List á landsbyggð
annarleg kyrrð hvíldi yfir
auðum bekkjunum.
Svona endaði síðasti pistill minn um list á landsbyggð. Þar fjallaði ég um listamannalun og mikilvægi þeirra og byrjaði og endaði með því að vitna í ljóð Steins Steinarrs „Leiksýning“. Ekki datt mér í hug að þetta mundi svo bara gjörast, sko í alvöru. Það eru auðir bekkir í öllum leikhúsum landsins ef ekki bara heimsins enda samkomubann. Víst gat Steinn verið kaldkveðinn í kvæðum sínum en þetta er nú full mikill sannleikur. Ég verð að játa að maður er svolítið týndur og tættur í sálinni við þessar aðstæður enda starfa ég sem leikari og allt í einu eru launin bara núll. Enda engin leiksýning og maður veit í raun ekki hvunær næst verður sýnt.
Ég er minn eigin herra í listinni ef svo má segja því sjálfur rek ég mitt eigið leikhús, Kómedíuleikhúsið. Það er ekki langt síðan við frumsýndum nýtt leikrit og vorum einmitt að fara í leikferð um landið með þá sýningu en eðlilega verður ekkert úr þeirri ferð.
Staðan er svo sem ekki flókin allar sýningar okkar í mars, apríl og maí hafa nú verið afbókaðar. Nú er verið að byrja að afbóka í júní. Síðan hinn meiði vírus náði landi hér á landi höfum við ekki fengið eina einustu fyrirspurn um sýningu. Aðeins afbókanir á áður pöntuðum sýningum.
Huggum harmi gegn er þó að við erum ekki ein í þessari stöðu. Þetta á ekki bara við um öll leikhús landsins heldur flest listapparöt landsins allt frá óperunni til dansiballa hljómsveita og allt þar á millum og hring í kringum. Það er aðeins eitt að gjöra í þessari absúrd stöðu og það er að missa ekki móðinn. Gera heldur það sem maður hefði betur gert í æsku, hlusta og fara eftir fyrirmælum. Halda áfram að listast eða bara mæta í vinnuna. Búa sér til verkefni, dusta jafnvel rikið af gömlum hugdettum, nýta tímann í að lesa listabækur, allt frá fræðibókum til ævisagna, og fara þannig í sjálfgefna endurmenntun.
Fyrir okkur leikarana er einnig mikilvægt að gæta að heilsunni og huga vel að hreyfingu. Já, það eru tækifæri í öllum stöðum. Nú getur maður bara gjört þetta allt, endurmenntað sig og komið sér aftur í gamla góða líkamlega form sem maður var í þegar maður útskrifaðist úr leikaranáminu. Einmitt þetta tvennt sem ég hef huxað sérlega mikið um hverja nýjársnótt. Já, á nýja árinu ætla ég að bæta við mig þekkingu í minni eigin list já og svo ætla ég að líka að vera rosalega dúglegur að skokka og fara aftur að stunda jóga. Á Þrettándanum hef ég gleymt þessu allajafna og bara haldið áfram mínu streði án nokkurra nýrra heita og hvað þá framkvæmda í þá áttina.
JÁ er eitt af mínum uppáhalds orðum og ég skil bara ekkert afhverju það hefur ekki nú þegar verið valið orð ársins eitthvert árið ef ekki bara orð aldarinnar. Ég er alinn upp á mjög jákvæðan hátt hvar já var miklu oftar svarið í öllum stöðum og problemmum frekar en nei. Enda kemstu ekkert áfram ef nei er það fyrsta sem þér dettur í hug þegar eitthvað bjátar á. Miklu frekar að segja hitt stuttorðið, JÁ. Bæta svo við og þetta ætla ég að gera í stöðunni. Þetta jákvæða uppeldi hefur fyllt mér í þá tæpu hálfu öld sem ég hef lífsandann dregið.
Oft hefur það tekið mikið á að segja já frekar en nei á erfiðum stundum en ég held bara aldrei jafn mikið og einmitt nú. Já, það er alveg næsta víst að ég er ekki að fara að leika leiksýningu í einhvern tíma svo þá get ég bara gert svo margt annað á meðan og bara allt það sem ég hef einhverntímann pælt í að gjöra. Vá, já hvað ég er heppinn.
Nú segi ég bara einsog skáldið, ég hlakka svo til, að fást við svo margt skemmtilegt. Hluti sem ég hef slegið á frest eða bara ekki haft né gefið mér tíma til að vinna. Ég vakna ennþá snemma á morgnana því ég hlakka svo til að komast á vinnustofuna mína í Leiklistarmiðstöð Kómedíuleikhússins á leikhúseyrinni. Ég er meira að segja staddur þar núna þegar ég huxa hér upphátt og það er sunnudagur og klukkarn er meira en 16:01. Allt í einu er ég bara búinn að koma mér í fullt af verkefnum, reyndar veit ekki hvort ég fái eitthvað borgað fyrir það, en það er aukaatriði auk þess er ég alveg vanur því. En ég er að mæta og ég er að vinna. Hitt kemur svo bara, þess er ég sannfærður. Þó ég huxi stundum, þegar ég mæti að morgni dax á vinnustofuna, einsog vestifirska skáldið með breiða nefið, Matti Joch: Hingað kem ég nú á eyland eitt.
Texti: Elfar Logi Hannesson - leikari sem enn mætir til vinnu án þess þó að vita hvort né hvenær hann fái útborgað.
Comments