top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Eigi upptekin af eigin ágæti“

Updated: Jul 22, 2021


Vestfirskir listamenn, Sigríður Kristín Jónsdóttir, Þingeyri, Elfar Logi Hannesson, Dýrafjörður, list, menning, listmálun, Vestfirðir, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Málverk af Þingeyri. Mynd aðsend frá Elfari Loga Hannessyni.


Vestfirskir listamenn


Sigríður Kristín Jónsdóttir

F. 8. júlí 1855 á Vöðlum í Önundarfirði. D. 15. maí 1944 Gemlufall Dýrafirði.

Öndvegisverk: Til æskustöðvanna, 1881, Til unglingsstúlku, 1922, Vandi að rata, 1937

Listamenn eru stundum uppteknir af eigin ágæti og jafnvel er sagt að listamaðurinn hlusti aðeins þegar umræðuefnið er hann sjálfur. Víst er það mikil list að láta vita af sér og sinni list en svo er líka hægt að fara hina leiðina, láta verkin, listina sjálfa, tala fyrir listamanninn og bera hans orðspor.

Hina síðar nefndu leið fór svo sannlega vestfirska skáldkonan Sigríður Kristín Jónsdóttir. Hún er fædd á Vöðlum í Önundarfirði. Faðir hennar, Jón Sigurðsson, var mektar bóndi m.a. á Kirkjubóli í Korpudal. Hann var vel dugandi, hafði fallega rithönd og las dönsku sem var síður en svo algengt á þessum tíma meðal bændastéttarinnar. Tvíkvæntur var hann og var seinni kona hans, Ingibjörg Bjarnadóttir, móðir Sigríðar sem hér er um fjallað. Sjálf var hún frá Hvammi í Dýrafirði og einsog svo oft áður féllu öll vötn í þann góða fjörð áður en langt um leið. Kært var á millum þeirra mæðgna og orti dóttlan til hennar afburða einlægt og fallegt kvæði, Móðurminning. Tvíburar komu síðar í heiminn á Vöðlum en dóu í bernsku.


Þegar Sigríður var fjögurra ára flutti fjölskyldan að Hjarðardal ytri og þar andaðist faðir hennar einhverju síðar. Fór stúlkan í vist eftir það m.a. á Brekku á Ingjaldssandi hvar henni leið afskaplega vel.

En, já það er alltaf eitthvað en, eitthvað eitt sem angrar, þannig er nú maðurinn bara gerður. Aldrei alveg fullkomlega sáttur. Það sem angragði á Sandinum var einkum fámennið. Eðlilegt svosem að yngra fólkið sæki þangað sem fleira fólk er og vilji kynnast sem flestum á þessum mikilvæga tíma ævinnar.

Árið 1880 tók Sigríður stóra skrefið og flutti í næsta fjörð, í þorpið sem þar var að byggjast hratt upp, Þingeyri. Réð hún sig sem barnfóstru hjá F. R. Wendel verslunarstjóra þar í þorpi og hans fyrri konu Ingeborg. Löngu seinna þegar húsbóndi Wendel flutti frá Þingeyri orti Sigríður kveðjuljóð til hans. Var það flutt á kveðjusamsæti honum til heiðurs 3. maí 1905. Víst líkaði Sigríði vistin vel í Dýrafirði sem var hennar heimastaður eftir þetta þó dvalarstaðirnir yrðu víða um fjörðinn. Árið 1885 lærði hún til ljósmóður hjá Þorvaldi Jónssyni lækni á Ísafirði. Sama ár hóf hún starf sem ljósmóðir í Dýrafirði sem hún gengdi allt til ársins 1908.


Þann 15. október 1886 gekk hún upp að altarinu með Ólafi Guðmundssyni. Tóku þau við búi á Hólum og stýrðu því til 1910. Fjögur fæddust börnin tvö af hvoru kyni. Flutti fjölskyldan nú á Þingeyri. En þegar annar sonur þeirra, Jón, gifti sig kaupir hann jörðina Minni-Garð í Mýrahreppi og foreldrar hans fluttu með hinum nýgiftu. Þegar sonurinn flytur að Gemlufelli gjöra foreldrar hans það einnig og þar andast faðirinn Ólafur árið 1928. Hafði hann lengi átt við heilsuleysi að stríða.

Vöðlum í Önundarfirði, Önundarfjörður, Vestfirðir, landsbyggðin, Mats Vibe Lund, Vestfirskir listamenn, list, menning, listmálun, Elfar Logi Hannesson, úr vör, vefrit
Frá Vöðlum í Önundarfirði. Ljósmynd Mats Vibe Lund

Tíu árum síðar eða árið 1938 hefur Sigríður safnað úrvali ljóða sinna saman og gefið út á bók, á eigin kostnað. Gaf hún því heitið, Nokkur ljóðmæli, og víst voru ljóðin nokkuð fleiri en nokkur eða um 140 talsins. Fjölbreytt eru þau þó mest fari fyrir erfi, afmælis- og brúðkaupskvæðum. Það er vel við hæfi að fyrsta ljóð bókarinnar er erfi um hennar kæra föður og við taka svo fjölmörg erfiljóð. Mörg þeirra samdi hún að beiðni annarra t.d. fyrir fimleikeikafélag Höfrungs á Þingeyri til minningar um þeirra félaga Leó Garðar Böðvarsson.


Brúðkaupskvæðin eru fjölbreytt bæði til nýgiftra sem og silfur-og gullbrúðkaupshjóna. Þegar mannamót eru setur Sigríður jafnan í kvæði í tilefni dagsins. Þann 12. september 1891 var 1000 ára byggð Dýrafjarðar fagnað og þá orti hún Minni kvenna, við eitthvert lag því það var sungið þennan dag. Hún orti líka til fæðingarfjarðarins má þar nefna, Velkomanda minni, sem var flutt á þorrablóti Kvenfélagsins Brynju á Flateyri 1920. Félögin voru fjölmörg í báðum fjörðum og kölluðu á enn fleiri félagakvæði. Eitt orti hún, Til ungmennafélags Mýrahrepps, og svo strax annað til þess mæta félags árið eftir, 1929. Kvenfélagið Hugrún í Haukadal var henni greinilega mjög kært ef marka má ljóðverk hennar. Hún yrkir til félagsins á 20 ára afmæli þess, 1926, og svo enn fleiri næstu árin.

Talandi um afmæliskvæði þá eru þau fjömörg bæði til félaga, einstaklinga og stofnana. Já, stofnana, því hún yrkir til Núpsskóla á 30 ára afmæli þeirra merku stofnunnar sem sárt er saknað af mörgum Vestfirðingum sem og líklega landsmönnum öllum.

Fjölmargar lausavísur orti Sigríður og margar æri smellnar og hafa lifað einsog þessi hér:


Ef að glasið illa er fægt

í sem geymist sálin þín.

Máðu af rykið hægt og hægt

svo hennar birta njóti sín.


Samtímamenn báru Sigríði ljósmóður og skáldkonu vel söguna. Sögðu hana trúrækna, staðfasta og afskaplega bókhneigða enda var hún fróðleiksfús. Einn bætti svo við að; Hamingjan hafi verið förunautur hennar.


Heimildir:

Sigríður Kristín Jónsdóttir. Nokkur ljóðmæli, 1938.

Mannlíf og saga 12 hefti, 2003, Vestfirska forlagið.

Morgunblaðið 11. júlí 1944.


Comments


bottom of page