top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Lífsnauðsynlegt að umgangast skapandi fólk“

Updated: Apr 4, 2019


ArtsIceland, gestavinnustofa, Ísafjörður, úr vör, vefrit
Elísabet Gunnarsdóttir, forstöðumaður ArtsIceland. Ljósmynd ArtsIceland.

ArtsIceland á Ísafirði býður upp á alþjóðlegar gestavinnustofur í bænum. Vinnustofurnar eru aðallega fyrir myndlistarmenn, en einnig hafa tónlistarmenn og dansarar sótt vinnustofurnar auk rithöfunda og fræðimanna. Blaðamaður ÚR VÖR hafði samband við Elísabetu Gunnarsdóttir forstöðumann ArtsIceland á dögunum til að forvitnast um starfsemina þar á bæ.


Að sögn Elísabetar átti starfsemi ArtsIceland sér talsverðan aðdraganda. Hún segir að fyrirtæki hennar hafi fengið styrk um síðustu aldamót til að skoða möguleika á að breyta félagslegum íbúðum í gestavinnustofur. Á þeim tíma hafi mikið af félagslegu húsnæði staðið autt vegna skipulagsbreytinga en að lokum fékk hugmyndin ekki brautargengi.

„Þáverandi bæjarstjóri Ísafjarðar spurði mig efins um hvort listamenn gætu nokkuð borgað fyrir svona lagað. Þannig að það var mælikvarðinn, peningar, en ekki horft til óbeinu teknanna og alls þess sem listamennirnir gætu haft fram að færa til samfélagsins.“ segir Elísabet.

Í kjölfarið fékk Elísabet starf við reka listamiðstöð í Noregi sem heyrði undir Norrænu Ráðherranefndina með það fyrir augum að kynnast betur starfsemi gestavinnustofa. Hún segir að á Norðulöndunum sé slík starfsemi til fyrirmyndar, þar sé unnið mjög faglegt starf og að styrkjakerfið sé öflugt og skilvirkt. Frá Noregi lá leiðin til Kanada þar sem Elísabet byggði upp nýja listamiðstöð frá grunni áður hún kom aftur heim. Hún hafi þá ennþá haft þá hugmynd að setja á fót gestavinnustofu á Ísafirði en verið örlítið tvístígandi.

„Ég vissi að styrkir á Íslandi eru takmarkaðir og að þetta væri þungur rekstur. En við höfðum byrjað með Gallerí Úthverfu í sama húsi stuttu áður og ákváðum að demba okkur í þetta. Við byrjuðum sem sagt árið 2014 með því bjóða listafólki sem við þekktum til, og fengum þannig tækifæri til að reyna hvort þetta virkaði.“ segir Elísabet.
ArtsIceland, Ísafjörður, gestavinnustofa, úr vör, vefrit
Natalie Saccu de-Franchi, kvikmyndagerðarkona. Ljósmynd ArtsIceland

Elísabet segir að í upphafi hafi verið tvær vinnustofur í húsnæði ArtsIceland við Aðalstræti 22. Báðum vinnustofum fylgir svefnherbergi og svo er sameiginlegt eldhús, sem hún segir að sé mikilvægt félagslega séð, því þar geti fólk hist, spjallað og borið saman bækur sínar. Þau hafi síðar bætt við öðru húsi, sem er á snjóflóðahættusvæði, þar sem er bara hægt að hafa opið hálft árið.


Gestavinnustofurnar eru í boði allt árið og leggur Elísabet áherlsu á að fólk dvelji frekar lengur en skemur. Hún segir að forsvarsmönnum vinnustofanna finnist mikilvægt að gestirnir í vinnustofunum geti tekið virkan þátt í listalífinu á staðnum. Þannig hafa þau verið að miða starfsemina við aðra starfsemi sem fyrir er í samfélaginu, t.d. eitthvað sem tengist dans- eða tónlistarskólunum í bænum.

„Okkar starf snýst um að tengja gestina við heimafólkið svo allir geti grætt á því. Það er mun meira gefandi að eiga í beinum samskiptum við heimafólk en að Google-a bara. Svo finnst mér mjög mikilvægt að fólk fái tækifæri til að upplifa mismunandi árstíðir. Ísland er svo ríkt af þeim, við sem búum hér vanmetum það sennilega, en það er mikið meira en fjórar árstíðir hér. Og það er mikilvægt að fólk sem býr í stórborgum fái tengsl við náttúruöflin og þessar ólíku árstíðir sem við búum við hér, árstíðirnar geta virkað svo flatar ef þú býrð í stórborg.“ segir Elísabet.
ArtsIceland, Ísafjörður, gestavinnustofa, úr vör, vefrit
Elísabetu finnst mikilvægt að listafólkið taki þátt í menningarlífi bæjarins. Ljósmynd ArtsIceland.

Samkvæmt Elísabetu kemur fólk allstaðar að úr heiminum til að sækja vinnustofurnar. Hún segir að Íslendingar séu að átta sig meira og meira á því að þetta er í boði og að það sé gaman að fá þá með. Hún segir að erlendir listamenn sem sæki vinnustofurnar séu oft þreyttir á borgarmenningu og sníði hjá Reykjavík þótt það sé auðvitað engin stórborg.

„Það er vandamál um allt land hvernig lítil samfélög eru töluð niður. En svo kemur svona fólk í heimsókn og það hjálpar heimafólki að treysta sjálfsmyndina. Svo hefur skapandi fólk hæfileika til að túlka og draga fram það fallega og sérkennilega í samfélaginu og miðla því á samfélagsmiðlum og í verkum sínum og það er afar dýrmætt fyrir svæðið, sú kynning sem kemur með þessu fólki.

„Þannig að þetta er margþætt og eins og oft með menningarstarfsemi þá er erfitt að mæla þetta, það hefur svo marga anga, skilar sér á svo mörgum sviðum.“ segir Elísabet.

ArtsIceland, Gallerí Úthverfa, Ísafjörður, gestavinnustofa, art residency, úr vör, vefrit
Það ættu að vera gestavinnustofur í hverjum dal og hverjum firði samkvæmt Elisabetu. Ljósmynd Julie Gasiglia.

Elísabet segir að viðhorfið gagnvart svona starfsemi hafi gjörbreyst á síðustu árum. Hún segir að þegar fólk eins og hún, sem hefur unnið lengi í þessu sé að prédika eitthvað, þá sé því ekki alltaf trúað. En svo þegar fólk upplifir þetta sjálft, hvaða áhrif svona starfsemi hefur, þá trúir það frekar. Elísabet fagnar því að gestavinnustofur skjóti uppi kollinum víða og segir að þær séu aldrei í samkeppni við hvora aðra.

„Því fleiri því betra og þær ættu að vera í hverjum dal og hverjum firði. En styrkjakerfið á Íslandi hjálpar ekki, það er alltof litlu veitt til menningar og lista. Það væri æskilegt ef þetta væri styrkt meira, við berjumst í bökkum til að geta borgað starfsmanni til að sinna þessu í hlutastarfi og sjálfboðavinna gengur ekki til lengdar.

„Við höfum verið með frábæra starfsmenn í hlutastarfi sem hafa haldið þessu gangandi. Ráðamenn verða að átta sig á því að margfeldisáhrifin eru rosaleg inn í samfélagið, ég vildi óska að fleiri hefðu skilning á því.“ segir Elísabet.

ArtsIceland, art residency, Ísafjörður, Sjávarfang, úr vör, vefrit
Frá opnun sýningar Sookyung Bae og Noeul Lee í Fiskbúð Sjávarfang. Ljósmynd ArtsIceland.

Hún segir að listafólkið haldi oftast sýningar eða listamannaspjall til að miðla til samfélagsins þótt það sé engin krafa. Að sögn Elísabetar er það í eðli listamanna að miðla list sinni. Hún segir að sýningarsalurinn í Gallerí Úthverfu sé yfirleitt bókaður langt fram í tímann, þannig að þau þurfi að bjóða fólki að koma aftur til að halda sýningar síðar eða að halda þær á öðrum vettvangi, t.d. í tónlistarskólunum eða í Edinborgarhúsinu. „Það var sýning í fiskbúðinni Sjávarfangi í febrúar og það var mjög skemmtileg uppákoma. Við reynum að hafa breidd í þessu, hvert fólk fer og er með kynningu, líka til að ná til fleiri.

„Þetta er mjög gefandi starfsemi og það er gaman að fylgjast með því hverju aðkomufólk tekur eftir. Og að fá margar skrýtnar spurningar, það fær mann til að hugsa: „Já, þetta er svona!“ Það að umgangast skapandi fólk er lífsnauðsynlegt, það getur verið krefjandi, en er afskaplega gefandi því skapandi fólk smitar rosalegum krafti.“ segir Elísabet að lokum.

ArtsIceland, art residency, Ísafjörður, Julie Gasiglia, úr vör, vefrit
Ýmis rými eru nýtt undir sýningar listafólksins. Kjallarinn í Hafnarstræti 22 var notaður síðastliðið sumar. Ljósmynd Julie Gasiglia.


Comments


bottom of page