top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Er ekki drama lífsins nógu átakanlegt?“


Erlingur Ebenser Halldórsson, Vestfirskir listamenn, list, menning, þýðingar, leikrit, Vestfirðir, landsbyggðin, Elfar Logi Hannesson, úr vör, vefrit
Erlingur Ebenser Halldórsson. Ljósmynd aðsend.

Vestfirskir listamenn

Erlingur Ebenser Halldórsson

F. 26. mars 1930 á Arngerðareyri. D. 10. október 2011.

Öndvegisverk: Reiknivélin, 1963, Hákarlasól, 1975, Gleðileikurinn guðdómlegi (þýðing), 2010.

Veröldin er ekki einsog hún er. Svo sagði svo réttilega persónan Lilli í leikriti hins vestfirska leikhúslistamanns og þýðanda Erlings E. Halldórssonar. Listamaðurinn átti sannlega þátt í að opna huga okkar njótenda listarinnar og hræra soldið uppí kollinum okkar.

Það er einmitt þá sem listin verður hvað mest spennandi, þegar maður upplifir eitthvað alveg nýtt og maður þarf ekkert endilega að skilja það allt, heldur leyfa listaverkinu að fara með okkur í ferðalög um ókunnar veraldir.


Fæddur á Arngerðareyri við Djúp og listin klárlega í fjölskyldunni því eldri bróðir hans er stórleikarinn Baldvin Halldórsson. Áttu þeir bræður eftir að starfa saman einkum við útvarpsleiki. Hugurinn stemdi snemma til sköpunnar. Erlingur stúderaði forspjallsvísindi við Háskóla Íslands og síðan norrænu. Á árunum 1952 - 1959 nam hann leiklistarfærði fyrst við Sorbonne í París og síðar við háskólann í Vínarborg. Árið 1963 nam Erlingur við leikhúsið sem Bertolt Brecht og kona hans Helene Weigel stofnuðu, Berliner Ensemble í Berlín og fimm árum síðar við leikhús hins franska leikhúslistamanns Roger Planchon. Sá var einnig Brechtsinni auk þess að vera undir áhrifum frá Artaud og Jean Vilar.


Allt mótaði þetta og hafði áhrif á hinn unga listamann frá Arngerðareyri Erling E. Halldórsson. Hann þýddí m.a. hin svonefndu kennsluleikrit Brechts, Undantekninginn og reglan, Úrræðið, Hinn jákvæði og Hinn neikvæði og Sjö dauðasyndir smáborgarans. Nemendaleikhúsið, hins forna Leiklistarskóla Íslands, setti tvo fyrstu leikina upp árið 1977 í þýðingu Erlings. Þetta eru alls ekki einu þýðingarverk hans þau áttu eftir að verða mörg til. Má þar nefna leiki svissneska skáldsins Friedrich Dürrenmatt, Tvífarinn og Vélarbilun sem bæði voru flutt í Útvarpsleikhúsinu í þýðingu Erlings. Fleiri voru þeir útvarpsleikirinir er hann snaraði yfir á hið ilhýra. Af þeim má nefna, Kveðjustund, eftir Tennesse Williams er Baldvin bróðir hans leikstýrði.

Erlingur Ebenser Halldórsson, Vestfirskir listamenn, list, menning, þýðingar, leikrit, Vestfirðir, landsbyggðin, Elfar Logi Hannesson, úr vör, vefrit
Erlingur Ebenser Halldórsson með fyrrverandi forseta Íslands, Ólafi Ragnari Grímssyni, er hann fékk íslensku þýðingarverðlanin. Ljósmynd aðsend.

Eigi er allt upp talið á þýðandaferli Erlings, sem væri svosem nægt æviverkið, en hann átti og eftir að þýða ófá skáldverkin einkum frá fornöld og síðmiðöldum. Úr þeim ranni má nefna Satýrikon eftir Gajus Petróníus og Kantaraborgarsögur Chauccer. Hann fékk heiðursverðlaun frönsku akademíunnar fyrir þýðingu sína á Gargantúa og Pantagrúl eftir Francois Rebelais og hin íslensku þýðingarverðlaun fyrir snörun sína á Gleðileiknum guðdómlega eftir Dante Alighieri.

Er ekki drama lífsins nógu átakanlegt? Enn er vitnað í orð persónu úr leikverki Erlings E. Halldórssonar. Reyndar sama verki og áður, Reiknivélin, er sýnt var hjá hinum sögufræga leikhópi Grímu.

Víst var verkið tilraunakennt einsog mörg verka leikskáldsins. Eitt blaðana ritaði um verkið og sagði þar m.a. „er nútímaleikur í einum þætti. Fjallar það um ákveðið ástand, sem höfundur táknar með ljósakrónu, sem hangir yfir sviðinu.“ Þess má geta að eiginleg frumsýning var ekki fyrr en á þriðju sýningu leiksins, litið var á hinar tvær sem áframhaldandi þróun og tilraunir leikhópsins með verkið en samt sýnt fyrir opnum tjöldum.

Leikskáldið var enn á nýjum og framandi slóðum í verkinu Hákarlasól. Nafn leiksins er sótt vestur í heimahagana því hákarlasjómenn vestra nefndu það hákarlasól þegar þeir veiddu dýrið á nóttunni við tunglsljós. Verkið gjörist einmitt í rökkri. Hvar þrír karlmenn glíma við dularfullan kassa. Segja má að verkið sé af trúðaætt því persónur leiksins breystast smátt og smátt í trúða eftir því sem á verkið líður. Það fór hinsvegar svo að þó glímt væri við kassa þá varð uppfærslan ekkert kassastykki, einsog stundum er nefnt um leiki er vel ganga í leikhúsinu.

Erlingur Ebenser Halldórsson, Vestfirskir listamenn, list, menning, þýðingar, leikrit, Gleðileikurinn Guðdómlegi, Vestfirðir, landsbyggðin, Elfar Logi Hannesson, úr vör, vefrit
Erlingur Ebenser Halldórsson fékk verðlaun fyrir að þýða „Gleðileikurinn Guðdómlegi“

Sýningar urðu aðeins sex og á einni sýningunni voru áhorfendur jafnmargir trúðunum þremur. Svona er það oft með verk sem hræra í þínu höfði, annaðhvort ná þau til þín eða ekki. Svo var og reyndin með gagnrýnendur. Einn gaggaði m.a. „Að mínu viti gefst ekki kostur á betra leikhúsi í Reykjavík um þessar mundir“ meðan annar gaggaði „Kannski eru svona leiksýningar einungis skrifaðar handa hákörlum.“


Marga fleiri leiki ritaði Erlingur sem hafa verið sýndir víða eða allt frá senu Leikfélags Reykjavíkur til skólasenu Menntaskólans á Ísafirði. Svo hafa verk hans bæði verið sýnd í sjónvarpi og flutt í útvarpi.

Skylt er að geta þess að leikverk Erlings henta einnig mjög vel til lesturs enda skáldið listamaður orðsins. Má þar benda á leikinn Marflóin, þar sem segir af hinni ungu Trínu sem talar m.a. um það að fara „ustur“ á vitanlega að vera austur og svo segir hún líka „ákvurju?“.

Erlingur gerði meira, því hann var mikilhæfur leikstjóri og fór um land allt í því þarfaverki leikhússins. Hann leikstýrði mörgum verka sinna sjálfur má þar nefna áðurnefnda leiki, Reiknivélin og Hákarlasól. Erlingur var sérlega ötull að leikstýra á landsbyggðinni og þá ekki síst vestra. Setti stórverk á borð við, Mýs og menn, upp á Bíldudal og á Flateyri, Biedermann og brennuvargana. Víst hefur það skipt sköpum fyrir leikfólkið að hafa stjóra einsog Erling til að opna hugann fyrir leikhúsveröldinni.


Heimildir fengnar víða að m.a.: Alþýðublaðið 26. mars 1964, Vísir 12. nóvember 1975, Alþýðublaðið 28. nóvember 1975, Morgunblaðið 7. maí 1992, DV 25. mars 2000, Morgunblaðið 12. október 2011.

Einnig samtöl við Jón Viðar Jónsson og Sigurð Skúlason um listamanninn Erling E. Halldórsson.


Comments


bottom of page