top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

„Stundum fær maður kjánahroll“


Hlynur Hallsson, A! Gjörningahátíð, Akureyri, norðurland, landsbyggðin, gjörningar, list, úr vör, vefrit
Hlynur Hallsson, safnsstjóri Listasafnsins á Akureyri og listrænn stjórnandi A! Gjörningahátíðar. Ljósmynd Hlynur Hallsson

A! Gjörningahátíðin verður haldin dagana 10. til 13. október næstkomandi á Akureyri. Hátíðin var fyrst haldin árið 2015 og var að frumkvæði Listasafnsins á Akureyri í samvinnu við Leikfélag Akureyrar sem síðar varð hluti af Menningarfélagi Akureyrar (MAk). Sviðslistahátíðin Lókal var einnig hluti af þessari hátíð og byrjaði þetta sem hugmynd um skemmtilega hátíð til að tengja saman sviðslist og myndlist sem gæti höfðað til sem flestra.


Blaðamaður ÚR VÖR heyrði á dögunum í Hlyni Hallssyni, safnsstjóra Listasafnsins á Akureyri og einum af listrænum stjórnanda hátíðarinnar.

Hlynur segir að með hátíðinni væri hægt að útvíkka starfsemi listasafnsins og leikfélagsins og ferðafólki og Akureyringum gert kleift að sjá spennandi gjörninga, hjóðverk og dansverk. Hlynur segir að dagskrá hátíðarinnar verði tilbúin í byrjun ágúst mánaðar og þá geti fólk skipulagt októbermánuð og hakað við hvað það vill sjá.

Hátíðin stendur yfir í fjóra daga, frá fimmtudagskvöldi til sunnudags og er bæði í húsnæði listasafnsins og menningarfélagsins og einnig hafa verið sýnd verk utandyra. Verksmiðjan á Hjalteyri hefur einnig tekið þátt í hátíðinni að sögn Hlyns og svo hafa verið svokallaðir utan dagskrár viðburðir (off-venue) á ýmsum stöðum, eins og vöruskemmum, listamannareknum rýmum, kirkjutröppum og öðrum óhefbundnum stöðum.

A! Gjörningahátíð, Akureyri, Yuliana Palacios, norðurland, list, gjörningar, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Frá gjörningi Yuliana Palacios. Ljósmynd A! Gjörningahátíð

Samkvæmt Hlyni þá eru viðburðirnir yfirleitt 12 til 15 talsins og eru þeir mislangir. Þeir stystu eru bara nokkrar mínútur og upp í marga klukktíma eða daga að hans sögn, þannig að það er fjölbreytni í lengd sem og innihaldi. Hlynur segir að þátttakendur hafi verið upp í mörg hundruð, því það hafa einhverjir gjörningar verið svokallaðir þátttökugjörningar, þar sem fólki hefur verið boðið að taka þátt, auk þess sem vegfarendur hafi verið hluti af dagskránni. 


„Við höfum verið með reynslubolta og líka unga og nýja listamenn. Guðrún Þórsdóttir hefur verið verkefnastjóri frá upphafi og nemendur Verkmenntaskólans hafa aðstoða listamenn við að setja upp gjörninga og líka tekið þátt í gjörningum.

„Listafólkið kemur allstaðar að, bæði erlendis frá sem og allstaðar af landinu. Í ár vorum með í fyrsta sinn svokallað open call, fengum margar umsóknir og erum við einmitt að vinna úr því núna og munum svara þeim umsóknum mjög fljótlega.“ segir Hlynur.
A! Gjörningahátíð, Akureyri, Raisa Foster, gjörningar, list, landsbyggðin, norðurland, úr vör, vefrit
Frá gjörningi Raisa Foster. Ljósmynd A! Gjörningahátíð

Auk Hlyns, sem er í stjórnendateymi hátíðarinnar fyrir hönd Listasafnsins, er Marta Nordal þar fyrir hönd leikfélagsins, Arna Valsdóttir og áðurnefnd Guðrún Þórsdóttir. Þess má geta að Arna hefur haldið vídeólistahátíð heima hjá sér samtímis A! Gjörningahátíðinni, sem kallast Heim og tengjast þessar tvær hátíðir því saman. Hlynur segir að allt þurfi að smella vel saman og að hentugt sé hversu stutt sé á milli staðann þar sem viðburðir eru haldnir, en þeir eru allir í göngufæri. Hann segir að mikilvægt sé að huga að því að gjörningarnir séu fjölbreyttir, en erfitt getur reynst að láta þá höfða til allra.


„Það er gott ef allir geta fundið eitthvað sem er spennandi og áhugavert. Við höfum ekki mikinn pening úr að moða, við borgum listamönnum smá þóknun til að taka þátt, en það hefur gerst að listafólk sem kemur hefur með sér styrk til að setja upp ákveðin verk.

Hekla Björt Helgadóttir, gjörningur, A! Gjörningahátíð, Akureyri, norðurland, landsbyggðin, list, úr vör, vefrit
Frá gjörningi Heklu Björt Helgadóttur. Ljósmynd A! Gjörningahátíð

„Það eru engin takmörk fyrir sköpunargleðinni og hugmyndafluginu og það er ókeypis inn á alla viðburði, nema í undantekningar tilfellum. Það hefur gengið ágætlega að fá styrktaraðila varðandi þetta og margir eru tilbúnir að leggja fram vinnu og hjálparhönd varðandi þetta, sem afar gaman er að sjá.“ segir Hlynur.

Að sögn Hlyns kemur fólk víða að af norðurlandi og einnig frá höfuðborgarsvæðinu til að sækja hátíðina, auk þess sem ferðamenn sem séu á staðnum á þessum tiltekna tíma og Akureyringar eru duglegir að sækja viðburði. Hann segir það vera svo að sumir gjörningar höfði ekki til allra, en að það það hafi verið að jafnaði 1500 manns sem sæki hátíðina árlega.

A! Gjörningahátíð, gjörningar, list, Akureyri, norðurland, landsbyggðin, úr vör, vefrit
Um 1.500 manns sækja hátíðina árlega að sögn Hlyns Halssonar. Ljósmynd A! Gjörningahátíð

„Það eru að sjálfsögðu allir velkomnir. Sumir eru með fordóma gagnvart gjörningum, en við vissum það þegar við byrjuðum á þessu. Sumum finnst erfitt að horfa á þetta, stundum fær maður kjánahroll eða líður vandræðalega. Sumir gjörningar eru líka gerðir með það að upplagi.

„En það er gott að fólk víkki út hugann og velti fyrir sér hlutunum. Það er löng hefð fyrir gjörningum á Akureyri, alveg frá Rauða Húsinu frá árinu 1982 þar sem voru reglulega framkvæmdir gjörningar og svo hefur Anna Ríkharðs verið dugleg með hreingjörninga sína þar sem hún skúraði hátt og lágt niðrí bæ. Svo eru líka ungir listamenn sem eru mikið að pæla í gjörningaforminu og það er gaman að sjá þegar leikhúsið skarast við myndlistina, þá á sér stað samtal sem við höfum öll gott af.“ segir Hlynur að lokum.

A! Gjörningahátíð, gjörningar, Akureyri, list, norðurland, landsbyggðin, Kviss búmm bang, úr vör, vefrit
Frá gjörningi Kviss búmm bang. Ljósmynd A! Gjörningahátíð



Comments


bottom of page