top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Áhorfendur voru með listatimburmenn eftir helgina!“


Act Alone, Elfar Logi Hannesson, Gústi Production, Suðureyri, Vestfirðir, einleikjahátíð, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Elfar Logi Hannesson, forsprakki Act Alone. Ljósmynd Gústi Production

Einleikjahátíðin Act Alone fór fram á Suðureyri eins og venju ber aðra helgina í ágúst, eða nánar tiltekið dagana 8. til 10. ágúst síðastliðinn. Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Elfari Loga Hannessyni, forsprakka hátíðarinnar sem sagði undirrituðum að hátíðin hafi gengið eins og í ævintýrunum. Sagði hann að allt hafi farið fram með einstökum hætti.

Elfar segir að dagskráin hafi verið svolítið þétt og hafi hún í raun aldrei verið jafn stór eins og á þessu ári, en 33 viðburðir voru í boði á þremur dögum og segir hann að áhorfendur hafi nánast verið uppgefnir eftir hátíðina, varla var tími til að fá sér rauðvín og bara rétt tími til að fá sér hamborgara milli atriða.

„Dagskráin var líka fjölbreytt á öllum sviðum listarinnar, en alltaf innan þessa ramma að það er alltaf einn listamaður sem kemur fram hverju sinni. Barnadagskráin var einstaklega vel sótt, greinilegt að börnin vilja sjá meira, það var húsfyllir á öllum viðburðum tengt þeirri dagskrá. Við erum sérstaklega ánægð með það, því við erum að ala upp áhorfendur framtíðarinnar.“ segir Elfar hress að vanda.
Act Alone, Suðureyri, Gústi Production, Vestfirðir, landsbyggðin, einleikjahátíð, úr vör, vefrit
Dagskráin var fjölbreytt og gátu allir fundið eitthvað við sitt hæfi. Ljósmynd Gústi Production

Að sögn Elfars er erfitt að setja tölu á gesti á öllum þessum viðburðum. Til að mynda hafi Guðlaugur Arason verið þarna með sínar bókverkamyndir, sem slóu algjörlega í gegn samkvæmt Elfari. „Það var stöðugt rennerí þangað alla dagana og svo slóu Vestfirsku fatahönnuðurnir og listaháskólanemarnir í gegn með sínum sýningum, þar var einnig opið alla dagana og þar var líka mikið rennerí.

Svo var á fjölmörgum viðburðum svo mikil ásókn að það þurfti að standa, eins og t.d. á lokatónleikunum þá var staðið frammi í anddyri, en við þekkjum það svo sem vel hér á þessari hátíð.“ segir Elfar.

Samkvæmt Elfari sækja nokkur þúsund manns hátíðina ár eftir ár og segir hann að ekki hafi verið fækkun í ár frá því í fyrra og bætir við að skipuleggjendur séu einstaklega ánægð með þessa ásókn. „Maður heyrði af einhverjum tónleikum í Reykjavík sem voru á sama tíma (innskot blaðamanns - tónleikar Ed Sheeran) og það voru margir þar víst. Við höfðum búið okkur undir að það yrði færra en hefur verið undanfarin ár, en áhorfendur kunna gott að meta því þeir komu sem áður og fjölmörg ný andlit sem er gaman að sjá. Grunnurinn í áhorfenda gallerýinu eru Vestfirðingar, allstaðar að. Svo eru brottfluttum Vestfirðingum að fjölga sem tjalda eða gista á gistiheimilum og það gleður okkur mikið, að þeir séu að koma aftur vestur.“ segir Elfar.

Act Alone, Suðureyri, Vestfirðir, einleikjahátíð, Gústi Production, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Viðburðirnir á hátíðinni voru 33 talsins þetta árið og eru allir innan þess ramma að vera einleikur. Ljósmynd Gústi Production

Elfar segir að stór hópur sé mikill unnendur hátíðarinnar og komi ár eftir ár, en hópurinn stækkaði núna enn frekar og segir hann að fólk hafi spurt sig strax á sunnudeginum hvort að þetta yrði ekki aftur að ári, aðra helgina í ágúst. „Svarið er einfalt, það er jú, við breytum því ekkert þótt það sé stór knattleikur eða tónleikar, þá er Actið alltaf á sínum tíma, aðra helgina í ágúst. Það er einmitt komin umsókn fyrir næsta ár, erlendis frá, frá brúðurleikara frá Hollandi. Það gerist yfirleitt strax eftir hátíð að það kemur umsókn og nú er hún komin í hús, kom strax daginn eftir.“ segir Elfar.


Að mati Elfars er gaman að sjá hvað hátíðin er mikil fjölskylduhátíð og segir hann augljóst að börnin kunna að meta gott leikhús.

„Þau sátu hér eins og englar á sýningunum og það er einstakt að fjölskyldan geti skemmt sér saman og allir semvoru hér voru sem ein stór fjölskylda. Áhorfendur voru með listatimburmenn eftir helgina, sem eru betri timburmenn en hefbundnir!“ segir Elfar og hlær.
Act Alone, einleikjahátíð, Suðureyri, Gústi Production, landsbyggðin, Vestfirðir, úr vör, vefrit
Elfar Logi segir áhorfendur hafa haft listatimburmenn eftir hátíðina. Ljósmynd Gústi Production

Að sögn Elfars bárust fleiri umsóknir í ár um þáttöku en nokkru sinni fyrr og var ákveðið að taka við fleirum en gert hafi verið nokkru sinnum áður, auk þess sem forsvarsmenn hafi þurft að vísa fleiri frá en þau vildu, sem Elfar segir auðvitað vera forréttindi. „Við viljum þakka íbúum Suðureyrar fyrir að hýsa Actið ár eftir ár, þeir sýndu það enn á ný hvað þeir eru miklir gestgjafar. Það er ekki sjálfgefið að árlega komi þessi hópur af fólki og ryðjist inn í þorpið þeirra, og þetta væri ekki hægt án þeirra. Og svo auðvitað styrktaraðilar okkar sem hafa heldur aldrei verið fleiri, viljum þakka þeim kærlega fyrir.“ segir Elfar að lokum og bendir fólki á að taka frá aðra helgina í ágúst á dagatali næsta árs.

Act Alone, Suðureyri, Vestfirðir, einleikjahátíð, Gústi Production, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Fullt útúr húsi, sem er víst ekkert nýtt að sögn Elfars Loga þegar kemur að Act Alone hátíðinni. Ljósmynd Gústi Production


Commenti

Impossibile caricare i commenti
Si è verificato un problema tecnico. Prova a riconnetterti o ad aggiornare la pagina.
bottom of page