top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Oft með meiri sviðsskrekk en listafólkið

Updated: May 22, 2019


Matthildur Helgadóttir Jónudóttir, Gústi Production, Ágúst Atlason, Edinborgarhúsið, Ísafjörður, úr vör, vefrit
Matthildur Helgadóttir Jónudóttir, rekstrar- og viðburðarstjóri Edinborgarhússins. Ljósmynd Ágúst Atlasson (Gúsi Production)

Menningarmiðstöðin Edinborg var upprunalega stofnuð árið 1992 og húsið var svo opnað eftir endurbyggingu með pompi og prakt árið 2007. Blaðamaður ÚR VÖR hafði samband við Matthildi Helgadóttir Jónudóttir, rekstrar- og viðburðarstjóra Edinborgarhússins, til að forvitnast um starfsemina þar og í hverju starf hennar felst.


Matthildur segir að hópur sem tengdur var Litla leikklúbbnum og myndlistarfélaginu hafi verið að leita að samastað, bæði fyrir myndlistarstarfsemi og leikhópinn á sínum tíma. Þau hafi svo fundið þetta hús og fengið hugmyndir varðandi það og þá hafi hafist uppbygging.

„Það verða úr þessu tvö félög, annarsvegar Edinborgarhúsið ehf. sem er það félag sem rekur húsið og sá á sínum tíma um að endurbyggja það og svo hinsvegar Menningarmiðstöðin Edinborg sem er non-profit félag sem stendur að menningarhlutanum, viðburðum og öðru. En svo eftir að enduruppbyggingu lauk þá hefur þetta verið að renna meira saman.“ segir Matthildur.

Að sögn Matthildar tók hið opinbera þátt í uppbyggingunni og var á þessum tíma að setja pening í félagsheimili út á landi. Hún segir að á Ísafirði hafi þessir peningar verið notaðir í að byggja upp þrjú hús með hjálp bæjaryfirvalda sem hafi komið með mótframlag. Húsið sem gerð voru upp á Ísafirði voru Gamla sjúkrahúsið, tónleikasalurinn sem er við tónlistarskólann og Edinborgarhúsið.

Edinborgarhúsið, Ísafjörður, menning, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Klárað var að endurbyggja Edinborgarhúsið árið 2007. Ljósmynd Edinborgarhúsið

Samkvæmt Matthildi hafði fólk á þeim tíma, bæði fólk frá Ísafjarðarbæ, viðsemjendur ríkisins og þeir sem ráku þetta hús, trúa á að það væri raunhæft að reka svona menningarhús ef rekstraraðilar fengju aðstoð við uppbygginguna húsnæðisins. „En það er ekki alveg hægt, það er veruleiki sem við erum að sjá í dag.

„Reksturinn er ansi þungur og við erum að leitast eftir að fá styrk frá hinu opinbera. Við sækjum um í Uppbyggingarsjóði Vestfjarða og erum þar með sett í þá stöðu að vera að berjast um peninga úr sjóði þar sem er ekkert alltof mikill peningur í. Og jafnvel í samkeppni við aðila sem væru hugsanlegir viðskiptavinir okkar, þ.e. aðilar sem gætu staðið fyrir viðburðum hér í húsinu.“ segir Matthildur.

Matthildur segir að Edinborgarhúsið sé menningarhús Vestfjarða líkt og segir í samningi sem sé til staðar. Í húsinu eiga föst aðsetur Listaskóli Rögnvaldar Ólafssonar, matssölustaður, upplýsingamiðstöð og ferðaskrifstofa. „Svo er ég með sali sem ég leigi út eftir hendinni fyrir allskonar viðburði.

Edinborgarhúsið, Ísafjörður, menning, landsbygðin, úr vör, vefrit
Hægt er að leigja út sali í Edinborgarhúsinu fyrir ýmsa viðburði. Ljósmynd Edinborgarhúsið

„Við stöndum fyrir tónleikum, leikhúsi, dansi og myndlistarviðburðum, þannig að það er mjög fjölbreytt starf sem fer fram í húsinu. Svo geta hér einnig verið fyrirlestrar, ráðstefnur og annað. Við reynum að höfða til mismunandi hópa og pössum upp á að ýmsir tónlistarflokkar eigi sinn sess hér, eins og djass og blús til dæmis.“ segir Matthildur.

Að sögn Matthildar er starfsemin ýmist þrælskipulögð með löngum fyrirvara eða að brugðist er fljótt við ef einhver leitar til þeirra með litlum fyrirvara og langar að gera eitthvað. Matthildur segir að lagður sé metnaður í þann hluta, því ungt fólk er oft bráðlátt að hennar sögn og fær hugmyndir fljótt og vill hún frekar ýta undir það en eitthvað annað, svo þetta verði ekki of formlegt og stofnanalegt líkt og hún orðar það.


„Ég byrjaði að vinna hér haustið 2014 og set eflaust mitt mark á þetta starf, þó svo ég sé kannski ekki rétta manneskjan til að meta það. Ég hef verið svolítið á eftir því að fá fínar græjur, ljósabúnað og hljóðkerfi og þannig hægt og rólega reynt að byggja upp betri aðstöðu. En það er líka áhersla lögð á að taka vel á móti þeim sem vilja koma hingað.

Edinborgarhúsið, tónleikar, menning, Ísafjörður, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Lögð er áhersla á tónlistarflokka eins og djass og blús að sögn Matthildar. Ljósmynd Edinborgarhúsið

„Það er bara hálf sagan að hafa húsið, það þarf að leysa ýmis mál og vera góður gestgjafi. Þetta starf er fjölbreytt og skemmtilegt en dagarnir geta verið langir. Ég er bæði húsvörður með skrúfjárnið og einnig rekstrarstjóri sem gerir ársskýrslurnar.“ segir Matthildur og hlær.

Það er augljóst að Matthildur lifir sig inn í starfið og leggur mikinn metnað í það. Hún segist oft hafa meiri sviðsskrekk en listafólkið sjálft og setjist stundum ekki niður fyrr en eftir hlé. Hún segir að hún geti ekki séð Ísafjörð fyrir sér án svona viðburða. „En það kann að vera að einhver sem aldrei mætir á neitt, hann sér það kannski alveg fyrir sér að hér sé ekkert á seyði og myndi ekki taka eftir því ef svo væri.

„Ég reyni að bjóða upp á listamenn sem ég veit að fólk langar að sjá. Eitthvað vinsælt í bland við eitthvað sem enginn þekkir og stundum þekkir enginn haus eða sporð á því fólki sem er að koma hingað og ég reyni að kynna það eins vel og ég get. Og það koma alltaf einhverjir, þetta gengur út á það.“ segir Matthildur.
Edinborgarhúsið, list, menning, Ísafjörður, úr vör, vefrit
Spenntir áhorfendur leikssýningar bíða eftir að komast inn í sal í Edinborgarhúsinu. Ljósmynd Edinborgarhúsið

Aðspurð segir hún að erfitt sé að velja einhvern eftirminnilegasta viðburð síðan hún hóf störf. Matthildur segir að hún sé þannig þenkjandi að síðasti viðburðurinn sé oft eftirminnilegastur. Það síðasta sem hún sá í húsinu var danssýning hjá listaskólanum og segir hún það hafa verið virkilega flotta sýningu.

„Það er gaman að sjá krakkana sem ég sé svo oft hér á göngunum, sem eru með óþekkt oft, breytast í þessa flottu listamenn þegar það eru komnir búningar, lýsing og sýning farin í gang. Þetta er ótrúlegur auður sem við höfum af þessari kennslu, það eru um hundrað nemendur sem eru hér að læra dans.

„Og svo var það Mugison sem var hér nýlega, hann slær mann alltaf útaf laginu og verður bara betri og betri. En það er erfitt að velja eitthvað eitt, þetta er eins og að gera upp á milli barna sinna, eins klisjukennt og það hljómar!“ segir Matthildur að lokum og aftur er stutt í hláturinn.

Mugison, Edinborgarhúsið, Ísafjörður, tónleikar, list, menning, úr vör, vefrit
Mugison hélt tónleika nýlega í Edinborgarhúsinu. Ljósmynd MugisonComments


bottom of page