Flak er listhneigt samkomuhús og sjávarfangssjoppa sem var opnað í byrjun sumars á Patreksfirði. Staðurinn er staðsettur í gömlum beitningarskúrum við höfnina á Patreksfirði, í sama húsnæði og menningarmiðstöðin Húsið-Creative Space var til húsa, áður en sú starfsemi breyttist og flutti sig um set. Á Flak eru ýmsir viðburðir og þar er einnig sýningarrými sem býður upp á ýmsa möguleika. Blaðamaður ÚR VÖR settist niður með Guðný Gígju Skjaldardóttur og Einari Óskar Sigurðsson nýlega og spurði þau spjörunum úr um staðinn.
Þau Gígja, eins og hún er gjarnan kölluð, og Einar höfðu ákveðið að flytja á Patreksfjörð, á æskuslóðir Gígju, en þeim vantaði vinnu. „ Hugmyndin að Flak kviknaði í raun þegar Julie og Aron ákváðu að breyta um áherslur með Húsið-Creative Space og flytja sig um set með þá starfsemi.
„Okkur fannst líka bara vanta bar í bæinn og þetta rými er svo skemmtilegt og býður upp á margt. Þetta er fallegt hús við höfnina sem er í raun hjarta bæjarins og þetta hús er afar sjarmerandi.
„Svo fannst okkur líka frábært það sem Julie og Aron voru búin að vera að gera með Húsið hér í þessu húsnæði og okkur langar að halda í það, auk þess að hafa þetta stað þar sem þú getur keypt þér að drekka og borða.“ segja þau Gígja og Einar, en auk þess að vera bar, þá er mögulegt að fá sér ljúffenga sjávarréttasúpu, sem margir telja að sé sú besta á landinu, þar með talinn undirritaður.
Einar segir að þau hafi viljað fá fólk til að hittast og gera umgjörð í kringum það, reyna að ná til sem flestra með ólíkum viðburðum. „Við höfum haft prjóna happy hour, Ukulele námskeið og súpufundi sem voru á tveggja vikna fresti í sumar og það tókst mjög vel. Ég held að fólk hafi verið mjög ánægt með súpufundina, en fyrirkomulagið var þannig að þetta voru fyrirlestrar í hádeginu þar sem fólki gefst kostur á að kaupa sér súpu og hlusta á erindi. Það er svo margt fólk hér á slóðum sem hefur margt að segja og það er mjög gaman ef fólk vill koma og upplýsa fólk um hvað það er að gera, ásamt því bara að hittast og kynnast.“ segir Einar.
Talið víkur að óumflýjanlegum umræðuefni, heimsfaraldrinum, en Flak opnaði í miðju kafi hans. Þau Gígja og Einar segja að forsendurnar hafi óneitanlega breyst mikið með faraldrinum, en að það hafi líka svolítið gott fylgt því. Aðstæður leyfðu þeim að vinna að undirbúning opnunarinnar í nokkra mánuði og svo gafst þeim rými til að endurskoða dagskrána og bæta við fleiri viðburðum með áherslu á að stíla inn á fólk á svæðinu.
„Það hefur gengið vonum framar og það kom skemmtilega á óvart hvað mikið af íslenskum ferðamönnum hafa komið mikið hingað vestur í sumar. „Það er greinilegt að margir hafi átt sunnanverða Vestfirði eftir og það er bara vonandi að fólk haldi áfram að koma hingað. Fólk virðist líka hafa verið meðvitað um að styðja við ferðaþjónustuaðila og svo er mikið af ungu fólki sem er að sjá landið sitt í fyrsta sinn, sem er gaman að verða vitni að.“ segir Gígja.
Líkt og áður kom fram er Gígja fædd og uppalin á Patreksfirði. Hún segir að það hafi ekki beint verið inni í myndinni að flytja aftur vestur fyrr en Einar fór að pota þeirri hugmynd að henni. „Mér finnst æðislegt að vera flutt aftur hingað, en ég var aldrei með í huganum að ég myndi koma aftur heim, þó það sé svo sem engin sérstök ástæða fyrir því. Ég sá það bara aldrei fyrir mér. En Einar byrjaði að troða þessari hugmynd í hausinn á mér og fyrst var ég bara “nei það er ekki að fara að gerast” en núna er ég í skýjunum með þetta.
„Það hægir á öllu, þegar maður er kominn með börn, þá breytast hlutirnir og það er mjög rómantísk hugmynd að vera bara hér. Ég er ekki að segja að það sé allt ömurlegt í bænum og frábært hér, það eru bara ýmsir kostir hér núna sem eru meira álitlegir en áður.“ segir Gígja með glampa í augum og Einar bætir við að það sé frábært að prófa að flytja úr borginni og reyna að koma auga á eitthvað af þeim fjölmörgu tækifærum sem eru í öllum þorpum landsins.
Aðspurður segir Einar það skipta miklu máli fyrir samfélagið á svæðinu á hafa svona stað. „Það er mikilvægt að ólíkir hópar gesti hist á sama staðnum og svo er þetta mikilvægt líka fyrir menningarlífið. Að hafa stað þar sem hægt er að halda tónleika, litlar veislur, eða sýningar. Svo er þetta líka fjölnota rými sem hægt er að nota undir kennslu eða partý. Við erum að reyna að mæta þörf sem margir hafa og um leið gera eitthvað sem okkur finnst skemmtilegt. Við erum líka afar þakklát fyrir þann stuðning sem við höfum fengið, fólk virðist vera tilbúið að styðja vel við menningu á svæðinu. Bærinn verður líka eftirsóknarverðari áfangastaður fyrir vikið, ef eitthvað er að gerast hérna.“ segir Einar.
Flak er líka fiskbúð og gerðu þau Gígja og Einar tilraun með þá starfsemi í sumar sem gekk nokkuð vel að þeirra sögn. „Við ætlum að reyna að hafa opið á föstudögum og laugardögum í vetur svo fólk geti náð sér í glænýjan fisk. Það eru vissulega margir með tengingu hér í bæ og geta útvegað sér fisk, en samt ekki allir. Það er líka geggjað að fara á barinn og fá sér bjór og farið heim með ýsuflak.“ segir Einar.
Á Flak var boðið upp á sérbruggaðan bjór framan af sumri sem bar nafnið Bali og var skírskotun í beitningarskúrana sem voru eina tíð í sömu byggingu. Bjórinn féll svo vel í kramið að sumarbirgðirnar kláruðust á þremur vikum. Nafnið Bali kom eftir nafnasamkeppni sem efnt var til á Facebook, og komu þar inn fullt af tillögum frá bæjarbúum sem voru greinilega þyrstir í að fá bar í bæinn.
„Við erum gríðarlega stolt af viðmótinu og viðtökunum frá Patreksfirðingum frá fyrsta degi og erum virkilega þakklát fyrir mætinguna í sumar. Við ætlum að halda ótrauð áfram og vonum bara að allir hafi skemmt sér jafn vel og við hingað til.“ segja þau að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Yorumlar