Brugghús hafa skotið upp kollinum víða um land síðustu ár og er mikil gróska í þeim geira. ÚR VÖR mun flakka um landið og forvitnast um þessa starfsemi sem víðast á komandi misserum. Á dögunum fjölluðum við um Austra Brugghús fá Egilstöðum og að þessu sinni er komið að brugghúsinu Segull 67 á Siglufirði. Um er að ræða fjölskyldufyrirtæki sem sendi frá sér fyrsta bjórinn rétt fyrir jólin árið 2015. Blaðamaður ÚR VÖR sló á þráðinn norður og heyrði í forsprakka fyrirtækisins, Marteini B. Haraldssyni.
Marteinn segir að áður en að brugghúsið hafi verið gangsett hafi hann verið sjálfur að leika sér í gegnum tíðina að brugga og einnig hafi hann ferðast og skoðað hluti tengt bruggmenningu út í heimi. Við það hafi kviknað áhugi og í kjölfarið boðaði hann föður sinn og afa á fund og segist hafa náð að plata þá út í þessa starfsemi með sér.
Marteinn er fæddur og uppalinn á Siglufirði. Hann flutti þaðan til að fara í framhaldsskóla, en þegar hann eignaðist fjölskyldu þá hafi hann flutt aftur norður, fyrst til Akureyrar en síðar aftur í heimabyggð.
„Mér fannst auðvitað mest spennandi að framleiða í heimabyggð. Það var mjög gott að alast upp á Siglufirði, mikið frelsi og er minningin sterk um að hafa verið mikið úti að leika sér. Fólk talar um að þetta sé lítill bær og einangraður innan um fjöllin en þegar þú elst upp við þetta þá þekkirðu ekkert annað, þannig að svona er þetta bara.“ segir Marteinn.
Blaðamaður vefritsins leikur forvitni á að vita hvaðan nafn brugghússins, Segull 67 kemur. Marteinn segir að nafnið komi frá áttavita, sem var mikið notaður í siglingum í gamla daga. Hann segir að fyrirtækið sé tengt sjávarútvegnum og sjónum þarna fyrir norðan, auk þess sem að brugghúsið sé staðsett í gömlu frystihúsi.
„Svo er talan 67 er happatala fjölskyldunnar, sem hefur skotið upp kollinum hér og þar í gegnum tíðina. Langafi minn, Stefán Guðmundsson, keyrði um bæinn á sínum tíma á vörubíl með bílnúmerið F67. Svo var afi minn, sem er einn af stofnendum í fyrirtækinu, sjómaður og átti tryllur og báta sem voru með númerið SI-67.“ segir Marteinn.
Frystihúsið sem hýsir starfsemi Seguls 67 var byggt árið 1934. Þar var starfsemi til ársins 1980 og fluttist þá starfsemin og síðan þá hefur húsið verið í niðurníslu. Að sögn Marteins fékk fyrirtækið að nýta húsnæðið og ákveðið var að kaupa það á endanum.
„Við höfum verið að gera það upp og gera það að okkar. Það er mikil saga þarna og var stór vinnustaður á sínum tíma á Siglufirði. Það er virkilega gaman að vera með kynningarnar hérna hjá okkur og segja frá sögu hússins, smakka bjór og sýna bruggferlið í leiðinni.“ segir Marteinn.
Hann segir að fyrst hafi bara helmingur hússins verið nýttur undir starfsemina en nú sé búið að gera upp hinn helminginn, þar sem fiskvinnslan var, og sá hluti sé nýttur undir listasýningar í dag.
„Það hafa verið nokkrar sýningar þar, Listaháskóli Íslands hefur komið tvisvar með nemendur og þeir fengið að leika lausum hala þarna. Þetta er skemmtilegt og það kemur líf í húsið með þessu. Hún Alla frá Alþýðuhúsinu hefur aðstoðað okkur varðandi þetta og beint listafólki til okkar.“ segir Marteinn.
Marteinn segir að brugghúsið sé iðulega með fjórar tegundir í umferð hverju sinni, þrjá sem eru alltaf í boði og svo einn sem er breytilegur eftir árstíðum. Hann segir að þetta séu allt ógerilsneiddir og ósíaðir bjórar með engum viðbætti sykri. Í þeim sé bara þetta grunninnihald sem þurfi til og að bjórinn sé ferskur með styttri líftíma. Samkvæmt Marteini hafa viðtökurnar frá upphafi verið vonum framar og að starfsemin sé að víkka út hægt og rólega.
„Það sem hefur aðeins vantað mikið upp á hjá okkur er markaðssetningin. Við erum með vefsíðu og Facebook síðu og svo höfum við verið með kynningar á bjórunum. Þar hefur fólk komið til okkar, smakkað bjórinn og séð verksmiðjuna. En svo er auðvitað bann á auglýsingum á áfengi, þannig að það flækir málin aðeins varðandi markaðssetningu. Það eru kannski til einhverjar krókaleiðir, en við höfum ekki farið út í það.“ segir Marteinn.
Að sögn Marteins þyrfti að taka upp nýjar reglur hjá Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (Á.T.V.R.) varðandi að leyfa litlu brugghúsunum að halda lengur sínum bjórum inni hjá þeim í sölu. Hann segir að það séu bara ákveðið mörg sæti í hverjum flokki í boði og í raun og veru þurfi að slá út öðrum bjórum til að fá að vera áfram í sölu. Að sögn Marteins er þetta frekar vont fyrir hinn íslenska framleiðanda sem sé búinn að fjárfesta í vöru en fái svo ekki að vera með hana til sölu í versluninni. „En aftur á móti geta innflytjendur valið næsta bjór til að setja inn fljótt með litlum kostnaði ef einhver bjór dettur út. Það mætti því skoða þetta betur.
Ég veit að Á.T.V.R. er oft með nýjungar varðandi flokka á bjórum, en það mætti koma stærri breytingar. Svo mætti ríkisstjórninin opna á að brugghús geti selt beint bjórinn útúr húsi, án þess að settur sé upp bar. Það myndi auka tekjur talsvert og muna mikið um það.“ segir Marteinn.
Að sögn Marteins eru spennandi nýjungar væntanlegar hjá fyrirtækinu á þessu ári. „Við erum farin að vera með lager bjórinn í djósum hjá okkur, en hann hefur verið í flöskum hingað til. Dósirnar verða svo í umhverfisvænum pakkningum sem brotna niður í náttúrunni, þannig að það er ekki að fara að vefjast um fiskana í sjónum eins og maður hefur séð myndir af.
Svo erum við líka að fara af stað með eimingu og munum framleiða sterkari drykki og líkjör. Ég reikna með að menn fari svo að prófa sig áfram með viský og romm og fólk getur einnig komið í kynningar hvað þetta varðar.“ segir Marteinn að lokum.
Texti: Aron Ingi Guðmundsson
Comentarios