top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Notaleg stemning á skrímslaslóðum


Vök Baths, náttúruböð, Urriðavatn, Austurland, landsbyggðin, frumkvöðlastarf, Heiður Vigfúsdóttir, úr vör, vefrit
Vök Baths opnaði á bökkum Urriðavatns í júlí lok ársins 2019. Ljósmynd Vök Baths

Vök Baths eru heitar náttúrulaugar sem opnuðu um miðbik síðastliðins sumars og eru staðsettar á bökkum Urriðavatns við Egilsstaði. Það er opið allt árið í náttúrulaugunum og á bökkum þeirra er veitingastaður sem hefur þá sérstöðu að mikil áhersla er lögð á lífrænt hráefni úr heimabyggð, en um er að ræða smáréttastað þar sem týnt er til það helsta úr framleiðslu á svæðinu.


Blaðamaður ÚR VÖR heyrði í framkvæmdastjóra fyrirtækisins, henni Heiði Vigfúsdóttur og forvitnaðist um hvað boðið sé upp á þarna fyrir austan og hvernig hugmyndin að verkefninu hafi kviknað.


Heiður segir að verkefnið eigi sér langa sögu og að hugmyndin að því sé margra ára gömul. Hugmyndin á rætur að rekja aftur til ársins 1999 að hennar sögn, en þá kom fyrst fram sú hugmynd að byggja ylströnd við Urriðavatn.

Allt heita vatnið sem notað er til að hita upp Egilstaði og nágrenni kemur frá botni vatnsins og er þetta 75 gráða heita vatn sem þaðan kemur eina vottaða heita vatn landsins. Svo heilbrigt er umrætt vatn, að Heilbrigðiseftirlitið segir að það megi drekka.

Það kemur því ekki á óvart að með aðgangsmiða Vök Baths er innifalinn aðgangur að tebarnum þar sem hægt er að velja lífrænar jurtir af svæðinu og fá heitt vatn beint úr botni Urriðavatns í bollann.

Vök Baths, náttúruböð, Urriðavatn, Austurland, landsbyggð, frumkvöðlastarf, úr vör, vefrit
Laugarnar, eða vakirnar svokölluðu fljóta í Urriðavatni. Ljósmynd Vök Baths

Að sögn Heiðar fór svo undirbúningsvinnan fyrir Vök Baths á fullt fyrir þremur árum og er útkoman gæða baðstaður með mikla sérstöðu. „Þetta er í takti við önnur jarðböð og sjóböð þar sem fólk er að koma að upplifa náttúruna í fallegu umhverfi en við höfum þó okkar sérstöðu varðandi þessar fljótandi laugar í vatninu. Það er skemmtileg sagan með þetta heita vatn í Urriðavatni og er hún ástæðan fyrir hönnuninni á okkar laugum.

„Við tölum alltaf um laugarnar sem vakirnar okkar og eru vakirnar sem voru alltaf á vatninu þegar frysti, ástæðan fyrir því að þetta heita vatn fannst hér áður fyrr. Svo finnst okkur líka mjög gaman að nota þetta flotta íslenska orð - Vök, og skemmtilegt er að sagan sé sýnileg og að vísað sé í hana.“ segir Heiður.

Samkvæmt Heiði voru vakirnar fyrst efni í þjóðsögu, þegar fólk velti fyrir sér hverskonar skrímsli væri þarna eiginlega, hvort að það væri sjáfur Lagarfljótsormurinn sem ætti sér undirgöng úr Lagarfljótinu og bræddi og bryti ísinn og byggi til þessar vakir á vatninu. Hún segir að einkenni Urriðavatns væru þessar vakir og bætir við að fólk hafi notað þær í gegnum tíðina í ýmsum tilgangi, eins og til að þvo. Svo komst hitaveitan á slóðir um þetta vatn að sögn Heiðar og náði að bora fyrir því og er þetta stór þáttur í því að Egilstaðir og nágrenni byggðust upp á þann hátt sem raunin varð.

Vök Baths, náttúruböð, veitingastaður, Urriðavatn, Austurland, frumkvöðlastarf, landsbyggð, úr vör, vefrit
Veitingastaður er á staðnum og er lögð áhersla á lífræn hráefni og hráefni af svæðinu. Ljósmynd Vök Baths

Heiður segir að Urriðavatnið sjálft frjósi á veturna og fari upp í 15 gráður á sumrin. Hún segir að það hafi komið þeim mikið á óvart hversu margir fari líka út í vatnið sjálft frá laugunum og er það stór hluti af upplifun fólks.

„Við gerðum aðgang fyrir fólk að fara úr laugunum og út í vatnið sjálft ef einhverjir skyldu vilja. Við bjuggumst þó ekki við að mikill meirihluti gesta myndu gera það, en langflestir fara líka út í vatnið sama hvernig viðrar og fólki finnst það æðisleg upplifun.

„Það er líka gaman að sjá að heimafólk kemur mikið hingað og margir eiga árskort hér, en hátt í 800 manns hafa keypt það hjá okkur. Fólk er virkilega ánægt að fá þessa viðbót á svæðið, bæði fyrir sjálft sig og svo virkar þetta sem segull á svæðið og að styrkir þjónustu fyrir ferðafólk.“ segir Heiður.

Vök Baths, náttúruböð, Urriðavatn, Lagarfljótsormur, Austurland, landsbyggð, frumkvöðlastarf, úr vör, vefrit
Þjóðsagan sagði að Lagarfljótsormur ætti undirgöng frá Lagarfljóti og bryti ísinn og bræddi þar sem vakirnar voru. Ljósmynd Vök Baths

Vök Baths eru í samstarfi við Austra Brugghús á Egilstöðum og hafa látið búa til bjóra fyrir gesti sem hægt er að gæða sér á í laugunum. „Við lékum okkur svolítið með nöfnin á þeim, og heita bjórarnir Vökvi og Vaka. Lykilinnihaldið í bjórunum er heita vatnið úr Urriðavatni og svo er bætt við bankabyggi og fleirum hráefnum af svæðinu og er þetta því okkar bjór. Svona atriði gera okkur enn sérstakari og gera okkur enn meira spennandi áfangastað til að heimsækja.“ segir Heiður að lokum.Comentarios


bottom of page