.
Texti: Arnhildur Lilý Karlsdóttir
Comments