top of page

Vefrit fjármagnað af lesendum

Ef þér líkar við skrif okkar og efnistök og vilt sjá vefritið lifa og dafna þá er um að gera að gerast áskrifandi. Þinn stuðningur skiptir máli!

Nýsköpunarhemill Blábankans 2021


Blábankinn, nýsköpunarhemill, nýsköpun, Þingeyri, landsbyggðin, Startup Westfjords, úr vör, vefrit
Það var líf og fjör í Blábankanum fyrr í mánuðinum. Ljósmynd Blábankinn

Startup Westfjords eða Nýsköpunarhemill Blábankans á Þingeyri var haldinn vikuna 5. til 12. september og var þemað að þessu sinni framtíðarlifnaðarhættir. Í fréttatilkynningu frá Blábankanum segir að í nútímanum stöndum við frammi fyrir breytingum eins og aukinni tækniþróun, fólksfjölgun og loftlagsvá sem munu hafa áhrif á lifnaðarhætti okkar.

Slíkar breytingar bjóða upp á margskonar áskoranir og því mikilvægt að horfa til langtímamarkmiða og jafnvel endurhugsa viðtekin gildi og viðmið. Þess vegna var leitað eftir fjölbreyttum og skapandi hugmyndum tengdum lifnaðarháttum með framtíðarsýn að leiðarljósi að þessu sinni.

Innifalið í nýsköpunarhemlinum var vinnuaðstöða í Blábankanum, samfélags- og frumkvöðlasetrinu á Þingeyri. Reyndir ráðgjafar frá mismunandi sérsviðum komu á hverjum degi og voru með fyrirlestra á morgnana, opnar umræður með hópnum og einnig einstaklingsviðtöl um verkefni hvers og eins þátttakanda. Þess á milli var tími fyrir þátttakendur að vinna sjálfstætt í vinnurými Blábankans en eftir vinnudaginn var ýmist skipulögð útivist eins og bláberjatýnsla, sjósund og varðeldur á víkingasvæðinu. Einnig var farið í safnferð, bátsferð með Arctic Fish og í lok vikunnar var happy hour á Simbahöllinni og heimagerðar pizzur og kareókí kvöld í Blábankanum.

Í fyrrnefndri fréttatilkynningu segir að markmiðið með viðburðinum hafi verið að gefa þátttakendum tíma til þess að vinna í verkefninu sínu, veita þeim innblástur af umhverfinu og leiðbeinendum og leyfa þeim að njóta áhyggjulausu umhverfi fjarri hversdagsleikanum til þess að þróa verkefni sín áfram.
Blábankinn, nýsköpunarhemill, nýsköpun, Þingeyri, landsbyggðin, Startup Westfjords, úr vör, vefrit
Vinnuaðstaðan í Blábankanum á Þingeyri er til fyrirmyndar og ekki skemmir útsýnið fyrir. Ljósmynd Blábankinn

Þátttakendur komu úr öllum áttum, en verkefnin þeirra eiga það öll sameiginlegt að miða að sjálfbærri og framtíð. Sem dæmi má nefna verkefnið ReDo sem hvetur fyrirtæki til þess að fara sjálfbærarri leiðir í framleiðslu með því að leyfa neytendum að koma með hugmyndir af lausnum. Fyrirtækið Gróandi framleiðir grænmeti á sjálfbæran hátt en það stundar einnig það sem við köllum félagslandbúnað þar sem samfélagið tekur þátt í uppskeru og fær þar með í staðinn heilbrigða, góða og staðbundna fæðu. Einnig voru verkefni sem fjölluðu um nýjar leiðir til fyrir fólk að búa saman, að vinna saman og nýjar leiðir til þess að upplifa náttúruna.

Leiðbeinendur voru þau Þórður Hans Baldursson, Sigríður Guðjónsdóttir, Gunnar Ólafsson, Uta Reichardt og Svavar Konnráðsson.


Þess ber að geta að vefritið ÚR VÖR fjallaði um nýsköpunarhemil Blábankans í maí mánuði árið 2019 en hægt er að lesa allt um það hér: https://www.urvor.is/post/nyskopunarhemill-2019


Comments


bottom of page