top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Við erum ekki að finna upp einhver hjól“

Updated: May 15, 2019


Ásgeir Heiðar Ásgeirsson, Bræðslan, Borgarfjörður Eystri, tónlistarhátíð, úr vör, vefrit
Áskell Heiðar Ásgeirsson, Bræðslustjóri. Ljósmynd Ásgeir Heiðar Ásgeirsson

Tónlistarhátíð Bræðslan verður haldin á Borgarfirði Eystra í sumar líkt og síðastliðin fjórtán sumur. Áskell Heiðar Ásgeirsson, Bræðslustjóri, segir að hátíðin hafi aðeins átt að vera ein kvöldstund fyrir fjórtán árum, en það heppnaðist svo vel að ákveðið var að gera þetta að árlegum viðburði.


Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Áskeli á dögunum og fékk að heyra um sögu hátíðarinnar og hvernig hún varð að veruleika. Líkt og áður sagði hófst þetta allt á einni kvöldstund árið 2005 þegar minnst var að 120 ár voru frá fæðingu Jóhannesar Kjarval, en hann ólst upp á Borgarfirði Eystri.

Ákveðið var að halda tónleika og var Emilíu Torrini fengin til að koma fram, en hún ólst að hluta til einnig upp á Borgarfirði Eystri. Emilía var til í að vera með, með einu skilyrði að sögn Áskels. Skilyrðið var að tónleikarnir yrðu á óvenjulegum stað.
Bræðslan, Borgarfjörður Eystri, tónlistarhátíð, úr vör, vefrit
Um eitt þúsund manns sækja hátíðina árlega og hafa miðar selst upp árlega síðan árið 2008. Ljósmynd Bræðslan

„Úr varð að við staðnæmdust við hús sem hafði verið notað í einhver þrjátíu ár sem geymsluhús og var þar áður síldarbræðsla. Við ruddum út þarna heilmiklu dóti sem hafði safnast saman á þrjátíu árum og breyttum þessu í tónleikahús. Svo víst að svona vel gekk þá var ekki aftur snúið og hefur þetta verið árlega síðan. En við höfum passað upp á að fjölga gestum ekki um of og að hafa þetta ekki of stórt og of mikið, en það hefur selst upp á allar hátíðir síðan árið 2008.“ segir Áskell.


Hátíðin er alltaf haldin um helgina fyrir Verslunarmannahelgina. Bræðslan sjálf opnar bara sínar dyr eitt kvöld, laugardagskvöldið, en svo hefur bæst við í kringum þetta hliðardagskrá sem fer fram í öðrum húsum þarna í kring að sögn Áskels, frá miðvikudagi til föstudagskvölds. Og bætir hann við að það hafi byggst upp heilmikil hefð fyrir tónleikahaldi allt sumarið einnig.

Between Mountains, Bræðslan, Borgarfjörður Eystri, tónlistarhátíð, úr vör, vefrit
Hljómsveitin Between Mountains kom fram á Bræðslunni árið 2018. Ljósmynd Bræðslan

Undirritaður hefur heyrt bæði frá þeim sem stigið hafa á svið, sem og þeim sem hafa verið viðstaddir hátíðina sem áhorfendur að mikill sjarmi ríki þar yfir vötnum og að óútskýranlegur og afar góður andi sé á staðnum þessa helgi. Áskell segir að náttúrufegurðin á svæðinu setji fallegan ramma í kringum hátíðina og bætir við að lykilatriði sé að tekist hafi að varðveita ákveðið óskrifað samkomulag sem komist hafi á strax frá upphafi.

„Menn koma þarna til að skemmta sér fallega og sýna heimafólki og staðnum virðingu og íbúar eru mjög þakklátir að fá þessa gesti og hafa gaman að þessu. Á meðan að sá galdur helst þá er lítið mál að halda sjálfa tónleikana. Það er mín trú að um leið og maður myndi tapa þessum tengingum og ætla að fara að búa til eitthvað svakalegt batterí þá myndi þetta fljótt fara út um þúfur.

„Þetta er fámennur og viðkvæmur staður og það þarf að passa þetta jafnvægi og pössum við okkur því á að fara ekki framúr sjálfum okkur.“ segir Áskell.

Bræðslan, Borgarfjörður Eystri, tónlistarhátíð, úr vör, vefrit
Áskell segir að náttúrufegurðin setji fallegan ramma um hátíðina. Ljósmynd Bræðslan

Áskell segist hafa gerst svo sjálfhverfur og skrifað mastersritgerðina sína um samfélagsleg áhrif hátíðarinnar á svæðið og eru þau mikil að hans sögn. Bæði hvað varðar félagsleg áhrif, að fólki líður vel að tengja sig við staðinn og að fólk skemmtir sér vel á hátíðinni og vinskapur skapast á milli gesta og heimamanna.

„Svo hefur þetta mikil efnahagsleg áhrif, því langstærsti hluti ferðaþjónustutímabilsins snýst um þessa helgi, þ.e. hjá þeim sem eru að selja veitingar og þess háttar. En svo eru hótel þarna sem eru í stærri rekstri auðvitað. En þessi vika, þegar koma yfir þrjúþúsund manns á stað þar sem búa hundrað manns, það er skiljanleg talsverð vigt í því.“ segir Áskell.
Bræðslan, Borgarfjörður Eystri, tónlistarhátíð, úr vör, vefrit
Fólk skemmtir sér fallega á hátíðinni ár hvert að sögn Áskels. Ljósmynd Bræðslan

Áskell var upphafsmaður að hátíðinni og fékk góða hjálp að hans sögn. Magni bróðir hans bættist svo við hópinn árið 2008 og hafa þeir tveir verið í forsvari fyrir hátíðina síðan. Samkvæmt Áskeli er þetta þó langt því frá að vera eins eða tveggja manna verkefni og segir hann að margir leggist á árarnar. „Við erum fæddir þarna og uppaldir og þetta er góð leið til að geta verið þarna í ákveðinn tíma og okkur finnst gaman að geta gert eitthvað og hjálpað til. En fyrst og fremst er þetta líka til að hitta fólkið og halda tengslum.“ segir Áskell.


Samkvæmt Áskeli búa þeir bræður vel að því að á Borgarfirði hafi kynslóðin á undan þeim verið dugleg að halda ýmiss konar viðburði, dansleiki, tónleika og uppákomur. Þeir voru því aldir upp við að það væri ekki mikið mál að henda upp einum tónleikum eða einu balli. Áskell segir að jarðvegurinn sem þeir komi úr sé mjög frjór hvað þetta varðar og þetta hafi því verið lítið mál. „Það voru engar hindranir sem einhver reyndi að setja upp, hvorki opinberir aðilar eða einkaaðilar. Við erum í rauninni bara að byggja ofan á það sem þeir á undan okkur komu voru að gera.

Agent Fresco, Bræðslan, Borgarfjörður Eystri, tónlistarhátíð, úr vör, vefrit
Hljómsveitin Agent Fresco á tónleikum sínum á Bræðslunni. Ljósmynd Bræðslan

„Við erum ekki að finna upp einhver hjól, þetta er bara birtingarmynd af einhverju sem fólk hefur gert þarna áratugum saman. Og eftir einhverja áratugi mun þetta heita eitthvað annað. Fólk hefur alltaf þessa þörf til að koma saman og skapa eitthvað. Einu sinni hét þetta dansleikur, núna heitir þetta tónleikar.“ segir Áskell að lokum.


Comments


bottom of page