top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Áttræðar konur dönsuðu við Kaleo

Updated: Mar 26, 2019


Kári Viðarsson, Frystiklefinn á Rifi, Snæfellsnes, úr vör, vefrit
Kári Viðarsson, stofnandi Frystiklefans á Rifi. Ljósmynd Rose Bruford College.

Í Frystiklefanum á Rifi hefur verið starfrækt menningarstarf síðan árið 2010. Fyrstu fjögur árin var þar atvinnuleikhús og eftir það bættist ýmislegt við starfsemina, líkt og hostel, menningarmiðstöð og listamannaaðsetur. Blaðamaður ÚR VÖR svalaði forvitni sinni og sló á þráðinn til Kára Viðarssonar, stofnandi Frystiklefans, til að heyra meira um þennan spennandi stað.


Kári útskrifaðist sem leikari árið 2010 frá leiklistarskóla í London. Fljótlega eftir það kom hann aftur á heimaslóðir á Hellisand og Rif og setti upp leiksýningu í rými sem hann leigði út. Rýmið sem um ræðir er frystiklefi í gamalli fiskvinnslu sem hafði að mestu staðið auð í langan tíma, fyrir utan að hýsa nokkra vélsleða. Sýningin sem Kári setti upp gekk mjög vel og segist hann hafa fundið að það væri grundvöllur fyrir að setja upp atvinnuleikhús á þessu svæði.

Kári er frá Hellisandi og segir hann að Hellisandur og Rif sé í raun sami hluturinn.


„Ég ólst upp hérna upp í báðum þessum plássum, besti vinur minn bjó hér rétt fyrir ofan og ég vann í fiski í þessu húsi þar sem Frystiklefinn er, sem unglingur.

Ég er með djúpar rætur hér og sterkar taugar til svæðisins. Var alinn upp af foreldrum og afa og ömmu sem kenndu mér að meta það að það væri ekki sjálfgefið að vera hér sem barn og læra að gefa tilbaka. Það var þessi pæling sem var ríkjandi hjá mér þegar ég fór af stað með þetta og það er þannig ennþá.“ segir Kári.

Starfsemin þróaðist svo út í allar áttir að sögn Kára. Haldnir voru tónleikar í Frystiklefanum og það kom í ljós að þetta er svakalega flottur staður til þess. Það kom að því að Kári varð nánast tilneyddur til að kaupa húsnæðið en eigendurnir sem hann hafði leigt af vildu selja húsið. Kári segir að þá hafi hann þurft að fá fleiri hugmyndir og þannig fæddist hugmyndin að hostelinu. Listamannaaðsetrið hafi svo bæst við það.


Frystiklefinn á Rifi, Snæfellsnes, úr vör, vefrit
Fjölbreytt starf fer fram í Frystiklefanum á Rifi. Ljósmynd Frystiklefinn á Rifi.

Að sögn Kára er það bráðnauðsynlegt fyrir svæðið að hafa stað eins og Frystiklefann. Hann segir að þetta auki lífsgæði fólks mjög mikið, ekki bara vegna þess sem boðið er upp á í húsinu sjálfu heldur líka útaf öðrum verkefnum sem hann og hans samstarfsfólk vinna að í bæjarfélaginu. „Við erum að vinna með ólíkum hópum, eldri borgurum, börnum og unglingum, þannig að þetta hefur virkilega jákvæð áhrif.

„Þetta stuðlar að því að fólk vilji flytji hingað og líði vel hérna. Það getur enginn sagt að það sé ekkert um að vera hér. Það var líka mín pæling að útrýma þessum hugsanahætti því núna er ekki hægt að segja lengur að það sé ekkert að gerast hér, því það er alltaf eitthvað að gerast með tilkomu þessa húss.“ segir Kári.

Hann segir að heimafólk sé duglegt að sækja Frystiklefann og sækja það sem er í boði. „Án þáttöku heimamanna þá væri þetta tilgangslaust. Ég sé líka að fólk stílar inn á að fá gesti á meðan eitthvað á sér stað hér hjá okkur. Þetta er komið inn í hegðunarmynstrið hjá mörgum hér, enda erum við búin að vera með þetta í gangi lengi. Það er líka fínt, þá minnkar stressið á okkur að halda einhvern viðburð og halda kannski að það komi enginn, því það er aldrei þannig.“ segir Kári.


Frystiklefinn á Rifi, Snæfellsnes, úr vör, vefrit
Frystiklefinn er skemmtilega innréttaður. Ljósmynd Frystiklefinn á Rifi

Kári segir að það sé margt sem þurfi að huga að varðandi svona starfsemi. Hann segist vera hvatívs og hafi enga reynslu haft af því að reka fyrirtæki. Að hans sögn hefði hann sennilega ekki farið út í þetta ef hann hefði vitað hvað þetta væri mikið vesen.

„Ég var alltaf að reka mig á eina eða tvær hindranir í einu, var ekki með þær í hausnum á mér áður. Ég held að maður þurfi að hafa brennandi þörf fyrir að bæta samfélagið sitt, þetta gengur ekki útfrá gróðasjónarmiði. Þú þarft að hafa taugar til plássins eða svæðisins sem maður er að gera þetta fyrir. Því hugsunin er svolítið þannig að maður er að gera þetta fyrir ákveðið svæði.“ segir Kári.

Hann segir einnig mjög mikilvægt að hafa óbilandi trú á verkefnið og að skynsemi sé lykilþáttur. Að sögn Kára hefur þetta gerst mjög náttúrulega. Hann segist aldrei hafa haft eitthvað master plan, eitt hafi leitt af öðru. Kári viðurkennir að ferlið hafi verið örlítið yfirþyrmandi á köflum, en segist þó aldrei hafa missti fókusinn á að taka einn kafla í einu. „Ég er kannski ekki besti maðurinn til að gefa ráð, betri ráð væri að hafa góða fjárhagsáætlun en ég er ekki mikið í því, þó ég geri það af og til fyrir verkefnin mín. Það þarf að kunna sér hóf og vita sín takmörk, bæði peningalega séð og hugmyndalega séð.“ segir Kári.


Frystiklefinn á Rifi, Snæfellsnes, úr vör, vefrit
Frystiklefinn á Rifi er orðinn þekktur tónleikastaður. Ljósmynd Frystiklefinn á Rifi.

Hann leggur áherslu á annan mikilvægan punkt og það er vinnusemi. Að hans sögn þarf maður þurfi að vera reiðubúinn að vinna mikið og koma hlutum i verk. Hann segist hafa verið heppinn varðandi hversu samfélagið tók hugmyndinni vel og segir að fólk hafi fljótt farið að trúa á þetta að þetta gæti verið eitthvað sérstakt. „Þá er rosa auðvelt að fá hjálp í svona litlum samfélögum og hlutirnir geta gerst hraðar út á landi heldur en í Reykjavík. Það er mikilvægt að finna að samfélagið í kring kaupi þetta, og að selja þetta út á við og láta fólk í nær umhverfinu finnast það eiga pínulítið í þessu. Það er góður vinkill.“ segir Kári.

Aðspurður segir Kári mest gefandi í starfinu mörg lítil augnablik.

„Það eru óteljandi augnablik eins og þegar Kaleo kom og spilaði hér þá voru áttræðar konur að dansa með átta ára krökkum, það var yndislegt. Ég fæ oft svona þegar við erum með eitthvað verkefni með krökkum eða viðburði: já alveg rétt, þetta er bjútí-ið við þetta!

„Það gerist líka þegar ég geri mínar leiksýningar og maður fær viðbrögð frá fólki og fær fólk til að hugsa, það er rosalega gefandi.“ segir Kári að lokum.


Frystiklefinn á Rifi, Snæfellsnes, úr vör, vefrit.
Að sögn Kára er bráðnauðsynlegt að hafa stað eins og Frystiklefann á svæðinu. Ljósmynd Frystiklefinn á Rifi.

Comments


bottom of page