top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Sumarið kvatt á Akureyri

Updated: Sep 12, 2019


Akureyrarvaka, Akureyri, Edda Borg Stefánsdóttir, list, menning, norðurland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Edda Borg Stefánsdóttir, verkefnastjóri Akureyrarvöku. Ljósmynd Edda Borg Stefánsdóttir

Akureyrarvaka var haldin dagana 30. til 31. ágúst síðastliðinn. Hátíðin, sem er afmæli Akureyrarbæjar gekk vel fyrir sig að sögn Eddu Borgar Stefánsdóttir, verkefnastjóra hátíðarinnar, en blaðamaður ÚR VÖR heyrði í henni á dögunum. „Þetta gekk vonum framar og var ótrúlega skemmtilegt. Það er í mörg horn að líta þegar svona lagað er skipulagt og það var hellingur í boði, það er í raun auðveldara að telja upp það sem var ekki í boði!“ segir Edda og hlær.

Fjölmargir menningar-og listtengdir viðburðir fara fram yfir þessa tilteknu helgi að sögn Eddu og í ár var mikið um opnar smiðjur og markaði. Auk þess eru svo voru fastir liðir líkt og stórtónleikar og var boðið upp á þá nýjung í ár að hafa Tónleikar unga fólksins þar sem ungt og efnilegt heimafólk fékk að spreyta sig á stóra sviðinu.

Edda segir að góð samskipti séu lykillinn að góðri hátíð. „Ég og kollegi minni, Almar Alfreðsson myndum tveggja manna teymi utan um þetta. Við sjáum um að binda þetta saman en svo er auðvitað hellingur af flottu fólki sem kemur að þessu og fyrst og fremst bæjarbúar sem eru með tillögur að viðburðum og taka svo þátt í þessu öllu saman.

„Það er margt sem þarf að setja upp, púsla og raða, ákveða dagsetningar, staðsetningar og tímasetningar. Þannig að þetta snýst um samskipti og gagnkvæmri virðingu líka, það má ekki gleyma því. En við viljum bara færa kærar þakkir frá okkur í teyminu til allra samstarfsaðila og þeirra sem lögðu hönd á plóg.

„Og til íbúanna, þeirra sem komu og létu sjá sig, það er aðallega þeirra vegna sem maður er að þessu.“ segir Edda.

Akureyrarvaka, Akureyri, Helga Gunnlaugsdóttir, norðurland, list, menning, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Boðið var upp á fjölmarga viðburði um allan bæ á Akureyrarvökunni. Ljósmynd Helga Gunnlaugsdóttir

Að sögn Eddu er ekki skilyrði að vera heimamaður til að setja eitthvað á svið, hægt er að sækja um í gegnum heimasíðu bæjarins. Og það er öllum boðið, allir velkomnir, og segir Edda að fólk komi alveg alla leið að sunnan til að taka þátt. Sem fyrr segir eru þetta aðallega menningar- og listtengdir viðburðir og er mikið um ýmiss konar sýningar, gjörninga og svo tónleika um allan bæ. „En þar að auki hafa ýmis félög í bænum opið hús hjá sér, þannig að almenningur getur mætt og kynnst starfsemi þeirra.

„Áhrif svona viðburðar eru góð, hér er náungakærleikur og mikil stemning er fyrir þessu, þetta er orðinn fastur liður í samfélaginu hér. Það er gaman að sjá þessa góðu mætingu og hvað margir leggja hönd á plóg. Þetta er líka svona kveðjustund varðandi sumarið og fólk býður haustið velkomið með þessu.“ segir Edda.
Akureyrarvaka, Akureyri, Helga Gunnlaugsdóttir, list, menning, landsbyggðin, norðurland, úr vör, vefrit
Litlir sem stórir tónleikar fóru víða fram þessa tilteknu helgi á Akureyri. Ljósmynd Helga Gunnlaugsdóttir

Samkvæmt Eddu hefur hátíðin verið að vaxa og dafna ár frá ári. Þetta árið var opnun í Lystigarðinum sem ber nafnið Rökkurró og gekk það vel fyrir sig að sögn Eddu. „Þetta var svona kósý rómantísk stemning í Lystigarðinum á mörgum ólíkum stöðum þar, það voru litlir tónleikar, ljóðaupplestur og fleira, gestir gátu rölt hring í garðinum og séð ýmislegt gerast þar.

„Svo eru lokatónleikarnir líka alltaf að verða stærri og stærri og í ár var listamaður sem kallar sig Tálsýn með myndbandsverk sem sýnt var um leið og tónleikarnir áttu sér stað. Það er alltaf skemmtilegt að vera með svona smá viðbót á hverju ári.“ segir Edda.
Akureyrarvaka, Akureyrir, Lilja Guðmundsdóttir, menning, list, norðurland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Myndbandsverk eftir listamanninn Tálsýn var sýnt á meðan lokatónleikar hátíðarinnar fóru fram. Ljósmynd Lilja Guðmundsdóttir

Edda segir að það sé mjög gefandi að sjá um skipulagninguna á svona viðburði. „Þetta er krefjandi líka og tekur á, það er lítið sofið á svokölluðum keyrsludögum. En það er líka gaman, mikið hlegið og þetta veitir manni mikla gleði á álagstímunum. Maður er á fullu allan tímann að hringja í fólk, sækja eitthvað eða að skutla, en maður reynir að gera þetta sem best og njóta í leiðinni.“ segir Edda og viðurkennir að hún finni enn fyrir þreytu eftir þessa miklu hátíð.

Menningarmál eru í góðum farvegi á Akureyri að sögn Eddu og segir hún að það sé alltaf eitthvað í gangi. Hún segir að yfir allt sumarið sé nóg um að vera og að þessi viðurður sé svo eins og uppskeruhátíð.

„Ég er úr Skagafirði en hef búið á Akureyri í að verða fimm ár. Ég fæddist reyndar hér, en það var bara því það mátti ekki eiga tvíbura á Sauðarkróki árið 1991! En hér leið mér strax eins og heima hjá mér, þetta er notalega lítið án þess að vera of lítið, svo er líka allt til alls hér, það er t.d. alltaf eitthvað í gangi.“ segir Edda að lokum.
Akureyrarvaka, Akureyri, Lilja Guðmundsdóttir, landsbyggðin, menning, list, norðurland, úr vör, vefrit
Lokatónleikar hátíðarinnar verða alltaf glæsilegri á hverju ári að sögn Eddu Borgar. Ljósmynd Lilja Guðmundsdóttir


Commenti


bottom of page