top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Við munum hrista upp í fólki“


Elfar Logi Hannesson, Act Alone, einleikjahátíð, list, Suðureyri, úr vör, vefrit
Elfar Logi Hannesson, annar forsprakki hátíðarinnar Act Alone. Ljósmynd Act Alone

Einleikjahátíðin Act Alone verður haldin í 16. sinn í ágúst mánuði næstkomandi. Hjónin Elfar Logi Hannesson og Marsibil G. Kristjánsdóttir eru forsprakkar hátíðarinnar og blaðamaður ÚR VÖR heyrði í Elfari Loga til að forvitnast um stemninguna þegar styttist í herlegheitin.

Elfar segir að þau reyni yfirleitt að toppa sig frá ári til árs og að þau séu pottþétt að gera það í ár því það hafi aldrei verið eins margir viðburðir.

„Við verðum með næstum því þrjátíu viðburði á þremur dögum. Það hefur verið alger sprenging í umsóknum og aldrei komið svona margar umsóknir áður. Mest megnis erlendis frá að vanda, en einnig frá Íslandi. Það er mjög mikil aukning þaðan líka og við erum afskaplega ánægð með það.“ segir Elfar.

Hann segir að þótt fyrstu dagar maí mánaðar hafi ekki litið dagsins ljós þá séu þau búin að fylla kvótann varðandi viðburði og meira en það. Að sögn Elfars geta þau ekki tekið við fleirum og þótt þau skoði allar umsóknir, þá séu þau farin að undirbúa hátíð ársins 2020 nú þegar. „Þetta er auðvitað dásamlegt og hátíðin í ár verður mjög fjölbreytt, allt öðruvísi en nokkru sinni áður myndi ég segja.

Suðureyri, Act Alone, einleikjahátíð, úr vör, vefrit
Hátíðin Act Alone hefur verið haldin á Suðureyri síðan árið 2012. Ljósmynd Act Alone

„Við ákváðum að gera börnum sérstaklega hátt undir höfði og erum með frábæra barnadagskrá á laugardeginum. Þema hátíðarinnar er börnin og fjölskyldan. Það mæta allir á Actið, þótt þau séu tveggja ára eða 102 ára, það finna allir eitthvað við sitt hæfi og núna fá börnin sérstaklega mikið að horfa og hlusta á.“ segir Elfar.

Átta Vestfirðingar eru að útskrifast úr Listaháskóla Íslands nú í vor af ýmsum brautum skólans samkvæmt Elfari. Hann segir þetta vera stórmerkilegt og að þau hafi ákveðið að bjóða þeim að koma og sýna á Actinu og tók þessi hópur vel í það. „Þau fá heilt húsnæði útaf fyrir sig, sem heitir Þurrkver og er skemma sem við höfum notað áður á Actinu. Hún er hérna rétt við sjóinn á afskaplega fallegum stað í miðju þorpinu. Þar verður á hátíðinni framtíð Vestfiskrar listar í aðalhlutverki og svo verðum við með frábæra kokteila af allskonar.

Act Alone, Suðureyri, einleikjahátið, úr vör, vefrit, Ágúst G. Atlason, Gústi Production
Hátíðin er fyrir fólk á öllum aldri og eru áhorfendur galdurinn hvað hátíðina varðar að sögn Elfars. Ljósmynd Ágúst G. Atlason (Gústi Production)

„Við erum með nokkra einleiki, en þetta er mjög gott einleikjaár, það eru margir góðir einleikir sýndir og þeir koma allir vestur. Svo verða tónleikar, danssýningar, trúðar og svo kemur Náttúrubarnaskólinn líka. Þannig að fjölbreytileikinn hefur aldrei verið jafn mikill og núna í ár.“ segir Elfar.

Að sögn Elfars er talsverður höfuðverkur að púsla dagskránni saman á þessa þrjá daga, einkum vegna þess að hver viðburður fær að standa einn og sér, ekkert er sýnt samtímis og því munu gestir ekki missa af neinum viðburðum. „Þann 8. júní ætla ég að senda dagskrá Act Alone 2019 til ykkar í vefritinu ÚR VÖR til frumbirtingar þannig að þá verður fólk að fara á réttu síðuna! Það verður eitthvað fyrir alla og auðvitað líkt og alltaf, ókeypis á alla dagskrárliði. Það er óhætt að segja að stjórnin sé ansi montin af þessu góða line-upi svo maður leyfir sér að sletta!“ segir Elfar og hlær.

Act Alone, Suðureyri, einleikjahátíð, úr vör, vefrit
Hátíðin er fjölbreytt og verður einstök í ár að sögn aðstandenda. Ljósmynd Act Alone

Elfar segir að einn af göldrum hátíðarinnar séu gestirnir og hvað þeir séu duglegir að koma á alla viðburði og upplifa eitthvað sem þeir hafa ekki upplifað áður.

„Það er takmarkið, að opna augu fólks fyrir nýrri og óvæntri list sem verður nóg af á þessu ári. Við munum hrista upp í fólki og Actið er náttúrulega inngangur inn í leikár leikhúsa landsins, það verða því allir sem mæta funheitir eftir allar þessar sýningar.“ segir Elfar.

Aðspurður segir hann að þau séu snortin varðandi fjölda umsókna og varðandi þær viðtökur sem hátíðin hefur fengið. „Við auðvitað grenjum af gleði yfir því hvað hátíðin heillar listafólk mikið og það eru forréttindi að fá að hýsa það góða fólk. Við höfum rætt um að víkka hátíðina út, hafa hana í fleiri daga, en komist að þeirri niðurstöðu hingað til að það sé ekki gott að breyta einhverju sem virkar. En auðvitað höfum við íhugað það alvarlega eins og ég segi, sérstaklega þegar umsóknum heldur áfram að fjölga og það kæmi ekki á óvart að bætt yrði við dögum í náinni framtíð.“ segir Elfar Logi að lokum.

Aron Ingi Guðmundsson, Act Alone, Suðureyri, einleikjahátíð, úr vör, vefrit
Suðureyri er tilvalinn vettvangur fyrir hátíð líkt og Act Alone. Ljósmynd Aron Ingi Guðmundsson



Comments


bottom of page