top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Flug yfir torfærur ævidaganna


Ólöf Jónsdóttir, Vestfirskir listamenn, skáld, rithöfundur, skáldverk, list, menning, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit, Elfar Logi Hannesson
Listakonan Ólöf Jónsdóttir. Ljósmynd aðsend.

Vestfirskir listamenn


Ólöf Jónsdóttir

F. 22. september 1909 í Litlu-Ávík í Árneshreppi. D. 30. maí 1997 í Reykjavík.

Öndvegisverk: Heimsókn, 1961, Dularfulli njósnarinn, 1968, Dögg næturinnar, 1975.


Fyrirsögnin hér að ofan er sótt í söguna, Hjáseta, eftir vestfirsku listakonuna Ólöfu Jónsdóttur. Sögn þessi á vel við þegar minnast skal hinnar vestfirsku skáldkonu. Sagan fjallar í stuttu máli um stúlku er situr í síðasta sinn í hjásetunni yfir blessuðum ánum. Dagar æskunnar eru liðnir og nú þarf hún sjálf að standa á eigin fótum á nýjum stað.

Líkt og eigin sögupersóna gerði skáldið hið sama. Fædd og uppalinn á Litlu-Ávík í Árneshreppi og var langyngst sinna systkina. Tvítug að aldri fékk hún hina illvígu berkla og dveldi þá sumarlangt á berklahæli Hringsins í Kópavogi. Líkt og með aðra er berklarnir klófestu náði hún aldrei fullri heilsu. Helst var það bakið er hrjáði hana allt til enda. Seinna átti hún eftir að rita smásögu er gjörist einmitt á sjúkrahúsi og hefur þá án efa vistin á berklahælinu gefið skáldinu andagiftina.

Ólöf hlaut almenna menntun þess tíma en bætti svo í þekkingarsarpinn með hverju árinu. Stundaði hún um tíma nám hjá Námsflokkum Reykjavíkur og nam framsögn hjá Lárusi Pálssyni, leikara. Sú reynsla átti heldur betur eftir að nýtast henni vel því hún var vinsæll lesari í barnatíma Ríkisútvarpsins. Hvar hún las bæði eigin skáldskap og annarra. Hún flutti og margan ferðapistilinn í útvarpið. Enn bætti hún í þekkingarbrunninn þegar hún sótti tíma í bókmenntafræði við Háskóla Íslands án þess þó að ljúka þar formlegu námi.

Ólöf, eða Ólöf Jónína Kristbjörg einsog hún hét fullu nafni, var mjög fjölhæft skáld ritaði skáldsögur, sem ljóð, smásögur auk erinda bæði í blöð og tímarit. Óhætt er að segja að hún hafi verið mjög leitandi í list sinni og ávallt að skorast á við sjálfan sig í ritlistinni. Hún var og óhrædd við að gera tilraunir í verkum sínum og feta ókunnar slóðir. Eitt öndvegisverka hennar, Dögg næturinnar, er einmitt gott dæmi um þessa leit hennar. Verkið inniheldur ekki aðeins stuttsögur og ljóð heldur einnig sérstakt balletverk. Dansverk þetta er á þjóðlegu nótunum fjallar um bóndason sem lendir í haldi og klóm tveggja tröllkvenna. Vitanlega vilja þær báðar hann eiga svo úr verður heldur en ekki krassandi ævintýr. Bók þessi er myndskreytt af Sigfúsi Halldórssyni.

Ólöf Jónsdóttir, Vestfirskir listamenn, skáld, rithöfundur, skáldverk, list, menning, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit, Elfar Logi Hannesson
Úr verkinu „Dularfulli njósnarinn“ sem kom út árið 1968.

Í öðru fjölbreyttu verki, Glaðir dagar, fær hún til liðs við sig Vigdísi Kristjánsdóttur til að myndskreyta. Gaman er að geta þess að listakonan sú nam m.a. myndlist hjá hinum vestfirska Guðmundi Thorsteinssyni, Muggi, frá Bíldudal. Í, Glöðum dögum, eru sögur, þulur og ljóð og meira að segja eru nótur við eitt ljóðið. Höfundur þess lags er Fjölnir Stefánsson er var mikill frumkvöðull í músík málum í Kópavogi á sínum tilverutíma. Þau voru fleiri tónskáldin er sömdu lög við ljóð skáldkonunnar. Því hið dáða músík skáld Ingibjörg Þorbergs gerði lag við ljóð Ólafar, Sérhvert framtíðarspor.


Ólöf ritaði allmikið fyrir unglingana og má þar nefna drengjasöguna, Dularfulli njósnarinn, 1968.

Hún fjallar um vinina Gunnar og Pál sem lenda í æsilegu ævintýri sem hefst í Heiðmörk hvar þeir finna leynigöng. Þar inni eru einhverjir vafasamir aðilar að krukka og plotta undarlega hluti. Ævintýrið leiðir þá vinina alla leið til Afríku þar sem þeir lenda í mannætum, blettatígri og kirkislöngu svo aðeins nokkrir vafasamir séu nefndir. Loks komast þeir þó aftur heim til Íslands og til Reykjavíkur og að ævintýrahætti fer allt vel að lokum.

Dýr koma oft við sögu í sagnaheim Ólafar. Má þar nefna söguna um Litla Rauð, í samnefndu verki, er fjallar um folald sem fer bókstaflega á flug. Já, fær bara vængi og allt og flýgur um loftin blá. En í lokin komumst við að því að þetta var bara draumur því víst dreyma dýrin líka líkt og við mennirnir. Önnur saga fjallar um feðga sem róa á árabát einum út í Viðey. Þar er nú allt kjurt hvar áður var mikið líf. En þegar feðgarnir nálgast eynna kveður við hvellur byssukvellur. Feðgarnir hrökkva í kút og róa hratt í átt að eynni. En hvað haldiði að blasi þá við þeim er að er komið? Jú, dauð æðarkolla og tíu ungar synda ráðalausir í kringum hina föllnu móður.


Ólöf Jónsdóttir vann ekki aðeins að ritstörfum því hún starfaði í ein 12 ár í Þjóðminjasafni Íslands. Hún var tvíkvænt. Eignaðist tvo syni með fyrri manni sínum og tvær dætur með þeim seinni, en aðeins önnur þeirra lifði hin dó í bernsku. Helgi Seljan, alþingismaður með meiru, var góður vinur skáldkonunnar og því er við hæfi að gefa honum hér lokaorðin. En hann ritaði svo réttilega um skáldið Ólöfu „sem lék af listfengi á svo marga mannlífsstrengi.“

Helstu heimildir:

Hannes Pétursson, Helgi Sæmundsson. Íslenzkt skáldatal m-ö, Alfræði Menningarsjóðs, 1976.

Morgunblaðið 15. júní 1997, 22. júní 1997, 19. júlí 1997.

Skáldatal íslenskra barna- og unglingahöfundar, Lindin, 1992


Comments


bottom of page