Út er komin bókin Álagablettir á Ströndum. Í bókinni er athygli beint að álagastöðum á Ströndum, allt frá Hrútafirði og norður í Árneshrepp. Álagablettir eru staðir sem á hvílir bannhelgi eða álög af einhverju tagi. Þetta geta ýmist verið grasblettir eða klettaborgir, hólar og haugar eða jafnvel ár og vötn. Á Ströndum eru fjölmargar þjóðsögur og sagnir sem tengjast slíkum stöðum.
Margir álagablettanna eru tengdir huldufólki, en aðrir fornköppum, fjársjóðum eða jafnvel tröllum. Stundum eru þetta grasblettir sem tilheyra huldum vættum og bannað er að slá. Þeim sem brýtur gegn banninu hefnist fyrir. Þá er einnig sagt frá búsetuálögum í bókinni og stöðum sem blessaðir voru af Guðmundi biskup góða.
Höfundar bókarinnar Álagablettir á Ströndum eru feðginin og þjóðfræðingarnir Dagrún Ósk Jónsdóttir og Jón Jónsson á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð. Bókin byggir á rannsókn sem hófst sumarið 2013 með uppsetningu sýningar um sama efni á Sauðfjársetrinu í Sævangi. „Við undirbúning sýningarinnar söfnuðum við saman sögum um álagabletti, það eru auðvitað sögur í örnefnaskránum, í hljóðritasafni Árnastofnunar, þjóðsagnasöfnum, Þjóðháttasafni Þjóðminjasafnsins. Norður í Árneshreppi hafði svo þjóðfræðingurinn Rakel Valgeirsdóttir frá Árnesi kortlagt álagabletti þar,“ segir Dagrún um vinnuna við sýninguna. „Svo kom líka í ljós að það var svolítið af sögum sem höfðu aldrei verið skrifaðar niður og voru ennþá bara varðveittar í munnlegri geymd. Það kom okkur dálítið á óvart og var um leið svolítið skemmtilegt. Það sýnir líka hvað það er mikilvægt að safna þessum sögum saman og miðla fróðleiknum.“
Um útgáfu bókarinnar segir Dagrún: „Sýningin hefur verið uppi á Sauðfjársetrinu alveg síðan 2013, en núna í vetur stendur til að taka hana niður. Sýningin og efniviðurinn hefur fengið mikla athygli svo okkur fannst viðeigandi að klára þetta verkefni með bók. Það er líka svo gaman þegar að það stendur eitthvað áþreifanlegt eftir svona tímabundin verkefni. Svo bárust okkur auðvitað fleiri sögur eftir að sýningin opnaði sem við gátum þá bætt við í bókinni. Við tökum líka ennþá við ábendingum um fleiri sögur núna þegar bókin er komin út.“
Aðspurð um hvers vegna álagablettir hafi orðið umfjöllunarefnið segir Dagrún:
„Álagablettir eru auðvitað sérstaklega áhugavert efni, vegna þess að þetta er svo lifandi þjóðtrú og hún stendur okkur oft líka svo nálægt í tíma. Stór hluti sagnanna á sér stað á 20. öldinni, margar sögurnar eru mjög áhrifamiklar og sumar alveg hræðilegar,“ segir Dagrún og bætir við: „Sögurnar fela líka í sér áhugaverð skilaboð um samskipti kynslóðanna og einnig fólks og náttúrunnar.“
„Í bókinni eru sagðar krassandi sögur um álagabletti á Ströndum, yfirnáttúruleg öfl og þjóðtrú. Svo er hún full af fróðleik og litljósmyndum“ segir Dagrún. Bókin ætti því að höfða vel til allra sem hafa áhuga á Ströndum, mannlífi, sögu og þjóðsögum.
Bókin er gefin út af Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Ströndum – Þjóðfræðistofu og Sauðfjársetri á Ströndum. Sauðfjársetrið sér um dreifinguna og hægt er að tryggja sér eintak í síma 693-3474 (Ester), eða með því að senda póst á netfangið saudfjarsetur@saudfjarsetur.is eða á Facebook-síðu Sauðfjársetursins. Við hvetjum áhugasama að næla sér í eintak.
Comentários