top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Samtal í söguformi

Updated: Apr 1, 2019


Bakkastofa, Eyrarbakki, úr vör, vefrit
Ásta Kristrún, Valgeir og dóttir þeirra Vigdís Vala. Ljósmynd Bakkastofa.

Hjónin Ásta Kristrún Ragnarsdóttir og Valgeir Guðjónsson starfrækja skapandi menningarmiðstöð á Eyrarbakka sem ber nafnið Bakkastofa. Þar taka þau á móti hópum og sérhæfa sig í gamla tímanum. Blaðamaður ÚR VÖR sló á þráðinn austur fyrir fjall og heyrði í Ástu Kristrúnu sem fræddi hann um sögu og starfsemi Bakkastofu.


Ásta segir að þetta sé í raun framhaldssaga frá starfseminni sem þau hjón voru með í Reykjavík áður. Hún segir að það séu tíu ár síðan þau hafi hafist handa og opnað heimili sitt í Reykjavík fyrir erlendum gestum sem höfðu áhuga á að komast í nálægð við heimafólk.

Þau ákváðu svo síðar að flytja starfsemina frá höfuðborginni og fannst þeim liggjast beinast við að fara á Eyrarbakka því Ásta er þaðan frá 19. öldinni. Að auki segir hún að náttúran hafi laðað þau mikið þangað, en bæði ólust þau upp við nálægð við náttúruna í barnæsku.

Að sögn Ástu þurfi þau að átta sig á hvaða boðskap þau hafi og til hverra hann höfðar mest. Að þeirra mati á þetta best við fólk sem er ekki yngra en 35 ára en segir að stundum læðist inn vinnuhópar með yngra fólki og þeim finnist þetta spennandi, að horfa til fortíðar og þess tíma sem þau viti ekki mikið um í raun og veru.

„Við erum svo mikið að fjara út sagnfræðilega séð og fjarlægjast framlag fólksins sem byggði þetta land og gerði Ísland að byggðu bóli. Fólkið sem gerði það að veruleika að búa hér á hjara veraldar og við viljum beina ljósinu að því og þeirra veruleika og lífsskilyrðum.“
Bakkastofa, Eyrarbakki, úr vör, vefrit.
Skemmtilegt samtal gesta og gestgjafa myndast í Bakkastofu. Ljósmynd Bakkastofa.

„Þetta er ekki fyrirlestur heldur segjum við sögur, ég ólst upp með sagnalindina við hliðina á mér og mér er það eðlislægt að segja frá og að gera lítið leikrit úr hverri sögu. Það er okkar nálgun og svo leitum við yfirleitt eftir einhverri samsvörun hjá gestunum því þetta er jú samtal í söguformi.“ segir Ásta.


Ásta sérhæfir sig í 18. og 19. öldinni og hefur það hlutverk að vera gestgjafinn og sögukonan á meðan Valgeir einbeitir sér að víkinga- og landnámsöldinni og sé tón-, textasmiður og flytjandi. Börn þeirra hjóna standa að baki Bakkastofu, þótt þau séu ýmist í námi eða að sinna öðrum verkefnum. Dóttir þeirra er tónskáld, textasmiður og söngkona og er í doktorsnámi í taugavísindum og yngri sonur þeirra er liðtækur varðandi auglýsingar í ýmsum miðlum, þannig að þetta er í raun fjölskyldufélag.

„Við keyptum Gamla Kaupfélagshúsið sem stendur við aðalgötuna og er eitt fyrsta steinsteypta húsið hér á Suðurlandi. Á jarðhæðinni er svokallaður sófatónleikasalur þar sem gamla verslunin var. Miðhæðin er svo einskonar safn, gamlir munir frá Eyrarbakkatímanum, en einnig frá móðurfólki mínu skútuskiptstjórum úr Reykjavík. Rishæðin er heimilið okkar og okkar bækistöð. Þótt Bakkastofa sé bæði safn og tónleikastofa eru gestir samt að koma inn á heimilið okkar líka.“ segir Ásta.
Bakkastofa, Ásta Kristrún, Eyrarbakki, úr vör, vefrit
Það er Ástu Kristrúnu eðlislægt að segja frá. Ljósmynd Bakkastofa.

Samkvæmt Ástu var það markmið þeirra hjóna þegar þau fluttu austur að ná inn erlendu ferðafólki því þeim fannst ástæða að þessi saga og menning ætti að ná til þessa fólks. En hún segir að erfitt hafi reynst að stíga inn á þennan markað þar sem ferðaþjónustaðilar beina fólki frekar í ýmsar fjalla- og vélsleðaferðir. „En við höfum fengið mjög falleg viðbrögð frá Íslendingum eftir að við komum hingað. Þeir hafa komið hingað í stórum sem smáum hópum, félagasamtök, vinnustaðir og fjölskyldur.

„Ég geri alltaf ákveðna þarfagreiningu, fyrir komu komu hópa og spyr um væntingar og hvernig dagskipan hópsins er. Hvort  hópurinn komi sérstaklega í Bakkastofu eða kom sem hluta af lengri ferð sem ræður til um hvað fólk vill staldra lengi við. Hve stór hluti dagskrárinnar það kjósi að haf sem tónlist í bland við örsögur og samtöl. Ég sendi skipuleggjendum sérsmíðaðar dagskrár og þá veit fólk við hverju á að búast.“ segir Ásta.

Ásta segir að uppskrift að fullkomnum viðburði felist í að þegar upp er staðið sé óljóst hver hefði skemmt hverjum, gestirnir okkur eða við þeim. Hún segir að þetta snúist um mikla gagnkvæmi og ánægjulegt að mæta fólki á þessum forsendum. Aftur á móti er töluverð vinna fólgin í undirbúningi og í að stilla upp aðstæðum miðað við væntingar og sérsniðnu dagskrárnar og bætir hlæjandi við að hún sé í ákveðnu húsfreyjuhlutverki á meðan Valgeir fái að vera hinn þekkti listamaður.

Bakkastofa, Valgeir Guðjónsson, Eyrarbakki, úr vör, vefrit
Valgeir stillir strengi sína. Ljósmynd Bakkastofa.


Í Bakkastofu hafa verið haldnir tónleikar sem kallast Fuglatónleikar síðastliðin fimm ár um páskana. Yfirskriftin í ár er: „Eru fuglar líka fólk“. Valgeir hefur samið lög við texta eftir Jóhannes úr Kötlum. Að sögn Ástu hafði skáldið ótrúlegt næmi fyrir tilfinningum og því mannlega og yfirfærði það yfir á fugla eða dýr.„Þannig að þegar þú lest kvæði Jóhannesar finnurðu samsvörun með dýrunum og það er hollt bæði út frá þroska- og náttúruvitund.

Í framhaldinu eftir páska ætlum við að höfða til vorferða skólahópa og fá þá til okkar austur fyrir fjall. En efnið er auðvitað líka fyrir allan aldur og eldra fólk er næmt fyrir boðskpanum, því tvisvar verður gamall maður barn eins og orðtakið segir. Við mannfólkið förum jú  þennan fallega ævihring og þegar aldurinn færist yfir setjumst við að arni bernskunnar.“ segir Ásta.

Blaðamaður spyr Ástu að eftirminnilegu atviki í rekstri þeirra hjóna og þarf ekki að bíða lengi eftir svari. „Það var eftir að við komum á Eyrarbakka og héldum fyrstu dagskrána okkar. Við fengum húsnæðið afhent í febrúar og nokkrum dögum síðar kom fyrsti hópurinn til okkar. Hópurinn ætlaði að koma til okkar um kvöldmatarleytið en það var mikil frostaharka, snjókoma og rok og vegna kuldans hröktust þau á Eyrarbakka þremur tímum fyrir áætlun.

Bakkastofa, Eyrarbakki, úr vör, vefrit
Margir hópar sækja Bakkastofu aftur og aftur heim. Ljósmynd Bakkastofa.

„Þegar þau bar að garði vorum við enn að pakka upp úr kössum, með tuskur á lofti og að setja mat í potta! Þetta voru ljósmyndarar og fyrr en varði voru þeir komnir að mynda ofan í pottana hjá okkur alsæl fyrir að fá að vera með í eins konar raunveruleikaþætti. Þannig að það má segja að fall hafi verið fararheill!“ segir Ásta að lokum.


bottom of page