Texti: Elfar Logi Hannesson
Engin veit hve haft hefur fyrr en höft hindra árlega gleði á borð við afmæli, ættarmót eða bara listahátíð. Mætti ég þar nefna nokk nánar og grúndikt, elstu leiklistarhátíð landsins, Act alone á Suðureyri. Hátíð sem hefur verið haldin ár hvert síðan 2004. Svo kemur bara einhver óumbeðinn kóvíti sem gerir einsog þingmaðurinn gjörir stundum, setur bara pennastrik yfir allt þetta skemmtilega. Ekki bara í eitt ár heldur tvö. Á þessum kóvítans árum þá skapaðist eitthvað tómarúm og tilveran varð örlítið einsleitari. Meira að segja við sem stöndum að Actinu og höldum einstaklega mikið uppá töluna einn fannst tilveran full klén svona.
Nú stefnir hins vegar í það gott ár að við getum á ný haldið Act alone einsog við gerðum í gamla daga. Því Act alone verður loksins haldið á ný dagana 4. – 6. ágúst í hinu einstaka þorpi Suðureyri.
Act alone er einsog margir vita eina hátíð sinnar tegundar hér á landi og þó víðar væri leitað. Því Actið er helgað eins manns listinni og það á öllum sviðum. Þetta er í raun alveg einstök listahátíð og sveskjan í grautnum er vitanlega sú að það er ókeypis á alla viðburði hátíðarinnar. Enda er Actið mikil fjölskylduhátíð og eitthvað í boði fyrir alla aldurshópa.
Dagskrá ársins er einstaklega alþjóðleg því á Actinu verða viðburðir frá Bandaríkjunum, Danmörku, Ítalíu, Króatíu og Parakuæ. Af íslenskum viðburðum verður einnig nóg í boði. Eitthvað fyrir alla í leiklist, dans, tónlist, ritlist og myndlist. Það er ekki nóg með að það sé ókeypis á Act alone heldur verður einnig hægt að fara ókeypis á Actið. Því alla Act dagana gengur langferðabifreið Act alone millum Ísafjarðar og Suðureyrar. Og fargjaldið í þessa einstöku langferðabreið er einsog allt annað á Acti, núll krónur. Actið er fóstrað af íbúum Suðureyrar og einstöku baklandi fyrirtækja og sjóða. Nálgast má dagskrá Act alone á heimasíðunni okkar og þar er einnig að finna áætlun langferðabifreiðar Actsins www.actalone.net
Þó Actið sé nú orðinn öldungur í íslenskri leiklistarsögu, er langelsta leiklistarhátíð Íslands fyrst haldin 2004, þá lítum við á tilveruna sem nýtt upphaf, nýtt ævintýri ár eftir ár. Við hlökkum til framtíðarinnar og að gera Actið aftur árlegt í vorri tilveru og punta þannig dulítið upp á vort líf. Góða skemmtun á Act alone á Suðureyri 4. – 6. ágúst.
Dagskrána þetta árið má sjá hér að neðan:
Ókeypis er á alla viðburði
Fim. 4. ágúst
Kl.18.01 HELVÍTIS ÆÐRULEYSIÐ – HARMÞRUNGINN GLEÐILEIKUR, myndlistarsýning. Þurrkver. Opin alla Act dagana
Kl.18.11 – 18.59 THEATRE IN A BOX, brúðuleikhús fyrir einn, við FSÚ
Kl.18.31 FISKISMAKK OG UPPHAFSSTEF ACTSINS. Við FSÚ
Kl.19.01 BJÖRN THORODDSEN, tónleikar. FSÚ. 50 mín
Kl.20.16 SÖNGARFUR KRÓATÍU, óperutónar. FSÚ 30 mín
Kl.21.21 LET IT BE ART, einleikur. FSÚ. 50 mín
Kl.22.46 ÁN DJÓKS, einleikur. Þurrkver. 45 mín
Fös. 5. ágúst
Kl.13.01 – 15.01 BRÚÐUNÁMSKEIÐ FYRIR BÖRN. FSÚ
Kl.16.31 – 18.01 MASTERKLASS MEÐ RONALD RAND. FSÚ
Kl.19.01 ÞAÐ SEM ER, einleikur. FSÚ. 75 mín
Kl.20.21 OKKUR HEFUR LANGAÐ TIL AÐ BROTNA Í SUNDUR, dans, Þurrkver. 25 min
Kl.21.09 PINK HULK, einleikur, FSÚ. 70 mín.
Kl.22.31 ÓMERKILEG SAGA, einleikur, Þurrkver, 40 mín.
Kl.23.21 HERBERT GUÐMUNDSSON, tónleikar, FSÚ, 50 mín.
Lau. 6. ágúst
Kl.10.01 - 12.01 BRÚÐUNÁMSKEIÐ FYRIR BÖRN. FSÚ
Kl.12.01- 12.30 BRÚÐUSÝNING BARNANNA. FSÚ 29. mín
Kl.12.31 ANDA GANGA. Lagt af stað frá FSÚ að fótboltavelli
Kl.12.46 ENDURNAR OKKAR. Fótboltavöllur, 45 mín.
KL.13.41 EQUILIBRIUM TREMENS, TOBIA CIRCUS, Fótboltavöllur, 25. mín.
Kl.14.31 DR. GUNNI, tónleikar. FSÚ, 40 mín.
Kl.15.31 HRAFNHILDUR HAGALÍN, skáld. FSÚ, 40 mín.
Kl.16.31 ARNAR JÓNSSON Á EINTALI. FSÚ, 40 mín.
KL.19.01 SÍLDARSTÚLKAN, einleikur. FSÚ, 55 mín.
Kl.20.21 ORGINAL STRANGER, einleikur. Þurrkver, 40 mín.
Kl.21.31 ELEMENTAL CONFUSION, einleikur. FSÚ, 30 mín.
Kl.22.21 KELI - HRAFNKELL HUGI, tónleikar, FSÚ, 50 mín.
Kl.23.30 Í FULLKOMNU ÓJAFNVÆGI, uppistand, 50 mín.
Comments