Ólafur Brjánn Ketilsson býr á Selfossi ásamt konu og þremur börnum. Hann er tölvunarfræðingur að mennt og rekur hugbúnaðarstofuna Spinna veflausnir sem hann stofnaði árið 2013, eftir að hafa starfað við hugbúnaðargerð bæði í einkageiranum og hjá hinu opinbera í yfir 20 ár. Ólafur stofnaði fyrirtækið með það fyrir augum að fjölga atvinnutækifærum fyrir fólk með skerta starfsgetu, en sjálfur er hann með meðfædda CP hreyfihömlun.
„Ég stofnaði Spinna veflausnir með það í huga að reka framsækna hugbúnaðarstofu með áherslu á að nýta hæfileika þeirra sem eru með fötlun eða skerta starfsgetu við gerð vefsíðna og hugbúnaðar. Með þessu vildi ég skapa ákveðin tækifæri fyrir þennan hóp, tækifæri sem voru ekki til staðar áður“ segir Ólafur.
„Fólk með skerta starfsgetu eða fötlun er nefnilega fjölbreyttur hópur með ólíkar þarfir, áskoranir, menntun og svo framvegis. Það er því afar mikilvægt að í boði séu fjölbreyttir starfsmöguleikar fyrir fatlaða.“
Ólafur segir að viðskiptavinirnir séu oftast með einhverja hugmynd um eftir hverju þeir eru að leita, þó hugmyndirnar séu vissulega mislangt á veg komnar. „Við vinnum áfram með þá hugmynd sem viðskiptavinurinn hefur. Þegar við höfum gert uppkast er það sent fram og aftur á milli viðskiptavinarins og starfsmanna okkar, þar til viðskiptavinurinn er orðinn ánægður“ segir Ólafur. „Þegar vinnan við vefsíðuna hefst er það gert í rauntíma svo að hægt er að fylgjast með á vefnum og koma með uppástungur og ábendingar ef viðskiptavinurinn hefur aðra sýn.“
Vefsíðugerð er einnig mjög skapandi ferli og það er einmitt það sem Ólafi finnst skemmtilegast við starfið.
„Sköpunin er svo skemmtileg, að gera eitthvað nýtt. Þegar vefsíða er gerð blandast margir hlutir saman til dæmis hönnun, grafík, vídeó, og textagerð svo að vinnan er mjög fjölbreytt. Svo eru verkefnin sem við fáum eins misjöfn og þau eru mörg“ segir Ólafur.
„Við höfum til dæmis unnið fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu, fólk í ýmiskonar verktakaþjónustu, listamenn, fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum og góðgerðasamtök“ segir hann. „Þess má líka geta að góður vefur klárast aldrei. Sífellt er verið að bæta við og þróa hann áfram. Góð vefsíða er því eins og gott viskí, verður bara betri með tímanum.“
En skiptir vefsíða fyrirtækja eins miklu máli í dag og áður en samfélagsmiðlarnir hófu innreið sína? „Góð vefsíða er mjög hagkvæmur auglýsingarkostur og þar stjórnar fyrirtækið í einu og öllu hvaða skilaboðum það kemur á framfæri til sinna viðskiptavina“ segir hann. „Þetta snýst líka um trúverðugleika og traust, ég hugsa mig til dæmis alltaf tvisvar um ef fyrirtæki er ekki með heimasíðu, er kannski bara með facebook síðu og gmail netfang. Auðvitað er best að fyrirtæki auglýsi sig á sem flestan máta, sé með góða heimasíðu og einnig virkt á samfélagsmiðlunum“ segir Ólafur að lokum.
Commenti