top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Fjölbreytileikinn í fyrirrúmi

Updated: Sep 23, 2019


BRAS, Austurland, Barnamenningarhátíð, landsbyggðin, Karna Sigurðardóttir, Sebastian Ziegler, menning, hátíð, úr vör, vefrit
Karna Sigurðardóttir, einn af forsprökkum BRAS (fyrir miðju). Ljósmynd Sebastian Ziegler.

BRAS er menningarhátíð þar sem börnum og ungmennum er gefið tækifæri til að skapa og upplifa listir í víðasta samhengi. Hún var haldin í fyrsta skipti í september 2018 og var leikurinn endurtekinn þetta árið á sama tíma. Hátíðin stendur yfir í allan september mánuð og einnig fram í október mánuð og hægt er að sjá hina glæsilegu dagskrá á www.bras.is


Einkunnarorð hátíðarinnar eru Þora! Vera! Gera! enda er leiðarljós hátíðarinnar að hvetja börn á Austurlandi til að þora að vera þau sjálf og framkvæma á eigin forsendum.

Markmiðið er að búa til vettvang þar sem öll börn á Austurlandi geta unnið saman á jafningjagrundvelli óháð móðurmáli, tungumálakunnáttu og búsetu og unnið er þvert á þjóðerni, byggðakjarna og aldur.

Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í einum forsprakka hátíðarinnar, henni Körnu Sigurðardóttir sem sagði undirrituðum að það hafði verið mikill áhugi að taka barnamenningu með trukki og að bæði Fljótsdalshérað og Fjarðabyggð hafi verið með á dagskrá að halda barnamenningarhátíð.

„Þannig að okkur fannst upplagt að slá saman í eina stóra hátíð í staðinn fyrir að vera að vinna í sínu horni. Þannig hófst samtalið og það hefur verið uppsveifla í barnamenningu á síðustu árum, við gripum öll sama keflið og héldum hátíðina í fyrsta skiptið á síðasta ári.

„Það er svolítið snúið að samþætta þetta yfir svona stórt svæði og það eru margar stofnanir sem koma að þessu, en við náðum að keyra þetta af stað í fyrra.“ segir Karna.

BRAS, Austurland, barnamenningarhátíð, menning, hátíð, Ingvi Örn Þorsteinsson, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Það var margt brasað á BRAS í ár. Ljósmynd Ingvi Örn Þorsteinsson

Karna segir að um sé að ræða opna dagskrá fyrir fjölskyldur í frítíma og svo sé einnig unnið markvisst inn í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Um er að ræða vinnustofur, sýninar og fyrirlestra í allskonar formum. Að sögn Körnu er þetta góð blanda sem gengur út á að börn njóti saman og njóti líka með foreldrum sínum. „Það skiptir máli að allir upplifi og læri af þessu saman. Þetta gekk glettilega vel í fyrra, það voru auðvitað allir á hlaupum.

„Við fengum Svavar Pétur til að hanna grafíkina í kringum einkennisorðin okkar, sem eru þora, vera og gera og þetta sprakk í raun framan í fólk og fór af stað með krafti. Þannig að með hjálp þessa þá má segja að BRAS hafi verið komið til að vera frá fyrsta starfsári.“ segir Karna.
BRAS, Austurland, barnamenningarhátíð, menning, hátíð, landsbyggðin, Ingvi Örn Þorsteinsson, úr vör, vefrit
Glæsileg sirkusatriði voru sýnd á hátíðinni í ár. Ljósmynd Ingvi Örn Þorsteinsson

Eftir gott gengi á síðasta ári var því ákveðið að keyra af stað með aðra hátíð í ár að sögn Körnu. Hún segir að sumir þættir hafi stækkað milli ára, en bætir við að skipuleggjendur séu að fóta sig varðandi hvað hægt sé að gera innan þessa ramma sem þau hafi. „En það var gott að finna að í ár þurftum við ekki að útskýra fyrir fólki hvað BRAS er. Við sóttum í Barnamenningarsjóð Íslands sem var settur á laggirnar um áramótin og fengum styrk þaðan sem skipti okkur miklu máli. Við fórum í samstarf með List fyrir alla og náðum að gera stóra sirkuslistadagskrá sem studdi við þemað í ár sem var tjáning án tungumáls með fjölbreytileikann í fyrirrúmi.“ segir Karna.


Karna segir að Maxíkús Músíkús hafi verið fluttur á fjórum stöðum í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Austurlands og Norðurlands og bætir við að höfundur verksins hafi komið og verið með þeim. „Höfundurinn kom og stjórnaði hljómsveitinni og þetta var mjög töfrandi allt saman, það voru hátt í 500 manns sem sáu það verk eitt og sér. Þessi hátíð er í allan september, þetta er ekki hefbundin hátíð sem er bara í nokkra daga. Við getum ekki verið með svona hátíð í of stuttan tíma, því þá útilokum við það að fólk geti flakkað á milli og sótt viðburði á milli staða.

BRAS, Austurland, barnamenningarhátíð, landsbyggðin, menning, hátíð, Sebastian Ziegler, úr vör, vefrit
Maxikús Músíkús var sýnd fjórum sinnum á hátíðinni í ár við góðar undirtektir. Ljósmynd Sebastian Ziegler..

„Við hvetjum skólana og stofnanir að gera menningu barna og ungmenna hátt undir höfði á þessum tíma og auðvitað vonumst við til að það sé sterk barnamenningardagskrá utan þessa tíma, en þetta er falleg leið til að byrja veturinn með frumkraft að vopni og þannig setjum við tóninn fyrir veturinn!“ segir Karna full af ástríðu.

Að sögn Körnu er svona verkefni keyrt af stað af ástríðunni einni saman. Hún segir að það hafi verið sterkur hópur sem ætlaði sér að koma þessu á laggirnar í fyrra. Karna segir að það ségaman fyrir börnin að sjá þetta allt saman og átta sig á þeim fjölbreytileika sem er í boði í lífinu, kynnast listgreinum og átta sig á að það er þeim ekkert ómögulegt. „Það er líka mikilvægt að leggja áherslu á að þetta er hátíð barna og ungmenna, okkur er annt um að ungmennin séu með. Oft á barnamenningarhátíðum er viðmiðið yngri en 12 ára, en við getum ekki verið að leggja í svona bara fyrir þennan þrönga hóp. Þetta er mér hjartans mál að ekki sé talað um að þetta sé barnamenningarhátíð, heldur tölum við bara um þetta sem BRAS. Við sinnum börnum og unglingum alveg upp í framhaldsskólaaldur, við viljum ekki missa tengsl við þennan aldurshóp, þar er mikill kraftur og sköpunargleði“ segir Karna.

BRAS, Austurland, landsbyggðin, barnamenningarhátíð, menning, hátíð, Ingvi Örn Þorsteinsson, úr vör, vefrit
Börn vinna að stimplagerð á BRAS hátíðinni í ár. Ljósmynd Ingvi Örn Þorsteinsson

Karna segir að með tímanum sé hægt að sækja innblástur í hvort annað, bæði milli landshorna eða út fyrir landsteinana og segir hún að það sé mjög mikilvægt að gera það.

„Ef allir standa saman þá er hægt að innleiða nýja hluti. Fólk þarf bara að haldast í hendur, anda inn og út og vinna saman að þessu.“ segir Karna að lokum.


bottom of page