top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Byrjuðu uppáklæddar með bylgjur í hárinu

Updated: Jun 3, 2019

Fjarðadætur eru ofarlega á lista yfir þá listamenn sem Austfirðingar eru hvað stoltastir af, enda um stórglæsilegar söngkonur að ræða. Stúlknasöngsveitina skipa Jóhanna Seljan, Hjördís Helga Seljan, Þórunn Hyrna Víkingsdóttir, Rebekka Rán Egilsdóttir, Bryndís Guðmundsdóttir og Berglind Ósk Guðgeirsdóttir, og var hún stofnuð var árið 2011 í tengslum við hátíðarhöld á Hernámsdeginum á Reyðarfirði.

Fyrsta framkoman var á Stríðsminjasafninu á Reyðarfirði þar sem þær sungu stríðsáralög uppáklæddar í kjóla í anda hernámsáranna, með bylgjur í hárinu og eldrauðan vararlit. Ári síðar komu þær aftur fram við sama tilefni og ákváðu í kjölfarið að kanna hvort það væri grundvöllur fyrir að starfa allan ársins hring. Nú átta árum síðar eru Fjarðadætur ennþá að og verkefnin verða sífellt fjölbreyttari og stærri í sniðum.
Fjarðadætur, hljómsveit, Austurland, Guðrún Lilja Magnúsdóttir, úr vör, vefrit
Í fyrstu framkomu sinni sungu Fjarðadætur stríðsáralög uppáklæddar í kjóla í anda hernámsáranna, með bylgjur í hárinu og eldrauðan vararlit. Ljósmynd Fjarðadætur

Þær stöllur héldu glæsilega tónleika til heiðurs Arethu Franklin nú á dögunum, Aretha Franklin og af því tilefni tók ég Jóhönnu Seljan listræna stjórnenda hópsins tali.


„Til að byrja með vorum við mikið að koma fram í afmælum, brúðkaupum, jarðarförum, á kvennakvöldum, kostningaskrifstofum, jólaskemmtunum og við hin ýmsu tækifæri. Við sungum t.d. fyrir þáverandi forseta okkar, Ólaf Ragnar Grímsson, og konu hans Dorrit eitt árið. Það var mjög skemmilegt og okkur mikill heiður.“


„Jólin 2016 bauðst okkur að halda nokkuð stóra jólatónleika í samstarfi við Tónlistarmiðstöðina á Eskifirði og þá má segja að boltinn hafi farið að rúlla. Á síðustu þremur árum höfum við haldið tvenna stóra jólatónleika og síðustu jól fórum við í tónleikaferðalag með Heru Björk um austurland og í Mývatnssveit. Við höfum einnig haldið sumartónleika tvö ár í röð og farið í tónleikaferðalag um Færeyjar.

„Við byrjuðum ferilinn sem acapella hópur en höfum seinni ár verið að koma fram með alls kyns tónlistarmönnum, þar á meðal Helga Georgssyni, Þórði Sigurðarsyni, Hafþóri Vali Guðjónssyni, The Borrowed Brass Blues Band, KórRey undir stjórn Gillian Haworth, og hljómveitinni Buff.“
Fjarðadætur, Austurland, landsbyggðin, tónlist, úr vör, vefrit
Fjarðadætur hafa haldið sumartónleika tvö ár í röð og farið í tónleikaferðalag um Færeyjar. Ljósmynd Fjarðadætur

„Okkar nýjasta verkefni er það langstærsta hingað til; Aretha Franklin heiðurstónleikar þar sem hljómsveitin Buff lék undir. Tónleikarnir fóru fram í Tónlistarmiðstöðinni þann 29.maí síðastliðinn. Við fórum yfir feril þessarar stórkostlegu söngkonu og vorum með fróðleiksmola um hana á milli laga. Það væri jafnvel nær lagi að kalla þetta sýningu en tónleikarnir þróuðust þannig smátt og smátt. Búningarnir eru ábyggilega hátt í 40 talsins og mikið lagt í raddútsetningar og spor. Það eru ekki margir sem gera sér grein fyrir hversu ótrúlega litrík ævi Aretha Franklin var og hversu mikið af tónlist hún gaf út.“

„Við erum fimm starfandi eins og er og ein til viðbótar í barneignarleyfi. Við höfum mest verið átta og minnst fjórar. Það má segja að það sé mikil frjósemi í Fjarðadætrum en við höfum eignast alls níu börn á þessum átta árum.

Við komum héðan og þaðan, að austan, norðan, úr Kópavogi og Hafnarfirði. Við erum í grunninn ósköp venjulegar konur á aldrinum 30-40 ára sem hafa brennandi áhuga á tónlist og því að vera hluti af þessum hópi.“

Fjarðadætur, tónlist, Austurland, úr vör, vefrit
Hljómsveitin Fjarðadætur var stofnuð árið 2011. Ljósmynd Fjarðadætur

„Stundum æfum við vikulega, stundum líður lengri tími á milli. En við erum orðnar svo vanar að syngja saman að við erum yfirleitt mjög fljótar að taka upp þráðinn. Við erum t.d. löngu hættar að kippa okkur upp við að vera beðnar um að koma fram með afar stuttum fyrirvara eða þá að útsetja og læra yfir 20 ný lög á skömmum tíma.

Við höfum fengið allskonar skemmtilegar óskir í gegnum tíðina, hluti á borð við að syngja brúðkaupsmarsinn í kirkju án undirleiks, setja saman og flytja „karlasyrpu“ með rokklögum og syngja draugaleg lög á Dögum Myrkurs í Fjarðabyggð.“
Fjarðadætur, Austurland, tónlist, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Á tónleikum til heiðurs Arethu Franklin á dögunum. Ljósmynd Fjarðadætur

„Okkur dreymir um að geta sýnt Aretha sýninguna okkar á fleiri stöðum og erum að vinna að því núna hörðum höndum að láta þann draum rætast. En svona sýningu fylgir gríðarlegur kostnaður sem setur okkur stólinn fyrir dyrnar.

En sem betur fer er ég gríðarlega fífldjörf og hvatvís kona og læt fátt stoppa mig. Verkefni sumarsins verður að finna tónleikastað fyrir okkur og leiðir til fjármögnunar svo hægt verði að setja verkið upp aftur í haust.“

Comments


bottom of page