top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Alþjóðlegur safnadagur


Texti: Dagrún Ósk Jónsdóttir


Þann 18. maí síðastliðinn var haldinn hátíðlegur hinn Alþjóðlegi safnadagur, en þann dag er haldið upp á hann um allan heim árlega. Í kringum 37 þúsund söfn í 158 löndum tóku þátt í deginum í ár, sum skipulögðu dagskrá í tilefni dagsins og önnur deildu skemmtilegu efni á samfélagsmiðlum. Fólk um allan heim var líka hvatt til þess að heimsækja söfn á þessum degi og halda þannig upp á hann.

Á hverju ári er safnadeginum valið ákveðið þema og í ár var yfirskriftin Söfn, sjálfbærni og vellíðan. Þemað endurspeglaði að söfn hafa mikilvægu hlutverki að gegna í málefnum sem varða sjálfbæra þróun og vellíðan fólks í þeim samfélögum sem þau tilheyra.

Það er alveg ljóst að starfsemi safna byggir á trausti almennings. Þau hafa líka margvísleg tækifæri til að tengja saman ólíka hópa og eru þess vegna í einstakri stöðu til þess að koma jákvæðum breytingum til leiðar, auka almenna þekkingu og vinna gegn fordómum. Þetta geta þau til dæmis gert með miðlun, rannsóknum og fræðslu, sem allt eru mikilvægir þættir í starfi safna.


Á undanförnum árum hafa fjölmörg söfn á Íslandi fjallað um sjálfbærni og umhverfismál út frá ýmsum vinklum og á áhugaverðan og fjölbreyttan hátt. Söfn fjalla í mörgum tilfellum um fortíðina, en setja oft viðfangsefni sín í samhengi við samtímann og jafnvel framtíðina. Þau ná til fjölbreyttra hópa sem heimsækja söfnin, auk þess sem þau tengjast skólastarfi og halda úti safnfræðslu. Þau eru því í einstakri stöðu til að auka almenna þekkingu til dæmis á málum er varða sjálfbærni og umhverfismál og stuðla að jákvæðum breytingum. Undanfarin ár hefur líka verið fjallað meira um söfn í tengslum við heilsu og vellíðan.

Söfn standa líka oft fyrir fjölbreyttum viðburðum sem tengja saman ólíka hópa og geta styrkt félagsleg tengsl. Söfn vinna þannig gegn félagslegri einangrun og bæta andlega heilsu. Þá eru söfnin og það mikilvæga menningarstarf sem þau sinna oft mikilvægur þáttur í að skapa eftirsóknarvert samfélag, þar sem mannlíf og menning eru í hávegum höfð.

Safnadagurinn á Íslandi er haldinn af Íslandsdeild ICOM (International Council of Museums) og FÍSOS (Félagi íslenskra safna og safnmanna).


留言


bottom of page